154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[14:07]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Það er ágætt þegar við erum að ræða þetta álit umboðsmanns frá því í morgun að allir séu á sömu blaðsíðu, ef svo má segja. Þegar hér er bent á að fjármálaráðherra hafi hreyft við þeim mótrökum, eins og kemur fram í álitinu, að það sé óraunhæft að fara yfir hvert og eitt einasta tilboð, en í fyrra útboðinu voru yfir 20.000 tilboð, þá kemur það fram í álitinu af hálfu umboðsmanns að hann dregur þetta mat hæstv. fjármálaráðherra ekki í efa en veltir því upp hvernig eigi þá að ná utan um málið. Hann bendir á að það hefði mögulega átt að leggja fram frumvarp til Alþingis sem tæki af skarið um að kippa reglum um sérstakt hæfi úr sambandi eða geta þess í þá greinargerð. Þetta eru — ég ætla ekki að segja eftiráskýring — vangaveltur um það hvernig hefði átt að fóta sig eftir á með það fyrirkomulag sem er um sölu á ríkiseignum.