Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Niðurstöður starfshóps um neyðarbirgðir, munnleg skýrsla forsætisráðherra .

[15:44]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir sína framsögu hér í upphafi og kynningu á þessari skýrslu starfshóps um neyðarbirgðir. Eftir lestur skýrslunnar verð ég að segja að manni hafi aðeins brugðið við þó svo að umræðuefnið sé kannski ekkert nýtt af nálinni. Það vill þannig til að stundum er maður bara með einn málaflokk í huga og horfir mikið til hans og það snýr að fæðuöryggi þjóðarinnar, og er það nefnt hér. En síðan komu aðrir þættir sem eru verulega sláandi eins og þeir sem snúa að eldsneytisbirgðum og þess háttar.

Aftur á móti ber að þakka það að forsætisráðherra, með þjóðaröryggisráð með sér í liði, hafi tekið af skarið með þetta og birt þessa skýrslu og kynni hana nú fyrir almenningi. Þetta verkefni verður ekki leyst á einum degi og það þurfa allir að leggjast á árar til þess að uppfylla megnið af þeim skilyrðum sem eru nefnd í skýrslunni. Í framsögu sinni kom hæstv. forsætisráðherra inn á að þetta hefði svolítið verið rætt í lok bankahrunsins eða efnahagshrunsins hér á landi, síðan náttúrlega reis landið aftur og þá gleymdu þessu allir. Eins og vill oft verða með okkur Íslendinga þá erum við svolítið fljótir að gleyma og segja þetta reddast, eins og hv. þingmaður Gísli Rafn Ólafsson kom inn á áðan. Aftur á móti er það þannig, og ég myndi segja að það væri alveg séríslenskt fyrirbrigði, að við sjáum stundum ekki fram fyrir tærnar á okkur fyrr en við stöndum á bjargbrúninni og þá ætlum við að stökkva til og snúa til baka. Það er því mjög mikilvægt í því samhengi að taka þessa umræðu hér og umræðan hefur verið virkilega fræðandi frá öllum sem tekið hafa til máls og merkilega hófstillt líka. Í grunninn er það þannig að það sjá allir sem lesa þessa skýrslu að við þurfum að bregðast við og í því samhengi vil ég minna á að við ræddum hér fæðuöryggi fyrr á þessu ári, 9. febrúar. Það lýsir því svolítið vel hvernig við erum sem þjóð að fólki var svo sem ekkert verulega brugðið. Síðan liðu tvær til þrjár vikur þangað til styrjöld braust út í Úkraínu og þá fórum við verulega að hugsa um þetta og hæstv. forsætisráðherra hvatti að sjálfsögðu til, eins og kemur fram í skýrslunni, að farið yrði af stað og þetta skoðað.

Ég ætla aðeins að grípa niður í þann hluta skýrslunnar sem snýr að því hvernig verkefnið var afmarkað, sem snýr að matvælum og nauðsynlegum aðföngum til matvælaframleiðslu. Síðan er komið inn á jarðefnaeldsneyti, lyf og lækningavörur, varahluti og hreinlætis- og sæfivörur. Ég ætla að dvelja aðeins við matvæli, áburð, korn og nauðsynjar sem eru á bls. 12 í skýrslunni. Þessi atriði koma svo sem vel fram í skýrslu sem Landbúnaðarháskóli Íslands sendi frá sér 2021 þar sem fjallað er um fæðuöryggi og hvað þarf til að uppfylla það. Við stöndum okkur að mörgu leyti vel víða en við erum vissulega mjög háð innflutningi á mörgum vörum, þ.e. aðföngum til að geta framleitt. Við breytum því ekki sisvona, við verðum alltaf háð ýmsum vörum. Vissulega getum við farið í það að framleiða einhvern hluta af áburði, við getum framleitt köfnunarefni en við þurfum alltaf að flytja inn fosfór, kalín og fleiri snefilefni til að geta framleitt áburð. Einnig getum við horft til þess að reyna að minnka áburðarnotkun en um ókomna tíð tel ég að við þurfum alltaf að notast að einhverju leyti við tilbúinn áburð. Því eru vissulega tækifæri fyrir okkur að skoða það að framleiða einhvern hluta af þessum tilbúna áburði, þ.e. köfnunarefni.

Það er samt augljós vaxtarbroddur í matvælaframleiðslunni sem snýr að kornvöru- og grænmetisframleiðslu. Það kemur fram í skýrslunni að við erum ekki að framleiða nema 1% af þeim kornvörum sem við nýtum. Við þekkjum það vel og vitum að við búum á Íslandi og það getur brugðið til beggja vona um hvernig viðrar og þess háttar varðandi uppskeru sem tengist akuryrkju. Við höfum náð verulega góðum árangri í mörgum þáttum en það eru margir þættir sem standa í vegi fyrir því að menn taki af skarið með það að framleiða kornvörur á fullu. Það snýr t.d. að því að við þurfum að stuðla að uppbyggingu innviða. Einnig þurfum við að horfa til þess sama og við þekkjum erlendis frá þar sem eru tryggingarsjóðir sem menn geta sótt í og tryggt sína framleiðslu. Í veðri eins og var hér fyrir hálfum mánuði síðan varð tugmilljóna króna tjón á kornökrum norður í Eyjafirði þar sem allt fauk af á einni nóttu. En ég veit að hæstv. matvælaráðherra er þegar byrjaður að skoða það sem snýr að sameiningu Bjargráðasjóðs við Náttúruhamfaratryggingu Íslands. En í því samhengi þá þurfum við alltaf að búa til ákveðinn farveg. Það er ekki nóg að segja bara: Eflum þetta og eflum hitt. Við þurfum líka að búa til ákveðin starfsskilyrði fyrir atvinnugreinina til að hún geti tekist á við þau verkefni sem við ætlum henni svo sannarlega.

Orkuskipti eru síðan fram undan í landbúnaði, eins og við erum þegar byrjuð að eiga við í okkar almenna lífi. Þróunin er verulega ör. Við sjáum að verið er að fara að flytja inn vörubíla sem ganga fyrir rafmagni, menn eru þegar byrjaðir að þróa dráttarvélar sem ganga fyrir rafmagni vegna þess að öll framleiðsla í dag er náttúrlega verulega háð innflutningi á jarðefnaeldsneyti sem er hluti af því sem við eigum að eiga birgðir af, eins og kemur fram í skýrslunni. Þegar við horfum til þeirra birgða sem við þurfum að eiga þá er stundum vandkvæðum bundið hvernig við geymum þær og þess háttar. Sumt af því sem nefnt er í þessari ágætu skýrslu er nú kannski með mjög misjafnt geymsluþol. Ef við horfum til þess að vera með 90 daga birgðir af eldsneyti þá erum við með einhverjar birgðir sem við tökum af og höldum síðan birgðunum við. Menn láta það rúlla þannig. Við þekkjum það vel sem stöndum í því að reyna að framleiða mat að menn eiga alltaf birgðir fyrir veturinn og hafa ágæta reynslu af því að umgangast þær birgðir.

En þetta er kostnaðarsamt. Það hefur ekki komið nægilega vel fram í umræðunni í dag hver eigi að bera þann kostnað. Mér finnst ekki hægt að segja bara að ríkið eigi að gera það. Það er alltaf auðvelt að segja það. En ef við horfum á þessa skýrslu og veltum fyrir okkur öllum þeim kostnaði sem þarna fellur til varðandi birgðahald þá þarf hann að leggjast á fleiri en hið opinbera, fleiri þurfa að koma að. Í því samhengi er stórt verkefni í framhaldinu að fylgja þessari skýrslu eftir. Það er einnig mjög stórt verkefni, og verður sennilega frekar snúið, að samþætta aðgerðir varðandi birgðahald, þ.e. innlenda birgðastýringu varðandi innflutning og þess háttar, vegna þess að mönnum finnst þeir liggja á ákveðnum viðskiptaupplýsingum sem þeir vilja ekki láta frá sér.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að teygja lopann mikið lengur en ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að koma fram með þessa skýrslu og vona innilega að í framhaldinu verði þessu fylgt eftir af krafti vegna þess að þetta er ekki síðasta krísan sem við lendum í. Því miður er það þannig og ég ætla líka að vona að almenningur verði ekki jafn fljótur að gleyma þegar þessu ömurlega stríði lýkur í Úkraínu eins og í efnahagshruninu á sínum tíma. Það er mikilvægt atriði. Nú er lag til að vinna svona hluti og koma þeim á koppinn. Allt segir okkur hversu mikilvægt það er að taka þessa skýrslu alvarlega.