139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[16:26]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir greinargott yfirlit, enda hefur hann sjálfsagt þekkt málið enn lengur en ég, einstaka þætti þess. Það er mér ekkert persónulegt kappsmál að ein eða önnur útfærsla verði ofan á í þessu sambandi en við verðum að sjálfsögðu að fylgja þeim leiðbeiningum sem úrskurðir hafa verið kveðnir upp um og varða stjórnarskrána — og ég legg þetta til varðandi Félag smábátaeigenda og aðra slíka sem þar gætu fallið undir.

Það er mitt mat að menn geti orðið aðilar að félagasamtökum og þá bara greitt beint án þess að hafa milliliði í því. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið er ekki með neina milligöngu í þessum efnum og hefur ekki verið, og ekki er gert ráð fyrir því í þessu, heldur hefur viðkomandi félag þá sent lista til viðkomandi aðila sem sjá um innheimtu á gjaldinu og hann liggur þar fyrir.

Í öðru lagi varðandi bréf sem hv. þingmaður minntist á að hefði verið sent af hagsmunaaðilum til ráðuneytisins þá var það í tengslum við frumvarpsdrög sem litu allt öðruvísi út í grundvallaratriðum, þá var gert ráð fyrir því að gjaldinu væri haldið eftir nema menn segðu sig frá þessu. Samkvæmt því frumvarpi sem hér er lagt til verða menn hins vegar að hafa sent inn skriflega ósk eða staðfestingu á að þeir vilji hafa þessa tegund af innheimtu á og aðild að henni. (Forseti hringir.) Það er meginmunur á þessu og ég held að ef það hefði legið fyrir hefðu athugasemdirnar verið með öðrum hætti.

Ég kem seinna að þriðju spurningunni, frú forseti.