152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[15:48]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann nefndi áhugasvið ráðherra á hverjum tíma: Telur hann að skipuleggja eigi Stjórnarráð Íslands út frá áhugasviði ráðherra í ráðuneytum en ekki út frá því hvað er faglega best fyrir ráðuneytið og samfélagið? Ég tek fram að ég tel að skipulagið sem kemur fram í forsetaúrskurðinum og þessari þingsályktunartillögu sé ekki gagnsætt og auki firringu í samfélaginu gagnvart Stjórnarráðinu.

Þarna er komið matvælaráðuneyti. Gamla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, sem er áratugahefð fyrir, og fleiri ráðuneyti sem búið er að breyta um nafn á — það er komið vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, það breytist síðan í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti. Hinn venjulegi Íslendingur veit að það er sjávarútvegsráðherra í landinu, landbúnaðarráðherra í landinu og svo áfram, dómsmálaráðherra. Svo er verið að grauta í öllum þessum nöfnum upp á nýtt. Venjulegur einstaklingur sem er ekki á kafi í pólitík og ekki á kafi í stjórnmálaumræðunni er algerlega áttavilltur í þessu, tel ég. Það væri gaman að heyra álit hv. þingmanns hvað það varðar.

Það er mjög mikilvægt að stofnanir samfélagsins, þessar vörður sem eru í stjórnkerfinu, séu ekki að breyta um skilti á hverjum tíma. Það ruglar fólk í ríminu, hið venjulega fólk. Ég er sjálfur ringlaður. Ég er þó lögfræðimenntaður og orðinn þingmaður og ég botna ekkert í þessari þingsályktunartillögu, ég verð að segja alveg eins og er. Ég ítreka, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, að ég tel þetta ekki standast 2. gr. og ég skora á alla þingmenn að lesa 2. gr. um hvernig tillaga forsætisráðherra til þingsins á að líta út. Þar stendur að ákveða skuli fjölda ráðuneyta og heiti þeirra með forsetaúrskurði, samkvæmt tillögu forsætisráðherra.