152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[16:07]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir þessa ábendingu og spurningu hv. þingmanns. Það er býsna flókið að eiga orðastað við stjórnarliða og reyna að fá fram svör við spurningum okkar þegar enginn er til svara, og ekki síst að ná upp málefnalegri umræðu um það sem við erum að fást við þegar stjórnarandstöðuþingmenn eru þeir einu sem taka til máls og eru að velta fyrir sér hinum og þessum hlutum. Það er mjög eðlileg krafa að þingmaður geti innt þann sem mælir fyrir máli svara um málið, til þess eru andsvör t.d., en verra er ef bíða á til lokaumræðu eftir að koma upp, af því að þá er umræðunni lokið. Það er spurning hvort við eigum að bregða á það ráð að allir taki sig af mælendaskrá til að reyna að fá hæstv. forsætisráðherra hingað til að ræða málin og við getum þá farið aftur í andsvör, eða hvernig eigum við að ná þessari umræðu þannig að við botnum í því hvað við erum að fjalla um hérna?