154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[14:11]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Virðulegi forseti. Ég er ósammála niðurstöðu umboðsmanns Alþingis en ég ber virðingu fyrir þeirri niðurstöðu og ég tek henni alvarlega. Ólíkt sumum öðrum þá ber ég virðingu fyrir mikilvægum stofnunum þessa samfélags þótt ég geti verið ósammála þeirri niðurstöðu sem komist er að. Það er réttur minn að gera það með þeim hætti. Ég ætla að benda á það sem umboðsmaður segir þó í greinargerð sinni, fyrst menn vilja vitna í umboðsmann, vegna þess að greinargerðin er nefnilega mjög góð á margan hátt og er leiðbeinandi fyrir okkur og við ættum að fara að ræða efnisatriði þeirra leiðbeininga sem umboðsmaður gefur okkur. Hann segir og fullyrðir að það sé ekkert sem bendi til þess að hægt sé að draga grandleysi fjármálaráðherra (Forseti hringir.) í efa þegar hann tók ákvörðun um sölu á hlutabréfum í Íslandsbanka. Það er ekkert sem gefur tilefni til þess (Forseti hringir.) að draga í efa grandleysi fjármálaráðherra. Hafið þetta í huga.