149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:27]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er umræða sem þarf að eiga sér stað og sitt sýnist hverjum. Það hefur verið talað um auðlindagjald eða gjald af ferðamönnum til að standa undir kostnaði á uppbyggingu ferðamannastaða. Þetta er af svipuðum meiði, við þurfum að byggja upp þjónustu, hafnir og annað slíkt í byggðarlögunum en að stórum hluta er það eins og með hafnarmannvirki, greitt af ríkissjóði, jafnvel upp í 85%.

Mér finnst slík umræða alveg mega eiga sér stað jafnhliða þessu og mætti líka taka inn í fleiri auðlindagjöld. Þetta er alla vega ein leið til að jafna þann kostnað sem við horfum oft á sem þjóð eða samfélag. Nú er verið að ræða um sameiningu sveitarfélaga, þetta gæti verið stærra sveitarfélag eða landsvæði. Þetta getur komið inn í þá umræðu að eftir standa þorpin kannski með tómar bryggjur og enginn við bryggjuna en kostnaðurinn heldur áfram að tikka.