136. löggjafarþing — 120. fundur,  31. mars 2009.

tollalög og gjaldeyrismál.

462. mál
[22:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu hefur auðvitað borið að með nokkuð sérstökum hætti. Það hefur ekki verið einsdæmi í vetur en hins vegar er þetta óvenjulegt og í sjálfu sér er skiljanlegt út frá efni frumvarpsins að það þurfi að koma til með þessu móti. Auðvitað er líka skiljanlegt að þung áhersla sé lögð á það af hálfu ríkisstjórnarinnar að meðferð þess gangi hratt fyrir sig eftir að það er komið fram. Það allt saman á sér eðlilegar skýringar, enda er ekki heppilegt að þetta mál liggi einhvern veginn í lausu lofti lengi til að það hafi ekki óheppileg áhrif á markaði.

Eins og fram hefur komið í þessari umræðu er auðvitað um það að ræða að þetta mál er fram borið til að loka ákveðnum götum varðandi gjaldeyrisviðskiptin sem menn hafa uppgötvað á þeim tíma sem liðinn er frá því að gjaldeyrishöftin voru sett á í nóvember sl. Það er í sjálfu sér í samræmi við þær áhyggjur sem við margir höfðum þegar gjaldeyrishöftunum var komið á í nóvember. Ég tók sem nefndarmaður í viðskiptanefnd þátt í því á sínum tíma að fjalla um það mál og afgreiða það. Ég studdi það á þeim tíma. Það var þó með þeim hætti að við höfðum margir hverjir áhyggjur af því út á hvaða braut við værum að fara. Við litum á þetta sem neyðarráðstöfun í ljósi þess ástands sem þá var uppi og töldum að undir þeim kringumstæðum sem þá voru í sambandi við gjaldeyrismál okkar væri óhjákvæmilegt að stíga það skref sem þar var gert. Það kom þó skýrt fram af okkar hálfu, minni hálfu og fleiri þingmanna Sjálfstæðisflokksins, að við litum á þetta sem fullkomna neyðarráðstöfun til bráðabirgða og lýstum því að við vildum komast út úr þessu fyrirkomulagi sem allra fyrst. Það var alveg skýrt af okkar hálfu.

Eitt af því sem við horfðum til í nóvember var að í gjaldeyrisreglum Seðlabankans var gert ráð fyrir ákveðinni endurskoðun núna í mars. Við bundum vonir við það að á þeim tíma sem leið, frá nóvember og fram í mars, hefðu skapast einhver skilyrði til að unnt yrði að feta brautina frá gjaldeyrishöftunum, stíga skref í þá átt að létta þær reglur sem þá voru fyrir hendi. Því miður erum við núna í þeirri stöðu sem er viðbragð við óheppilegri þróun að við erum með tillögur um að herða reglurnar. Það eru mikil vonbrigði að ástandið sé með þeim hætti.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að gjaldeyrishöft eru óheppileg og fullkomlega á skjön við þær hugmyndir sem við höfum um frjáls viðskipti. Þess vegna verða menn að líta á allar ákvarðanir í þá átt sem skammtímaráðstafanir og við eigum að reyna eftir öllum mætti að komast út úr slíku fyrirkomulagi eins fljótt og auðið er frekar en að sökkva sér dýpra í það.

Hættan er sú, eins og bent hefur verið á í umræðunni, þar á meðal af hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur, að frumvarpið sem slíkt skili ekki þeim árangri sem ætlast er til. Við gerum okkur grein fyrir því að það getur leitt til þess að við þurfum í framhaldi að samþykkja nýjar reglur, jafnvel einhvern tímann í náinni framtíð, sem gerir það að verkum að einhverjum öðrum holum er lokað og þannig er hætta á að við flækjumst lengra inn í haftafyrirkomulagið. Það er töluvert alvarlegt mál. Reynslan frá fyrri árum og áratugum og reyndar frá öðrum löndum líka er sú að það er miklu auðveldara að koma sér inn í svona haftafyrirkomulag en að losna út úr því. Þess vegna hefur maður vonda tilfinningu fyrir því að fara lengra inn á þessa braut.

Það hefur líka komið fram í umræðunni og full ástæða til að leggja áherslu á það að auðvitað er fyrst og fremst eitt atriði sem mætti verða til þess að losa um þær aðstæður sem gera það að verkum að þessi höft eru óhjákvæmileg. Við vitum að það er spurningin um krónubréfin sem eru hér inni og hugsanlega hættu á miklu gengisfalli ef höftunum verður létt af í einu vetfangi. Eins og menn hafa talað um er kannski brýnasta verkefnið, og það mikilvægasta til að komast út úr þessu ástandi, að stjórnvöld og Seðlabanki reyni með einhverjum hætti að ná samkomulagi við þá sem eiga þessi bréf og tryggja að þeir losi sig annaðhvort smám saman út úr stöðu sinni hér á landi í krónum eða fallist á að halda þessu inni í landinu til lengri tíma þannig að þeir geymi það að selja krónurnar þangað til efnahagsleg skilyrði eru orðin önnur og betri en um þessar mundir.

Hvaða leið sem verður farin er skilyrðið það að ná samkomulagi við handhafa krónubréfanna. Ég hef ekki forsendur til að meta hvernig viðræður hafa gengið milli íslenskra stjórnvalda annars vegar og eigenda krónubréfanna hins vegar. Það liggur þó fyrir að lítið hefur áunnist í þeim efnum sem eru mikil vonbrigði því að það hefur legið fyrir mánuðum saman að þetta væri mikilvægt viðfangsefni og verkefni. Ég hef ekki forsendur til að skýra hvers vegna það er, en hvernig svo sem á það er litið er mikilvægt að í því máli verði unnið og lausn fundin í þeim efnum þannig að við eigum möguleika á að komast út úr þessu fyrirkomulagi.

Staðan er sú að við Íslendingar höfum reynslu af því að búa við gjaldeyrishöft og víðtæk höft á erlendum viðskiptum. Við vitum að þau höft sem hér voru bæði varðandi fjármagnsflutninga og aðra þætti í utanríkisviðskiptum okkar á síðustu öld voru með þeim hætti að það tók okkur ár og jafnvel áratugi að losna út úr því. Við verðum að gæta þess vandlega að lenda ekki í slíkri stöðu aftur.

Í því ljósi og með þau viðvörunarorð í huga tel ég rétt fyrir okkur að stíga skref sem fyrst í þá átt að losa um þetta og í ljósi þeirrar afstöðu og í ljósi þess að ég hef nokkrar efasemdir um að þau úrræði sem eru lögð til í þessu frumvarpi skili árangri mun ég gera eins og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir lýsti áðan, sitja hjá við afgreiðslu málsins. Við sjálfstæðismenn munum ekki leggjast gegn málinu en við teljum hins vegar ekki ástæðu til að taka á okkur ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin í þessum efnum núna.