152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[16:23]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Við erum að ræða hérna mál um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Þetta er auðvitað mjög stórt og umfangsmikið mál, þvert á það sem mætti kannski ætla af sjálfu plagginu sem við höfum fyrir framan okkur. Það sem er líka svolítið sérstakt við þetta mál er að þvert á flest stjórnarmál sem ráðherrar bera fram er það þvert á málaflokka, þvert á fagráðuneytin. Það er kjarni akkúrat þessa máls. Í því felst að oft þegar hæstv. ráðherrar koma hingað upp og flytja sín mál þá eru það þeirra mál, það eru kjarnamál þeirra og það er í sjálfu sér ekkert við það að athuga þó að aðrir ráðherrar mæti ekki endilega í umræður og lýsi sig jafnvel algerlega hlutlaus eða stikkfrí í viðkomandi máli þar til kemur að atkvæðagreiðslu. Það er öllu sérkennilegra, vissulega, þegar um er að ræða stjórnarþingmenn sem lýsa sig áhugalitla um málið, a.m.k. ef marka má viðveru þeirra eða viðveruleysi hér í umræðunum. Þetta mál er sem sagt þess eðlis að þrátt fyrir að vera það sem það er, tillaga um gjörbreytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráðinu og nái til velflestra ráðuneytanna, er ein manneskja hér sem hefur mælt fyrir þessu máli og það er hæstv. forsætisráðherra. Ég þakka henni fyrir að sitja hér í salnum að hlusta þótt ég hefði, með fullri virðingu fyrir hæstv. forsætisráðherra, eiginlega viljað skipta henni út fyrir einhverja stjórnarþingmenn sem tækju þátt í umræðunum, ef það þyrfti þau skipti, helst hvort tveggja, vegna þess að við þurfum umræðuna um þetta mál. Þetta er mjög stórt og mikið mál. Það er mjög sérkennilegt og mér finnst synd að enginn 38 stjórnarþingmanna — og þegar ég tek ráðherrana frá og hæstv. forseta þá eru það 25 stjórnarþingmenn sem hljóta að styðja málið, það liggur í hlutarins eðli, þetta er komið út úr þingflokkum stjórnarflokkanna — komi hér og ræði þann stuðning sinn við okkur. Ég sakna þess að við tökum samtalið vegna þess að ég veit að margt sem hér er að gerast samkvæmt þessari tillögu, og ég er ekki að tala um þennan óútfyllta tékka sem fylgir því, óútfylltan tékka á ríkissjóð eingöngu, eru alls konar kerfisbreytingar sem hingað til hafa ekki verið endilega kjarninn í málflutningi einstakra stjórnarflokka og þaðan af síður einstakra stjórnarþingmanna. En nú er þetta óumdeilanlega þeirra stóra mál á þessu fyrsta ári endurnýjaðs stjórnarsamstarfs og ég sakna einfaldlega samtalsins. Hver eru rökin fyrir þessu? Og ég ætla að segja það bara hreint út að hrópandi fjarvera stjórnarliða annarra en hæstv. forsætisráðherra hér í dag segir ekkert annað en að þetta sé mál sem menn veigri sér við að ræða. Þetta er ekki mál sem hæstv. forsætisráðherra situr ein með í fanginu, ég get ekki ímyndað mér það. Það eru flokkar í þessu samstarfi sem hafa talað um ráðdeild í ríkisfjármálum. Sá flokkur hefur talað um það meira en hann hefur framkvæmt, það sýnir náttúrlega þróun ríkisútgjalda þau ár sem þessi ágæti flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur verið við stjórnvölinn. En menn tala engu að síður svona. Hvar eru þeir þingmenn? Framsóknarflokkurinn hefur líka talað á þann veg og hver er skoðun þingmanna hans á þessu? Er það djúp skoðun stjórnarþingmanna að þetta sé mikilvægt fyrsta skref eftir reynslu fyrstu fjögurra áranna, að þetta sé það sem þurfi til að færa Ísland áfram? Ég held reyndar að svo sé ekki. Ég held að við séum að tala hér um eins og margir hv. stjórnarandstöðuþingmenn hafa getið sér til um hér í þingsal, af því að það er það eina sem við höfum, það eru getgátur, að þetta sé niðurstaða af einhvers konar samningum á milli stjórnarflokkanna þegar þurfti að stokka spilin upp á nýtt eftir kosningar. Því er pakkað inn í umbúðir þess að þetta sé vel ígrundaður, með leyfi forseta, „lokaáfangi í umfangsmiklum breytingum á skipulagi Stjórnarráðs Íslands sem kynntar voru í tengslum við myndun nýrrar ríkisstjórnar í lok nóvember sl. …“ Ef þetta er lokaáfanginn, frú forseti, þá hef ég misst af öllum milliköflunum í þessu máli og ég held reyndar að fleiri hafi gert það miðað við það hversu lítt tilbúnir ráðherrar voru, miðað við þögn stjórnarþingmanna og miðað við þær fréttir sem berast innan úr ráðuneytunum um hversu óviðbúnir starfsmenn þar eru þessum verkefnum.

Það er viðbúið að þetta muni taka gríðarlegan tíma að raungerast til viðbótar við þann kostnað sem menn hafa þegar slegið á, sem eru einhverjar kæruleysislegar nokkur hundruð milljóna, svo ég vitni í hæstv. fjármálaráðherra, og það er líka kostnaðarsamt. Nú er það ekki svo að ég sé á móti breytingum, sannarlega ekki. En ég er mjög svo á móti illa ígrunduðum breytingum og ég held að við séum það flest. Ég er líka á móti því að svona hlutir séu gerðir að einhvers konar skiptimynt í valdatafli. Það er svolítið tilfinningin. Sú tilfinning er vond og þá skiptir engu hvort maður stendur í stjórnarandstöðu eða stjórn hér á þingi, það er vont að hafa þá upplifun og það er ekki síst þess vegna sem ég hef a.m.k. óskað eftir því að fá útskýringar frá stjórnarþingmönnum um jákvæðar hliðar þessa máls. Í greinargerð tillögunnar er vitnað til þess að það sé jákvætt að auka sveigjanleika stjórnkerfisins. Það er jákvætt að auka samvinnu og samstarf þvert á ráðuneyti og það er jákvætt að auka stefnulipurð. Þetta er allt hárrétt. En þetta er ekki neitt sem maður gerir með því að brjóta niður eitt ráðuneyti og byggja upp annað. Það er ekki það. Þá ertu bara að brjóta niður veggi og reisa þá annars staðar og færa til. Það kemur rót í einhvern tíma og svo festist allt í sama horfinu. En það að auka samstarf á milli ráðuneyta sem fyrir eru, hvort sem það eru nákvæmlega þau ráðuneyti sem eru núna eða einhvers konar breytt, er hinn raunverulegi sveigjanleiki og það er hin raunverulega stefnulipurð sem ég er algerlega sammála að kallað sé eftir.

Síðan er það auðvitað hitt og það er fjölgun ráðherra. Við erum ekkert að stækka sem þjóð það hratt að hér þurfi að fjölga ráðherrum um einn eða tvo í hvert skipti sem stjórnmálaflokkar þurfa að koma sér saman um stjórnarsamstarf. Við hljótum að geta fundið aðrar leiðir til þess.

Það eru gríðarlega margar spurningar sem vakna. Sú sem er mest aðkallandi núna, og það helgast kannski af því að við erum samtímis að ræða fjárlög og fjáraukalög, er kostnaðurinn sem af þessu hlýst. Þá er ég ekki að meina hversu mikið þetta kostar endilega í útsettum peningum heldur kostnaðurinn umfram það sem við fáum í staðinn af því að það er óljóst. Ég ætla að leyfa mér að standa hér og segja að ég tel það ekki til tekna fyrir íslenska þjóð að einhverjir þingmenn stjórnarflokkanna séu ánægðir af því að þeir fengu nýja ráðherrastóla. Það er bara ekki það sem við eigum að vera að ræða hér. Kostnaðurinn er óljós. Síðan er það hitt að verkefnin eru vægast sagt á reiki og ég sakna virkilega mikið umræðu um hvað það er sem við eigum að fá út úr þessu.

Ég verð að segja, frú forseti, að þegar þetta er allt saman tekið og ég hef hlustað á umræðurnar hérna og þögnina, hún eiginlega segir mér meira, þá minnir þetta mig svolítið á fólk í sambandi sem er orðið þreytt hvort á öðru og það sem í upphafi var sætt og huggulegt er orðið svolítið þreytandi, farið að fara í taugarnar. Það er virkileg þreyta, það eru brestir. En það er væntumþykja, það er eitthvað þarna og þá þarf að gera eitthvað til að lengja í sambandinu. Þegar um er að ræða sambönd einstaklinga þá verður stundum barn til og ég er mjög fegin því, ég ætla bara að segja það hér og nú, að stjórnmálaflokkarnir Vinstri græn og Framsókn og Sjálfstæðisflokkur geta ekki eignast barn saman. (Forseti hringir.) En sú tillaga sem við ræðum hér er einhvern veginn þess háttar, það er tilfinningin. (Forseti hringir.) Það eru ekki endilega orð hæstv. forsætisráðherra vegna þessa erindis hér sem benda til þess heldur öskrandi þögn allra hinna.

(Forseti (OH): Ég vil biðja hv. þingmenn um að virða ræðutímann.)