152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:32]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ástæðan fyrir tilflutningi mannréttindamálanna er í raun og veru sú samlegð sem við sjáum með mannréttindamálum og skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu þar sem er mikil þekking á þessu sviði. Það er mín sannfæring að lögfesting sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eigi að vera forgangsmál og samkvæmt sérfræðingum okkar þýðir það sjálfstæða mannréttindastofnun þannig að þetta verður verkefni sem við munum núna takast á hendur að reyna að ljúka og er undirstrikað í stjórnarsáttmála. Ég ætla bara að segja, af því ég veit að hv. þingmaður brennur fyrir þessu máli, að það er mjög mikilvægt að við ljúkum því með sóma en ég trúi því líka að sú þekking sem er í forsætisráðuneytinu á málaflokki jafnréttismála muni hjálpa okkur til þess að keyra þetta vel og ljúka því.

Hvað varðar umhverfis- og orkumálin: Það er nefnilega svo að umræðan hefur breyst gríðarlega mikið á undanförnum árum. Við erum að nálgast loftslagsmálin út frá því að við þurfum að ráðast í orkuskipti. Við erum með nýja orkustefnu sem í raun og veru snýst ekki minnst um umhverfismál og líka um náttúruverndina. Ég held að þessi breyting auki samlegð í þessum málaflokki og skapi möguleika á því, eins og hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur sagt, að taka þessa umræðu aðeins upp úr skotgröfunum sem hún hefur verið í. Ég held að það séu líka mikil sóknarfæri.

Hv. þingmaður spyr um afstöðu mína til virkjana samkvæmt rammaáætlun og ég get bara sagt að ég hef stutt rammaáætlun sem tól og mér finnst það besta verkfærið sem við eigum í þessum málum. Ég samþykkti 2. áfanga rammaáætlunar og tel að við eigum að koma þeim 3. í gegn. Ég er alveg sammála því sem kemur fram í stjórnarsáttmála, að það er full þörf á að endurskoða lögin og fara yfir þau. En þessi hugmyndafræði er sú besta sem við eigum og við eigum að halda í þetta verkfæri þegar við erum að taka mikilvægar ákvarðanir um bæði orkunýtingu en ekki síður vernd.