139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[16:29]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður veltir því fyrir sér af hverju ekki hafi verið veittar opnar heimildir fyrir samtök vélstjóra, samtök sjómanna, sem sagt miklu víðtækari heimildir. Ég vísa til þess að þá þyrfti jú að halda enn viðameiri skrá og persónulegri skrá, eins og hv. þingmaður kom inn á og ég líka í framsögu minni, en nú þegar er fyrirséð með lagaumgjörð sem hefur breyst frá því þessi lög voru sett á sínum tíma, þau lög sem hér er verið að breyta. Sú umgjörð hefur öll breyst. Ég legg áherslu á og treysti því að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fari gaumgæfilega yfir þessi mál og geri sér grein fyrir þeim atriðum sem geta verið álitamál. Ég vona að þegar þau koma frá hv. nefnd uppfylli þau þessi skilyrði sem verið er að tala um.

Ég legg samt áherslu á að halda utan um félagskerfi almannasamtaka eða hagsmunasamtaka eins og hér um ræðir, t.d. smábátasjómanna, hvaða félag sem þeir síðan skipa sér í, eða önnur samtök. Ég legg áherslu á að hið opinbera styðji frekar, að því marki sem það getur, við að slík samtök séu virk, því að þau standa jú að margþættum verkefnum til almannaheilla, fyrir samfélagið og fyrir hið opinbera, þó að þau séu ekki alltaf tilgreind í lögum. En auðvitað verður að uppfylla kröfur stjórnarskrár og annað (Forseti hringir.) í þeim efnum.