140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mér bregður nokkuð við þegar þær þingræðishetjur sem hér riðu um héruð og sali fyrir nokkrum dögum og vikum og sögðust mundu geta talað hér í allt sumar, allt haust, allt lífið til að stöðva hin hræðilegu áform ríkisstjórnarinnar, eru nú farnar að kvarta yfir því að það eigi að halda þinginu áfram í júlí. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson hefur annað að gera og þannig tala menn hér.

Auðvitað er það svo að samningar um afgreiðslu mála eru eðlilegur þáttur þingstarfa milli þeirra þingmanna sem hafa myndað með sér meiri hluta og þeirra annarra sem taka þátt í löggjafarstörfum og stjórn landsins. Það er hins vegar þannig að ef menn koma sér ekki saman, beita þrákelkni og misbeita reglum sem við höfum um lýðræðislegan framgang á þinginu þá er leiðbeining í þingsköpunum. Hinir vísu menn sem þingsköpin sömdu hafa sett þar ákveðna leiðbeiningu og hún felst í 64. gr. Þegar 64. gr. er nefnd eins og var gert um daginn (Gripið fram í.) þá er líka hrópað og hrinið og talinn vera einhver sérstakur fasismi þar á ferð.

Rétt er að athuga að leiðbeiningin í 64. gr. er í þrennu lagi. Í henni er tiltekið að forseti eða þingmannahópur geti lagt það til að umræðum verði lokið nú þegar, að lokið verði umræðum eftir tiltekinn tíma miðað við dagsetningu eða klukkustundir og að ræðutími hvers þingmanns verði takmarkaður. Ég vil biðja formenn flokka og þingflokksformenn að íhuga þetta og fara eftir þessum leiðbeiningum.

Ef það verður ekki gert vil ég líka biðja hv. þingmenn sem hér eru staddir og til mín heyra að skoða hug sinn um að við flytjum saman, níu menn, tillögu um eitthvað af þessu, gætum meðalhófs, gefum öllum sinn góða og rétta tíma til að tala um veiðigjöldin (Forseti hringir.) [Frammíköll í sal.] og þau mál önnur sem hér eru uppi, en virðum kjarnann í hinum lýðræðislegu leikreglum sem við störfum eftir.