152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[15:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Í ræðu minni hér í gærkvöldi fór ég yfir almenn sjónarmið varðandi breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráðinu og vék síðan sérstaklega að málefnum umhverfis, loftslags og orku þar sem mér þykir skína í ákveðið bakslag í þeim málaflokki varðandi hvernig honum er fyrir komið í Stjórnarráðinu.

Mig langar í þessari stuttu síðari ræðu sem ég hef í umræðunni að beina sjónum mínum að öðrum tilteknum málaflokki og það eru málefni háskólanna. Þegar við fengum stjórnarsáttmálann í hendurnar var nefnilega dálítið umhugsunarvert ýmislegt sem var og var ekki sagt. Til dæmis var eftirtektarvert að háskólar voru yfirleitt bara nefndir í tengslum við atvinnulífið, sérstaklega reyndar matvælageirann, eins að stúdentar voru ekki nefndir þó að framfærsla stúdenta sé eitthvert títtnefndasta málefni háskólanna sem hefur komið hingað inn síðustu misseri.

Nú ætla ég ekki að gera lítið úr því að byggja þurfi brýr á milli háskóla og rannsókna annars vegar og iðnaðar og nýsköpunar hins vegar. Þessi tengsl atvinnulífs og nýsköpunar og háskóla eru góðra gjalda verð og stuðla að framþróun bæði í atvinnulífinu og innan háskólasamfélagsins. En þetta er tónn úr lagi sem var sungið í menntasamfélaginu fyrir kannski tíu árum. Núna er fólk bara farið að færa háskólakerfin sín á aðrar slóðir. Til dæmis er ekki minnst einu orði á menntun í tengslum við háskóla í greinargerð með þingsályktunartillögunni og síðan er framhaldsfræðsla slitin frá öðrum þáttum menntamála og færð í kafla þar sem hún er skilgreind sem atvinnu- og félagsmál, sem verkfæri til að takast á við tæknibreytingar. Það vantar tilfinningu fyrir menntun menntunarinnar vegna, þekkingu þekkingarinnar vegna sem á að vera hjartað í háskólastarfi að mati þess sem hér stendur.

Mig langar að nefna í þessu samhengi að stuttu eftir áramót er von á því að Evrópusambandið gefi út nýja áætlun í málefnum háskóla og þó að sú áætlun hafi ekki bein áhrif á Íslandi, eðli máls samkvæmt, mun hún vegna þess alþjóðasamfélags sem háskólarnir hrærast í auðvitað hafa áhrif á það hvernig háskólarnir starfa. Mariya Gabriel, framkvæmdastjóri menntamála í Evrópusambandinu, hefur talað um þrjár grunnstoðir í þessari stefnu, sem þó er enn óbirt í heild sinni, og fyrsta stoðin snýst um það hvernig háskólar hafa hlutverk í að standa vörð um samevrópskt gildi, bara gildi þess að vera Evrópubúi, og að þau geri það með því að bjóða upp á gæðanám, vera með inngildinguna alveg á hreinu þannig að öll geti notið menntunar, og að byggja undir virðingu fyrir lýðræðinu og akademísku frelsi. Þetta er fyrsti liðurinn. Annar liðurinn er síðan hvernig hægt sé að efla háskólana til að taka sér það lykilhlutverk sem þeim ber í grænu og stafrænu umbyltingunni sem er á fleygiferð þessa dagana. Í þriðja lagi er í þessari komandi stefnu Evrópusambandsins í málefnum háskólanna fjallað um samkeppnishæfni þeirra, það hvernig háskólar verði aðlaðandi samstarfsaðilar fyrir aðra háskóla fyrir rannsóknarsamvinnu og fyrir nýsköpun. Þetta er kannski sá punktur sem stefna núverandi ríkisstjórnar Íslands kemst næst því að ávarpa (Forseti hringir.) af þessum þremur sem Evrópusambandið setur á oddinn (Forseti hringir.) en samt ekki jafn vel og stefnir í að Evrópusambandið sjálft geri. Mér þykir miður, frú forseti, (Forseti hringir.) að í þessari sundurtætingu menntamálaráðuneytis líti út fyrir að háskólarnir muni ekki fá að dafna eins og þeir gætu.