Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

stjórn fiskveiða.

19. mál
[17:58]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ástæða sé til að staldra aðeins við þetta atriði. Af hverju er eingöngu verið að horfa til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka? Hvers eðlis eru þau lög? Markmið laganna, með því að skilgreina þessi 25%, er að kalla eftir upplýsingum frá fyrirtækjum um hverjir séu raunverulegir eigendur. Þetta er ákveðið eftirlit af því að reynt er að sporna gegn mjög alvarlegum brotum. Öðruvísi verndarhagsmunir eru þar undir en gildir um allt atvinnulífið í heild sinni eins og fram kemur í lögum um tekjuskatt, þar sem er 50% meirihlutaeign, eða í hlutafélagalögunum sjálfum þar sem aftur er meirihlutaeign. Því er engan veginn ljóst af hverju sjávarútvegur, einn atvinnugreina, eigi að búa við að vera spyrtur saman við annars konar verndarhagsmuni, í öðrum lögum en aðrar atvinnugreinar.

Og fyrst sagt er að samþjöppun í sjávarútvegi sé svo alvarleg þá er líka forvitnilegt að vita hvort samþjöppun íslensks sjávarútvegs sé gagnrýnisverð út frá samanburði við aðrar atvinnugreinar á Íslandi? Er til að mynda minni samþjöppun á matvörumarkaði, sem er á neytendamarkaði? 98% af tekjum sjávarútvegsins eru vegna sölu erlendis þannig að hann er ekki á innlendum neytendamarkaði. Er ástæða til að hafa áhyggjur af samþjöppun einhvers staðar annars staðar í samfélaginu en einmitt í sjávarútvegi? Eða er samþjöppunin mikil í samanburði við önnur lönd? Hver er þessi samþjöppun?