Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

almannatryggingar.

44. mál
[18:05]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar (skerðing á lífeyri vegna búsetu). Auk mín eru flutningsmenn á frumvarpinu Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

Í 1. gr. segir, með leyfi forseta:

„Við 1. mgr. 17. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki skal takmarka réttindi samkvæmt lögum þessum vegna búsetu í öðru landi nema að því marki sem hlutaðeigandi nýtur fjárhagslegra réttinda vegna þeirrar búsetu.“

Í 2. gr. segir: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Frumvarp þetta var áður lagt fram á 151. og 152. löggjafarþingi, 71. mál, og er nú lagt fram með þeirri breytingu að orðalag 1. gr. hefur verið gert hlutlaust gagnvart ríkisfangi, samkvæmt ábendingum í umsögnum um málið á fyrri stigum.

Þetta mál um búsetuskerðingar er eitt af ljótum málum þessarar ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin tók á síðasta kjörtímabili upp þetta stórfurðulega mál og ákvað að hún væri búin að finna einhvern hóp sem ætti að hafa það verra en aðrir, hóp sem einhverra hluta vegna á ekki að njóta jafnréttis eða mannréttinda á við aðra í landinu. Það er eiginlega stórfurðulegt að það sé látið viðgangast að hægt sé að mismuna fólki svona gróflega á fjárhagslegan hátt, og, eins og mun koma fram í seinni ræðu minni, sem er það ömurlegasta í þessu öllu saman, á sama tíma og ríkisstjórnin setur þetta inn tekur hún aftur upp krónu á móti krónu skerðingu. Krónu á móti krónu skerðing er ein ljótasta skerðingin sem hefur verið sett á í almannatryggingakerfinu og allir flokkar hafa komið fram með það fyrir kosningar, ekki núverandi heldur síðustu kosningar, að taka á krónu á móti krónu skerðingu. Við vitum hvernig það fór, jú, hún fór niður í 65 aura á móti krónu en það er þó skömminni skárra en króna á móti krónu.

Réttur almennings til almannatrygginga á Íslandi er skertur hafi hinn tryggði verið búsettur erlendis á milli 16 og 67 ára aldurs. Fjöldi fólks líður því skerðingar á lífeyri sínum vegna búsetu erlendis. Þessar skerðingar eru í dag framkvæmdar óháð því hvort fólk á rétt á greiðslum frá erlendu ríki vegna búsetu sinnar.

Undanfarin ár hafa verið miklar deilur milli stjórnvalda og lífeyrisþega vegna búsetuskerðingar. Sú aðferð sem Tryggingastofnun hefur beitt við ákvörðun búsetuhlutfalls var borin undir umboðsmann Alþingis og taldi hann að aðferðin væri ólögleg. Spáið í það. Í áraraðir gekk Tryggingastofnun í það að beita ólöglegum búsetuskerðingum og við vitum líka að niðurstaðan um endurgreiðsluna var gerð á þann hátt að það á ekki að endurgreiða 13 ár heldur eingöngu 4 ár sem sýnir að það er erfitt að sækja réttlæti, hvað þá fyrir þá verst settu. Að auki komst Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu 6. apríl 2022, í máli nr. 52/2021, að óheimilt hafi verið að skerða sérstaka framfærsluaðstoð þar sem ákvæði í reglugerð ráðherra skorti lagastoð.

Þetta sýnir okkur svart á hvítu hversu einbeittur brotaviljinn er gagnvart þessum hópi. Maður á að spyrja sig: Hvers vegna í ósköpunum er ríkisstjórnin svona ofboðslega ákveðin í því að ekki bara brjóta á þessu fólki heldur brjóta lög á þessu fólki? Hugsið ykkur óskammfeilnina — þegar þetta kemst upp og búið er að sanna að brot hafi átt sér stað þá hvarflaði það ekki að þeim í eina mínútu að endurgreiða brotin að fullu. Nei, þeir ætla bara að nota fjögurra ára fyrningartímann. Ég veit varla hvernig á að lýsa svoleiðis aðferðum.

Eftir mikla baráttu eldri borgara samþykkti Alþingi í vor lög um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Þau lög veita öldruðum rétt á framfærslustuðningi sem nemur allt að 90% af fjárhæð fulls ellilífeyris. Þessi viðbótarstuðningur er ætlaður þeim sem vegna búsetu sinnar erlendis eiga ekki rétt á fullum ellilífeyri. Þrátt fyrir að stuðningurinn veiti kærkomna aðstoð eru skilyrðin fyrir aðstoðinni ströng. Þar er til að mynda aftur komið á krónu á móti krónu skerðingu.

Vegna baráttu lífeyrisþega gegn stjórnvöldum er nú búið að leiðrétta hlut margra sem liðu ólöglegar skerðingar árum saman. Eftir stendur þó að í fjölmörgum tilvikum viðgangast umfangsmiklar skerðingar á lífeyri almannatrygginga vegna búsetu lífeyrisþega erlendis. Auk þess fá ellilífeyrisþegar sem fá greiddan viðbótarstuðning aðeins 90% af réttindum sínum. Til þess að réttlætið nái fram að ganga þarf að breyta lögunum.

Í 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um hvaða áhrif búseta lífeyrisþega hafi á rétt hans til ellilífeyris. Í öðrum réttindaflokkum laganna er vísað í þær reglur sem koma fram í 17. gr. og er því miðað við sömu reglur til að reikna út örorkulífeyri, aldurstengdra örorkuuppbót og tekjutryggingu.

Sú reikniregla sem kemur fram í 1. mgr. 17. gr. laganna leggur til grundvallar að full réttindi til ellilífeyris ávinnist með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 ára til 67 ára aldurs. Hafi viðkomandi búið hér á landi skemur en 40 ár á umræddu tímabili skerðast réttindi hans hlutfallslega í samræmi við það. Þessar búsetuskerðingar eru framkvæmdar óháð því hvort búseta viðkomandi erlendis veiti honum sams konar fjárhagsleg réttindi.

Í 68. gr. laga um almannatryggingar er fjallað um að heimilt sé að semja á milli ríkja um hvernig skuli ákvarða réttindi fólks út frá búsetutíma. Ísland hefur gert slíka samninga við nokkur ríki og á milli EES-ríkjanna gildir sérstakur samningur sem kveður á um að réttindi glatist ekki við flutning til annars EES-ríkis. Eftir stendur að fjöldi ríkja hefur ekki gert slíka samninga við Ísland. Sem dæmi getur það skert rétt til örorku ef viðkomandi hefur verið búsettur í Bandaríkjunum um árabil, þó svo að viðkomandi hafi fyrst verið metinn öryrki eftir að hafa flust aftur til Íslands. Í slíku tilviki á viðkomandi engan rétt á sambærilegum greiðslum erlendis frá og þeim sem hann missir. Þetta er ekkert annað en mismunun á grundvelli búsetu og fer á svig við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það er eitt að lífeyrir skerðist vegna lífeyrisgreiðslna erlendis frá, en þegar lífeyrir er skertur vegna þess eins að einstaklingur hefur um tíma verið búsettur í öðru landi þá er það ekkert nema mismunun.

Til að koma í veg fyrir slíka mismunun er lagt til að einungis verði heimilt að skerða réttindi almannatrygginga vegna búsetu þegar ljóst liggur fyrir að viðkomandi eigi rétt á og njóti sambærilegra réttinda erlendis frá vegna búsetu þar. Þannig yrði komið í veg fyrir grimmilegar búsetuskerðingar gagnvart öryrkjum og ellilífeyrisþegar áður búsettir erlendis fengju 100% réttinda sinna en ekki 90%.

Við eigum að spyrja okkur að því hvers vegna í ósköpunum þessi hópur á að fá 90%. Við getum líka sagt að 90% af lægstu ellilífeyrisgreiðslum var gífurleg réttarbót í sjálfu sér en það hefði verið fullkomin réttarbót ef þær hefðu verið 100%. Að hafa það 90% er óskiljanlegt vegna þess að áður en þessi lög komu þá fékk fólk eiginlega engin réttindi, kannski 70.000–80.000 kr. á mánuði til að lifa. Við fáum þó alla vega núna rétt um 200.000 kr. Hver er tilbúinn til að lifa á rétt um 200.000 kr. á mánuði og vera í þeirri aðstöðu að ef króna fæst annars staðar skerðist hún að fullu og skilar engu — núll?

Þetta eru skattar og skerðingar upp á 100% og það er ömurlegt til þess að vita að við séum með ríkisstjórn sem telur þörf á því að skerða svona gífurlega mikið. Látum vera ef bætur almannatrygginga væru skertar ef viðkomandi væri kominn upp í einhver meðallágmarkslaun, kannski væri þá erfiðara að mótmæla skerðingu. En þegar verið að skerða ekki bara fátækt heldur sárafátækt krónu á móti krónu, þá er eitthvað að. Þá er þetta eitthvert fjárhagslegt ofbeldi, eitthvað undarlegt í sálartetri þeirra sem geta stutt við þetta vegna þess að þetta stenst enga skoðun, stenst ekki mannréttindi og ég efast um að það standist stjórnarskrá að setja fólk í þá aðstöðu að eiga ekki möguleika á að bjarga sér, og á sama tíma og þetta er í gangi erum við með kerfi með ýmsum frítekjumörkum sem duga oft ekki til vegna þess að sérstaka uppbótin er strax skert, króna á móti krónu.

Við erum líka með þannig kerfi að ríkisstjórnin segir stolt: Við erum með frítekjumörk í atvinnutekjum, lífeyrissjóði og fjármagnstekjum. Hvernig fara þeir að því að misnota þessi frítekjumörk? Jú, með því að búa þau til og hækka síðan ekki neitt, láta þau vera óbreytt. Þetta er nákvæmlega sama aðferð og þeir hafa beitt gagnvart persónuafslætti. Árið 1988 var ellilífeyrir skattfrjáls og fólk átti 30% upp í lífeyrissjóð. Ef við heimfærum þetta upp á daginn í dag þá væru þetta nærri 400.000 kr. skattleysismörk. En hver eru skattleysismörkin? Ekki nema rétt rúm 160.000–170.000 kr. Fólk sem áður borgaði ekki skatta er að borga 50.000–60.000 kr. á mánuði í skatt. Þetta er peningur sem fólki veitir svo sannarlega ekki af og myndi kannski draga það úr sárafátækt upp í fátækt.

Ég vona heitt og innilega að þetta frumvarp fái núna að fara í gegn og að við sjáum til þess að taka ekki einn hóp út og mismuna honum. Ég mun ekki trúa því að óreyndu að ríkisstjórnin muni láta á það reyna, eftir að hafa brotið lög á þessu fólki sem Hæstiréttur hefur staðfest, að borga ekki að fullu til baka með vöxtum það sem hún skuldar. Þetta er verst setta fólkið. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að verst setta fólkið á Íslandi fái réttlæti. Þetta kostar enga rosalega peninga og þar af leiðandi ætti það að vera auðvelt mál fyrir ríkisstjórnina að hysja einu sinni upp um sig buxurnar, bretta upp ermarnar og hætta að klekkja á fólki sem getur ekki varið sig. Þetta fólk á enga möguleika á að verjast því fjárhagslega ofbeldi sem það er beitt. Það er löngu tímabært að ríkisstjórnin taki á þessu máli, en það er borin von og vonandi að líftími þessarar ríkisstjórnar líði þá undir lok og það komi ríkisstjórn sem sýnir réttlæti og tekur á þessum málum.

Þetta mál fer til velferðarnefndar og þar mun ég fylgja því eftir.