Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

ákvörðun nr. 6/2022 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

281. mál
[17:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 6/2002, frá 4. febrúar 2022 um breytingu á 2. viðauka við EES-samninginn. Ákvörðunin fellir inn í samninginn tvær tilskipanir á sviði tóbaksvarna, annars vegar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins, 2014/40/ESB, sem kveður á um reglur um tóbaksvörur. Markmið hennar er m.a. að samræma lög og stjórnsýslufyrirmæli innan EES-svæðisins um innihaldsefni og losun tóbaksvara og skýrslugjöf. Hún kveður m.a. á um hámarkslosun tjöru, nikótíns og koltvísýrings úr vindlingum. Einnig fjallar hún um merkingu og umbúðir tóbaksvara, þar með talið viðvörunarmerkingar sem eiga að vera á tóbakspökkum. Með tilskipuninni eru jafnframt settar reglur um rekjanleika og öryggisþætti varðandi tóbaksvörur. Meðal nýmæla er að setning tóbaksvara með einkennandi bragði á markað verður takmörkuð. Jafnframt verður veitt heimild til að takmarka fjarsölu á tóbaksvörum yfir landamæri en EES-ríkjunum verður í sjálfsvald sett hvort hún sé nýtt. Þá er sett á skylda um að leggja fram tilkynningu um nýjar tóbaksvörur og tengdar vörur sem eiga að fara á markað. Hins vegar er felld inn í samninginn framseld tilskipun 2014/109/ESB sem er til fyllingar þeirri fyrrnefndu og varðar safn af myndaviðvörunum til nota á tóbaksvörur. Haft var samráð við viðeigandi þingnefndir Alþingis vegna upptöku tilskipunar 2014/40/ESB í EES-samninginn. Nefndirnar gerðu ekki athugasemdir við upptöku tilskipunarinnar á þann hátt sem þingsályktunartillagan tilgreinir. Þar sem framseld tilskipun 2014/109/ESB leiðir af hinni tilskipuninni krafðist hún ekki sérstaks samráðs við Alþingi.

Virðulegur forseti. Upptaka fyrrgreindra gerða í EES-samninginn og innleiðing þeirra hér á landi kallar á lagabreytingar. Gerðirnar verða innleiddar með breytingu á lögum um tóbaksvarnir, nr. 6/2002, og verður frumvarp þar að lútandi lagt fram á þessu löggjafarþingi. Þá kallar innleiðingin einnig á reglugerðarbreytingar. Ég legg til, virðulegi forseti, að að aflokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hæstv. utanríkismálanefndar.