Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Niðurstöður starfshóps um neyðarbirgðir, munnleg skýrsla forsætisráðherra .

[14:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þetta tækifæri til að fá að gera hér grein fyrir skýrslu sem unnin var fyrir þjóðaröryggisráð um birgðastöðu landsins, þ.e. neyðarbirgðir ef upp koma þannig aðstæður að ekki sé hægt að flytja inn aðföng til landsins. Af hverju er þetta mikilvægt? Þetta er nú fyrir okkur sem sátum hér á þingi eftir efnahagshrun að einhverju leyti gamalkunnug umræða því að þá var töluvert rætt um að marka þyrfti stefnu um hvað væru ásættanlegar birgðir í landinu í tilteknum vöruflokkum. Slík ábending var áréttuð í matsskýrslu þjóðaröryggisráðs árið 2021 þar sem bent var á að það þyrfti að skilgreina hvað félli í raun undir svokallaðar hagvarnir og setja viðmiðanir um þær nauðsynlegu birgðir og viðbúnað sem þyrfti að vera til í landinu á hverjum tíma þegar hættu- eða neyðarástand skapaðist. Þar voru taldar upp olíubirgðir, viðhaldshlutir í raforku- og fjarskiptakerfi, lyfjabirgðir sem og lágmarksbirgðir af matvælum og aðföngum til matvælaframleiðslu. Þessi ábending í matsskýrslu þjóðaröryggisráðs endurspeglast í stefnu í almannavarna- og öryggismálum 2021. Þar er lagt til að forsætisráðuneytið leiði starfshóp allra ráðuneyta sem kalli til sín þá aðila sem koma að því verkefni að tryggja nauðsynlegar birgðir til að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum. Þetta er auðvitað verkefni sem hefði líklega átt að ráðast í beint eftir hrun en varð út undan þá í öllu því sem gekk á. En þjóðaröryggisráð ákvað að setja þessa vinnu af stað í raun og veru í kjölfar þess að við legðum fram ástandsmatsskýrslu okkar og undir það var tekið af almannavarna- og öryggisráði.

Hingað erum við komin og þessi skýrsla hefur verið birt. Það er kannski ekki skrýtið að þetta sé ekki ofarlega í huga almennings á þeim tímum sem við lifum þar sem við erum búin að venjast því að geta í raun og veru pantað vörur frá öðrum heimshornum og fengið þær sendar nánast daginn eftir. Að sjálfsögðu hafa tækniframfarir með tilkomu internetsins og pantana sem og greiðar leiðir í samgöngum orðið til þess að ekki telst endilega ákjósanlegt að liggja með miklar birgðir hjá þeim aðilum sem eru í innflutningi, eðlilega. Þess vegna er svo mikilvægt að stjórnvöld setji ákveðin viðmið, að Alþingi fjalli um slík viðmið. Hvaða kröfur er hægt að gera á hendur t.d. einkaaðila sem annast innflutning á tilteknum vörum og hvaða stefnu viljum við marka varðandi okkar eigin framleiðslu á vörum?

Ísland er lítið opið hagkerfi og við erum háð innflutningi á flestu. Það er svo, eins og ég nefndi, að það hefur orðið þessi hraða þróun í samskipta- og flutningatækni og flutningum um heim allan. Viðskipti hafa auðvitað bara aukist á heimsvísu sem hefur leitt til samþættingar á vöruþróun og framleiðslu á flestum sviðum þannig að hráefni, vöruframleiðendur og viðskiptavinir eru dreifðir um allan heim. Það þykir ekkert tiltökumál að eiga viðskipti við verslanir í öðrum heimshlutum. Það er bara hluti af nútímanum og birgðahald hér á landi tekur mið af þessu. Það má segja að birgðahald flestra fyrirtækja hafi minnkað vegna þessarar þróunar og miðist við lágmarksbirgðir með tilliti til tíðni flutninga og eftirspurnar. Margt af því sem telst hins vegar til grundvallarlífsnauðsynja er algerlega háð innflutningi til landsins og þess vegna er svo mikilvægt að við setjum ákveðin viðmið og látum það ekki eingöngu eftir því hvað hentar hverjum aðila á markaði hvað er æskilegt að sé til staðar í landinu. Við erum auðvitað nýkomin út úr heimsfaraldri sem hafði mikil áhrif á aðfangakeðju. Þar komu upp dæmi sem kannski öll eru búin að gleyma núna, því að við gleymum svo hratt, en ég vil bara rifja það upp að ekki löngu fyrir heimsfaraldur ákváðu sænsk stjórnvöld að farga töluverðum birgðum af hlífðarbúnaði, sem þau hefðu betur ekki gert, vegna þess að þau vildu ekki liggja með umfangsmiklar birgðir, sem við skiljum algerlega. Við fundum það líka að það þurfti verulega mikla vinnu til að tryggja aðföng til Íslands af lækningatækjum, hlífðarbúnaði, bóluefnum og raunar var það ekki síst vegna góðra samskipta við sænsk stjórnvöld, svo ég nefni þau aftur, og svo í gegnum Evrópusambandið í gegnum Svía, vegna þess að aðfanga- og vörustjórnunarkeðjur röskuðust sem og samgönguleiðir. Og nú geisar stríð eftir ólögmæta innrás Rússa í Úkraínu sem að sjálfsögðu hefur áhrif á þessar aðfangakeðjur líka.

Ég skipaði þennan hóp í mars síðastliðnum sem átti m.a. að skilgreina, því að það eru ekki allt endilega neyðarbirgðir og það lærðum við í hruninu þegar við vorum að ræða hvað í raun og veru mætti flytja inn og hvað ekki, það þurfti að forgangsraða. Þannig að hér er gerð atlaga að því að skilgreina hvað teljist til neyðarbirgða, hvert umfangið eigi að vera og hvar skyldan eigi að liggja til nauðsynlegs birgðahalds. Líka er fjallað um söfnun upplýsinga um stöðu birgðahalds og hvernig fari best á því að halda utan um þær upplýsingar til að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar, bregðast við óásættanlegri birgðastöðu og hafa þá sömuleiðis verkferla til að geta stýrt því hvernig þær birgðir eru nýttar. Þarna sátu fulltrúar ráðuneyta, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Rauða krossins á Íslandi, Bændasamtakanna auk tengiliða Skattsins og Hagstofunnar.

Í skýrslunni eru nokkrir flokkar skilgreindir. Í fyrsta lagi matvæli og nauðsynleg aðföng vegna matvælaframleiðslu, jarðefnaeldsneyti, lyf, lækningatæki og hlífðarbúnaður, viðhaldshlutir og þjónusta vegna mikilvægra innviða, svo sem rafmagns- og fjarskiptaveitna, samgangna, neyðar- og viðbragðsþjónustu, mannvirkja og annars, og hreinlætisvörur og sæfivörur. Það er t.d. sótthreinsir og eitthvað slíkt. Það er fjallað ítarlega um hvert einasta svið, greint hvaða áskoranir eru fyrir hendi og komið með tillögur til úrbóta um hvert svið og að lokum eru í skýrslunni almennar tillögur til úrbóta. Við höfum tekið skýrsluna til umfjöllunar bæði á vettvangi ríkisstjórnar og þjóðaröryggisráðs og það varð niðurstaða þjóðaröryggisráðs að við vildum birta þessa skýrslu vegna þess að okkur finnst þetta vera mikilvægar upplýsingar sem eiga erindi við almenning. Í kringum þessa vinnu hefur hvert og eitt ráðuneyti sem ber ábyrgð á viðeigandi málaflokki sett af stað vinnu til að tryggja að þessi mál verði með ásættanlegum hætti. Í samræmi við ábyrgð hvers ráðuneytis er það þeirra hlutverk að leiða samráð ríkisaðila, atvinnulífs og þriðja geirans innan um tillögur um eftirfarandi til að styrkja áfallaþol:

Hvaða vörur og tæki nákvæmlega teljast nauðsynlegar til að tryggja lífsafkomu? Hvað getum við kallað nauðsynlegt magn af birgðum á þessu sviði? Hvernig á fyrirkomulag birgðahalds að vera og hvernig á að hátta upplýsingagjöf um birgðastöðu í rauntíma til eftirlits og umsjónaraðila innan hvers geira á þeim vörum og tækjum sem teljast til neyðarbirgða sem hefur þá yfirsýn um stöðu neyðarbirgða á grundvelli skýrra lagaheimilda?

Þegar um er að ræða birgðir og íhlutun til viðhalds á nauðsynlegum samfélagsinnviðum fer best á því að opinberir eftirlitsaðilar með viðkomandi starfsemi fái nýtt lögbundið hlutverk, að sinna jafnframt eftirliti með skilgreindum nauðsynlegum viðhaldsbirgðum eftirlitsskyldra aðila. Það þarf þá að gæta að því að það getur verið um viðkvæmar viðskiptaupplýsingar að ræða og gera þarf nauðsynlegar ráðstafanir í því skyni til að tryggja öryggi þeirra. Það þarf einnig að meta þörf á lagabreytingum.

Ein af lykiltillögum skýrslunnar er rauntímaupplýsingar um birgðahald og að það verði rafrænn upplýsingabrunnur og lagt er til að forsætisráðuneytinu verði falið að hafa forgöngu um samvinnu hlutaðeigandi ráðuneyta og stofnana við að koma á laggirnar slíkum miðlægum grunni. Það þarf að tengja fyrirliggjandi gagnagrunna, eins og t.d. hjá Orkustofnun og Lyfjastofnun, og búa til nýja á hverju sviði en slíkar upplýsingar í rauntíma eru forsenda þess að það sé hægt að leggja mat á raunverulega birgðastöðu og forsenda þess að ríkisstjórnin geti tekið málefnalega ákvörðun um heimild um að nýta neyðarbirgðir, forgangsraðaða þeim og stjórna þeirri nýtingu.

Í skýrslunni er það reifað að rétt sé að miðlægum aðila á vegum ríkisins verði falið að hafa yfirumsjón og eftirlit með neyðarbirgðum, að fylgjast með birgðahaldi á einstökum sviðum og annast rekstur og viðhald hins miðlæga gagnagrunns á grundvelli fullnægjandi lagaheimilda. Það er sem sagt lagt til að forsætisráðuneytið undirbúi þá vinnu en nefndir eru tveir aðilar sem þar kynnu að þurfa að koma að. Það er annars vegar ríkislögreglustjóri sem hefur samkvæmt almannavarnalögum víðtækt umsjónar- og eftirlitshlutverk og það kann að koma til greina að fela því embætti yfirumsjón og eftirlit með neyðarbirgðum. Hagstofan er auðvitað miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar og það væri þá nýtt hlutverk ef Hagstofunni væri falið að hafa eftirlit með rauntímaupplýsingum um stöðu neyðarbirgða. Ljóst er alla vega að báðir þessir ríkisaðilar þurfi að hafa aðkomu að þessu verkefni en hvernig nákvæmlega útfærslan verður er nokkuð sem við eigum eftir að vinna úr á vettvangi forsætisráðuneytisins.

Samkvæmt 27. gr. laga um almannavarnir tekur ríkisstjórn ákvarðanir um skömmtun og stýringu neyðarbirgða þegar almannaheill krefur vegna hættu á náttúruhamförum, farsóttum, hernaðaraðgerðum, hryðjuverkum eða annarrar hættu. Þá eru gefin tilmæli að fengnum tillögum hlutaðeigandi ráðherra í ljósi ábyrgðarsviðs hans eftir að hættustigi eða neyðarstigi almannavarna hefur verið lýst yfir. Þær yrðu mótaðar í samráði við viðkomandi umsjónar- og eftirlitsaðila birgðahalds á tilteknum sviðum.

Ég ætla að hlaupa hratt yfir skýrsluna sjálfa þar sem er byrjað á að fjalla um matvæli og aðföng til matvælaframleiðslu þar sem annars vegar eru reifuð þessi almennu sjónarmið sem ég hef þegar farið yfir og sé ekki ástæðu til að endurtaka hér. Kveðið er á um að það sé æskilegt að matvælaráðuneytið hafi samráð, sérstaklega við landlækni, um hvers konar birgðir eigi að vera aðgengilegar en einnig að það þurfi að eiga samráð við helstu afurðafyrirtæki landbúnaðarins á sviði mjólkur-, kjöt- og grænmetisframleiðslu, funda með helstu fóðurframleiðendum, kornvöruinnflytjendum til að fá upplýsingar um birgðastöðu á kornvörum og geymslurými þeirra sömuleiðis, bæði hvað varðar dýrafóður og hins vegar kornvörur til manneldis, manneldisfóður, þetta er óheppilegt. Enn fremur að eiga samráð við áburðarinnflytjendur til að fá upplýsingar um almenna birgðastöðu áburðar. Það þarf að eiga samráð við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Félag atvinnurekenda um innflutt matvælin sem og Samtök verslunar og þjónustu. Eins og ég nefndi áðan þá getur stundum verið um að ræða viðkvæmar viðskiptaupplýsingar en þarna skiptir svo miklu máli að finna þetta jafnvægi þannig að við tryggjum gott samráð við einkaaðila og þriðja geirann en setjum um leið þessi skýru viðmið um birgðir.

Hér er fjallað um lyf, lækningatæki og hlífðarbúnað og er rætt um að lágmarksbirgðir flestra lyfja eru að jafnaði til í landinu ef undanskilin eru samningslyf. Það er engin framleiðsla á almennum lyfjum í landinu sem sinnir innanlandsmarkaði þannig að það er áskorun. Það er mikilvægt að skilgreina áhættulyf og nauðsynleg lyf til að hægt sé að horfa til aukins birgðahalds á hættustundu, hraða vinnu við skilgreiningu lyfja á lyfjalista sem eru nefndir hér í skýrslunni. Enn fremur er bent á að það sé ekki finna skýra heimild eða skyldur stjórnvalda í lögum til miðlægs öryggisbirgðahalds lyfja, lækningatækja og annars búnaðar. Í frumvarpi til nýrra sóttvarnalaga sem von er á hér á þessu þingi er lagt til að bætt verði úr þessu og sóttvarnalæknir hafi umsjón með slíku birgðahaldi en unnt sé að fela einstökum stofnunum tiltekin hlutverk.

Lagt er til, og ég er að vitna í skýrsluna þegar ég segi þetta, að endurskoða lyfjalög með tilliti til að opna heimildir til að takmarka notkun og ávísun lyfja á hættustundu, fylgja eftir innleiðingu Evrópureglugerðar um birgðahald lyfja og lækningatækja á hættustundu. Hún hefur enn ekki verið tekin upp í EES-samninginn. Hér er sérstaklega rætt um sameiginleg innkaup lyfja á hættustundu með alþjóðlegu samstarfi. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og við erum nýkomin út úr heimsfaraldri sem sýndi fram á mikilvægi þess að eiga gott alþjóðlegt samstarf um slík innkaup, þannig að ég get ekki undirstrikað þetta nægjanlega. Enn fremur þarf að skilgreina lista nauðsynlegra lækningatækja.

Hér er síðan fjallað um jarðefnaeldsneytisbirgðir. Það er lagt til að lögfest verði 90 daga lágmarksviðmið olíubirgða hér á landi og það mætti skoða innleiðingu slíkrar kröfu í einhverjum áföngum. Það þarf sömuleiðis að skilgreina hlutverk aðilanna, þ.e. hver ber ábyrgð á hverju, og eiga samráð við helstu aðila. Og greina aukinn kostnað, og þetta hefur verið bent á af þeim aðilum sem eru að flytja inn olíu- og jarðefnaeldsneyti, að það hafi í för með sér aukinn kostnað að liggja með auknar birgðir og það þarf auðvitað að ræða það hver eigi að bera þann aukna kostnað ef birgðirnar eru svo ekki nýttar.

Viðhaldshlutir — þetta er eitt af því sem kemur einhverjum á óvart, að þetta sé skilgreint sem neyðarbirgðir en augljóslega er þetta grundvallaratriði til þess að innviðir samfélagsins virki sem skyldi. Þar er lagt til að skilgreina hvaða viðhaldshlutir þurfi að teljast til neyðarbirgða. Enn fremur að miðlægar stofnanir komi á laggirnar þessum miðlæga upplýsingagrunni með rafrænni skráningu upplýsinga um innflutning og birgðastöðu nauðsynlegra viðhaldshluta eða íhluta til að tryggja virkni mikilvægra innviða. Framkvæmd verði veikleika- og styrkleikagreining á öllu viðbragðskerfinu, hvort birgðir séu nægjanlegar og endurspegli þarfir, áhættumat og aðgengi.

Síðan eru það sæfivörur og hreinlætisvörur. Þar er velt upp, eins og raunar í matvælakaflanum þar sem er rætt um möguleika á því að við setjum okkur markvissa stefnu um eflingu innlendrar matvælaframleiðslu til að auka hér fæðuöryggi, mögulegri innlendri framleiðslu t.d. á handsótthreinsi. Enn fremur að fela viðeigandi stofnun eftirlit með birgðastöðu almennra hreinlætisvara. Það er fjöldi fyrirtækja sem flytur inn slíkar vörur auk þess sem einhver framleiðsla er í landinu.

Í lokakaflanum eru svo almennari skref. Eins og þið heyrið er þetta í raun og veru misþróað eftir geirum en eigi að síður eru það sömu lögmál sem gilda. Nú er það svo að ráðuneytin eru komin af stað. Á þingmálaskrá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra er til að mynda þingmál á vormisseri sem fjallar um viðmið fyrir nauðsynlegar eldsneytisbirgðir. Þar búum við að því að við erum með alþjóðleg viðmið sem hægt er að byggja á. Síðan er það skref tvö sem er rauntímaupplýsingar um birgðahald sem ég fór hér yfir og skiptir máli einmitt að tengja fyrirliggjandi gagnagrunna saman. Svo er það yfirumsjón og eftirlit með þessum rafræna upplýsingagrunni og það þarf þá að meta það hvaða aðilar eru best til þess fallnir að hafa þá umsjón og ég fór yfir það áðan. Síðan að sjálfsögðu er það skömmtun og stýring á úthlutun neyðarbirgða ef svo illa vildi til að við þyrftum að nýta þessar birgðir.

Ég vil segja það hér í lokin að ég hef verið mjög ánægð með þá vinnu sem þjóðaröryggisráð hefur lagt í á þeim vettvangi. Fram undan er endurskoðuð þjóðaröryggisstefna og ég held að ráðið sem slíkt hafi sýnt það á þessum árum sem það hefur verið starfandi að þetta er mikilvægur vettvangur. Það er verið að vinna í anda þjóðaröryggisstefnunnar þar sem við erum að reyna að horfa á öryggishugtakið út frá þessari breiðu sýn og horfa í þessu tilfelli á það út frá hagvörnum og áfallaþoli samfélagsins. Þessi skýrsla er því auðvitað löngu tímabær en ég tel að hún sé vel unnin og leggi grunninn að því sem þarf að koma í framhaldinu.

Ég held að það skipti miklu að það takist vel til með samráðið sem er fram undan við þá aðila sem eru að flytja inn þessa mikilvægu hluti sem skipta máli fyrir neyðarbirgðir og ég hef reyndar ekki áhyggjur af því. Ég held að það hljóti að vera hagur okkar allra, fyrirtækja og almennings, að sýna samfélagslega ábyrgð í þeim efnum. En ég ítreka það að ábyrgðin er auðvitað stjórnvalda að setja viðmiðin í góðu samráði þannig að þetta sé allt innan skynsamlegra marka, því að við viljum heldur ekki sitja uppi með haug af einhverjum birgðum sem aldrei eru nýttar. Það hefur eingöngu í för með sér kostnað og sóun. Við megum ekki bara nálgast þetta út frá því að sanka að okkur öllu því sem þarf til þess svo að henda því öllu einhverjum árum eða áratugum síðar.

Það er gert ráð fyrir því að fyrsta skrefinu, sem er sem sagt vinnan á vettvangi ráðuneytanna, verði lokið á fyrsta ársfjórðungi ársins 2023. Þá verðum við komin með tillögur um nauðsynlegar birgðir á hverju sviði og mat á stöðunni og sömuleiðis munu liggja fyrir á sama tíma niðurstöður um tilhögun upplýsingagjafar um birgðastöðu í rauntíma, þannig að við séum komin þangað. Ég hef þá trú að við eigum eftir að vera að vinna úr þessari skýrslu allt næsta ár því að við eigum eftir að sjá að þetta eru misflókin, vil ég segja, viðfangsefni eftir geirum og geirarnir mislangt komnir. Til að mynda hefur verið innleitt töluvert af Evrópuregluverkinu á sviði heilbrigðisvara og lyfja sem hefur skipt verulegu máli í þessum efnum en við sjáum samt að þar þarf að gera meira. Annars staðar eru til alþjóðleg viðmið sem tiltölulega einfalt ætti að vera færa í íslensk lög en það skiptir máli hvernig samráðið tekst til við innflutningsaðilana þannig að við séum heldur ekki að leggja óhóflegar byrðar á þá. Þegar kemur að matvælunum er þetta samspil innflutnings og svo frumframleiðslu á matvælum sem þarf að leggja mat á þannig að viðfangsefnin eru aðeins ólík eftir flokkum.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra því að tími minn er á þrotum en ég tel að þessi skýrsla sé góður grunnur fyrir framhaldið. Vinnan er komin af stað og ég vonast til þess að á komandi ári verðum við komin á þann stað að við getum sannarlega sagt að við séum búin að huga að áfallaþoli samfélagsins og nauðsynlegum birgðum fyrir lífsafkomu þjóðarinnar.