Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

stjórn fiskveiða.

19. mál
[17:39]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Samþjöppun í sjávarútvegi er mikil og fáir útgerðarrisar verða stöðugt ríkari og valdameiri í samfélaginu. Staðan veldur deilum og tilfinningu um að ekki sé rétt gefið við nýtingu auðlindarinnar og úthlutun takmarkaðra gæða. Það er aðkallandi að bæði forsvarsmenn útgerðarfyrirtækja og hið opinbera leiti leiða til sátta um rekstrarumhverfið í sjávarútvegi. Ósætti um fiskveiðiauðlindina er einkum vegna þess að fiskveiðistjórnarkerfið er lokað og nýliðun erfið. Kvótinn safnast á fárra hendur og veiðigjaldið er of lágt. Einfaldasta leiðin að mínu mati og okkar í Samfylkingunni til að opna kerfið og fá það gjald sem greinin er í raun tilbúin til að greiða fyrir tímabundna nýtingarsamninga er útboð á kvóta. Við í Samfylkingunni höfum talað fyrir því að greinin búi við þann ágæta fyrirsjáanleika að halda allt að 95% af úthlutuðum kvóta fyrra árs en 5% af úthlutuðum kvóta verði boðinn út á hverju ári og möguleiki gefinn á nýtingarsamningum til mislangs tíma. Útboð eru hin almenna regla og viðhöfð þegar ríkið úthlutar réttindum eða verkefnum til fyrirtækja, hvort sem úthluta á takmörkuðum gæðum líkt og losunarheimildum og tíðnisviði eða úthlutun stórframkvæmda og veitingu sérleyfa í samgöngum. Forréttindaúthlutun sem tíðkast í sjávarútvegi gengur gegn stefnu jafnaðarmanna.

Í dag greiða útgerðirnar rúmar 17 kr. í veiðigjald fyrir kíló af þorski sem rennur í ríkissjóð en leiguverð er rúmar 400 kr. samkvæmt vef Fiskistofu um aflamarksviðskipti, útboði útgerðarmanna sín á milli. Þar gilda markaðslögmálin og krónurnar renna í vasa útgerðarmanna og þaðan í vasa erfingja þeirra líkt og stærsti hluti arðseminnar af nýtingu auðlindarinnar. Óréttlætið og ójöfnuðurinn viðhelst og erfist. Sáttin gæti auk þess verið fólgin í því að hluti veiðigjalds gengi til sveitarfélaga til atvinnuuppbyggingar.

Forseti. Hvað sem gert verður í þessum efnum þarf að skýra lagagreinarnar í lögunum um stjórn fiskveiða um tengda aðila og raunveruleg yfirráð þannig að lögin vinni í raun gegn samþjöppun líkt og þeim var ætlað að gera. Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Skattinum hagnast flestir úr tekjuhæsta eina prósentinu hér á landi af auðlindum þjóðarinnar og allir þeir sem greiða meira en 300 millj. kr. í fjármagnstekjuskatt eru útgerðarmenn, nema einn. Skattur af fjármagnstekjum er 22% og ekkert útsvar rennur af þeim tekjum til sveitarfélaga. Þeir sem fá fjármagnstekjur greiða því lægri skatta en launamenn.

Við Íslendingar höldum takmörkuðum gæðum hjá fáum útvöldum og komum okkur ekki saman um sanngjörn auðlindagjöld. Mikil samþjöppun hefur átt sér stað í sjávarútvegi á undanförnum áratugum. Tíu stærstu útgerðirnar fara með meira en helming kvótans og 20 stærstu meira en 70% kvótans. Ofan á þetta bætist svo eignarhald þessara útgerðarrisa í öðrum útgerðum. Fyrir rúmum 20 árum voru lagagreinar samþykktar til að vinna sérstaklega gegn samþjöppun aflahlutdeildar sem talin var skaðleg, ekki síst út af mikilvægi fiskveiða fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Of sterk yfirráð fárra aðila yfir fiskveiðiauðlindinni þýddi meiri völd í þjóðfélaginu en heilbrigt gæti talist og of sterka stöðu gagnvart stjórnvöldum. Samþjöppun kæmi í veg fyrir samkeppni og hamlaði nauðsynlegri endurnýjun. Þá var bent á að samþjöppun gæti beinlínis unnið gegn þjóðarhag, sérstaklega ef viðkomandi stæði sig ekki í því að skapa sem mest verðmæti úr auðlindinni. Tilfærsla milli byggða myndi skaða sveitarfélög og tilfærsla milli útgerðarflokka gæti leitt til þess að minni útgerðir færu halloka. Á þessu öllu áttu lögin að taka. Lögin hafa ekki náð tilgangi sínum enda getur einn aðili nú átt hlutdeild í meira en helmingi kvótans sem árlega er úthlutað. Þessi túlkun á lögunum ýtir augljóslega undir samþjöppun og gengur þannig gegn anda þeirra. Það þarf að breyta lögunum og koma þannig í veg fyrir frekari samþjöppun eða núverandi túlkun á lögunum. Fyrirmynda og fordæma liggur beinast við að leita í þeirri þróun sem hefur átt sér stað á fjármálamarkaði um hvenær aðilar teljast tengdir og hvað felst í raunverulegum yfirráðum. Þar hefur þetta mark verið lækkað og sú staða viðurkennd sem aðilar eru í ef þeir hafa veruleg áhrif í félögum.

Frumvarp sama efnis og þetta frumvarp sem við ræðum nú var áður lagt fram á 151. og 152. löggjafarþingi. Það er því lagt fram hér og fyrir því mælt í þriðja sinn. Frumvarpið miðar að því að hrinda í framkvæmd tillögum verkefnisstjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni sem verkefnisstjórnin skilaði til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 30. desember árið 2019. Verkefnisstjórninni var m.a. falið að bregðast við ábendingum í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu er varðar samþjöppun aflaheimilda. Sú sem hér stendur og er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins átti sæti í stýrihópnum. Í kjölfar skýrslunnar birti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda sem byggðist á niðurstöðum hennar. Frumvarp ráðherra hefur ekki verið lagt fram á Alþingi en frumvarp þetta sem við ræðum hér byggist að meginstefnu til á þeim drögum sem birtust í samráðsgátt. Þó er vikið frá efni draganna að nokkru leyti þar sem ósamræmis gætir á milli þeirra og niðurstaðna verkefnisstjórnarinnar.

Þá eru lagðar til breytingar til samræmis við fyrirvara fyrsta flutningsmanns frumvarps þessa, þeirrar sem hér stendur. Frá því að reglur um hámarksaflahlutdeild voru fyrst lögfestar hefur orðið samþjöppun á aflahlutdeildum og fara nú, eins og áður sagði, tíu stærstu útgerðarfélög landsins með meira en helming aflahlutdeildar. Samhliða þeirri þróun hefur aðilum í sjávarútvegi fækkað ört. Í skilgreiningu laganna á hugtakinu tengdir aðilar er miðað við að aðilar séu tengdir eigi annar aðilinn beint eða óbeint meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár í hinum aðilunum eða fari með meiri hluta atkvæðisréttar. Þannig getur einn aðili farið með hámark leyfilegrar aflahlutdeildar skv. 1. mgr. 13. gr. en þar að auki átt allt að 49,99% hlut í öðrum fyrirtækjum sem fara með aflahlutdeildir samkvæmt lögunum. Nýlegt dæmi um aukna samþjöppun í greininni eru kaup Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á Vísi í Grindavík. Með því að samþykkja þetta frumvarp sem við ræðum nú mun skilgreiningin á hugtakinu tengdir aðilar breytast og umrædd kaup leiða til þess að samanlögð aflahlutdeild tengdra aðila færi yfir leyfilegt mark.

Núgildandi skilgreining um að aðili þurfi að eiga meiri hluta hlutafjár til að teljast tengdur aðili er í ósamræmi við skilgreiningu raunverulegra eiganda samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Samkvæmt þeim lögum telst m.a. til raunverulegra eigenda einstaklingur sem í raun á eða stjórnar lögaðila í gegnum beina eða óbeina eignaraðild að meira en 25% hlut í lögaðilanum, ræður yfir meira en 25% atkvæðisréttar eða telst á annan hátt hafa yfirráð yfir lögaðila. Munurinn á þessum tveimur lögum skýtur skökku við enda getur aðili talist raunverulegur eigandi lögaðila án þess að teljast tengdur aðili samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða.

Efni frumvarpsins er á þessa leið. Lagðar eru til breytingar á skilgreiningu hugtaksins tengdir aðilar í lögum um stjórn fiskveiða. Í 1. tölul. 4. mgr. 13. gr. gildandi laga er kveðið á um að aðilar séu tengdir þar sem annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili á beint eða óbeint meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár í hinum aðilanum eða fer með meiri hluta atkvæðisréttar. Lagt er til að miðað verði við að aðilar teljist tengdir fari annar aðili með a.m.k. 25% hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í hinum. Þetta er til samræmis, eins og áður sagði, við lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, og lög um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019. Er því gert ráð fyrir að ef aðili telst raunverulegur eigandi annars teljist þeir tengdir aðilar í skilningi laganna.

Í öðru lagi er lagt til að til tengdra aðila teljist lögaðilar sem stjórnað er af sömu einstaklingum og hjón, sambúðarfólk, börn þeirra og fósturbörn auk lögaðila í þeirra eigu.

Í þriðja lagi er lögð til ítarlegri skilgreining á því hvað felst í raunverulegum yfirráðum en kveðið er á um í gildandi lögum um stjórn fiskveiða. Er lagt til að með raunverulegum yfirráðum sé átt við rétt sem skapast með samningum eða með einhverjum þeim hætti sem gerir aðila kleift að hafa afgerandi áhrif á félag með eignarhaldi eða rétti til að nota eignir félags, allar eða að hluta, eða með rétti til að hafa afgerandi áhrif á samsetningu, atkvæðagreiðslu eða ákvarðanir stofnanafélags.

Að lokum er kveðið á um málsmeðferð Fiskistofu þegar samanlögð aflaheimild einstakra aðila og tengdra aðila er yfir 6% af heildarverðmæti allra tegunda sem sæta takmörkunum á leyfilegum heildarafla. Beri í þeim tilvikum að tilkynna til Fiskistofu hverja þá ráðstöfun sem leiði til hækkunar á aflahlutdeild áður en slík lögskipti koma til framkvæmda. Kemur ráðstöfunin ekki til framkvæmda fyrr en að loknum athugunum Fiskistofu á málinu. Það er lagt til að lögin öðlist gildi 1. júní 2023 en þeim aðilum sem fara umfram leyfilega aflahlutdeild samkvæmt frumvarpinu verður veittur frestur til loka fiskveiðiársins 2024/2025 til að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að aflahlutdeild rúmist innan lögbundinna marka.

Frú forseti. Þetta var efni frumvarpsins og markmið þess er að vinna gegn samþjöppun aflaheimilda í sjávarútvegi og stuðla að réttlætistilfinningu meðal þjóðarinnar þegar kemur að þessari mikilvægu auðlind og úthlutun á þeim takmörkuðu gæðum sem þar eru undir. Auk þeirra brýnu verkefna að vinna gegn samþjöppun aflaheimilda líkt og gera má með samþykkt þessa frumvarps, ásamt því að opna kerfið með reglulegum útboðum og sanngjörnu veiðigjaldi, þurfum við að fá áreiðanlegri upplýsingar um nýtingu auðlindarinnar en við fáum í dag og vinna gegn þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem felst í brottkasti og vigtarsvindli. Nauðsynlegt er að styrkja Fiskistofu með lagaheimildum og fjármunum til að sinna skyldum sínum. Við þurfum að vinna gegn ójafnvægi á milli þeirra sem stunda bæði veiðar og vinnslu og hinna sem stunda annaðhvort bara veiðar eða bara vinnslu. Fiskvinnslur sem treysta á fiskmarkaði horfa á eftir óunnum afla fara úr landi í stórum stíl og kalla eftir fleiri tonnum á fiskmarkaði. Minni fiskvinnslur úti um landið líða fyrir þetta ástand og þegar þær gefast upp tapast störf og þekking úr samfélögunum.

Að lokum þetta, forseti. Jafnvel þó að talið sé að sjávarútvegurinn standi sig vel í að gera reksturinn grænni þarf meira til. Bæði ríki og sveitarfélög þurfa að koma að uppbyggingu innviða til að flýta fyrir þeirri nauðsynlegu þróun. Þetta á líka við um umhverfisvænni veiðarfæri.

Að lokum legg ég til að frumvarpið gangi til hv. atvinnuveganefndar að lokinni þessari umræðu.