154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

um afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[13:39]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Virðulegur forseti. Já, við vitum öll hér að mikið hefur verið sagt um þetta mál. Margt hefur líka verið hrakið um þetta mál og hægt hefur verið að varpa betra ljósi á annað, sem var nauðsynlegt umræðunnar vegna. Ég vil nota þetta tækifæri og ítreka að það álit sem nú liggur fyrir gerir í engu lítið úr því að allir sem komu að málinu unnu það í góðri trú með bestu mögulegu ráðgjöf sem var hægt að finna á sínum tíma og af heiðarleika og gegnsæi var unnið með þá leiðsögn til grundvallar. Ekkert í þessu áliti dregur það í efa. Ekkert í þessu áliti dregur það fram á nokkurn hátt að hér hafi ekki verið unnið eins vel og hægt var og ekkert var gert í skjóli nætur. Hér er um að ræða túlkun umboðsmanns Alþingis á einu atriði sem engan sem kom að ferlinu grunaði að yrði túlkað á þann hátt. (Gripið fram í: Jú.) (Forseti hringir.) Einnig sýnir álitið ómöguleika þess hvernig framkvæmdinni er stillt upp í núgildandi lögum og næsta verkefni Alþingis verður að finna út úr því svo að það verði skýrara hér eftir.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir hv. þingmenn á að ræðutíminn er aðeins ein mínúta í umræðu um fundarstjórn forseta.)