Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

stjórn fiskveiða.

19. mál
[17:56]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú get ég svo sem lítið sagt um lesskilning hv. þingmanns en það er auðvitað hvergi gefið í skyn að þetta sé almenna reglan. Hins vegar er það dagljóst að í samfélaginu eru deilur um sjávarútveginn. Við horfum upp á að kvótinn og yfirráð yfir kvóta safnast á fárra hendur. Í kjölfarið safnast mikill auður á fárra hendur og útgerðarrisarnir hafa ruðningsáhrif í samfélaginu, því hefur jafnvel verið haldið fram að völd þeirra í gegnum auð og aðstæður séu það mikil að stjórnmálamenn kikni í hnjáliðum gagnvart kröfum þeirra.

Í greinargerð frumvarpsins er vitnað í lög sem við höfum nýlega samþykkt um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og í lög sem komu í kjölfarið um skráningu raunverulegra eigenda sem við samþykktum hér árið 2019. Það er vitnað í þetta til að skapa fyrirmynd fyrir tengda aðila þegar við úthlutum þessum takmörkuðu gæðum okkar vegna þess að í þeim lögum, sem voru samþykkt hér í ágætis sátt, er viðurkennt að ef þú átt 25% í fyrirtæki þá hefur þú sannarlega áhrif og mikilla hagsmuna að gæta. Þess vegna finnst mér og okkur sem flytjum þetta frumvarp skynsamlegt að miða við þau lög (Forseti hringir.) sem góð sátt var um, bæði í umræðum og atkvæðagreiðslu í þingsal og er þá viðurkennt að 25% markið sé sanngjarnt viðmið þegar kemur að þessum efnum.