140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

uppgjör SpKef og Landsbankans.

[11:37]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Þau voru eftirtektarverð, síðustu orð fyrrverandi fjármálaráðherra um að innstæðueigendur hefðu ekki tapað krónu. Það er vegna þess að tapinu var öllu velt yfir á skattgreiðendur í landinu. Það er einfaldlega þannig. Við ræðum hér Sparisjóð Keflavíkur, gríðarlegt tap fyrir skattgreiðendur, 19 milljarða sagði einhver áðan. Þetta er einfaldlega enn ein afleiðingin af fjármálasukkinu sem var búið til og kynt undir af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á sínum tíma og fram haldið með stuðningi Samfylkingarinnar í lokin og leiddi til hrunsins sem kostaði skattgreiðendur hundruð milljarða, hruns sem núverandi formaður Framsóknarflokksins talar um í hálfkæringi sem hið svokallaða hrun. Þannig er nú ábyrgð manna á þessu. Hér er um að ræða enn eitt dæmið um samspil stjórnarmanna, bæjarfulltrúa og framámanna í atvinnulífi á Suðurnesjum og varnarsvæðinu fyrrverandi sem flestir, ef ekki allir, hafa mjög sterk pólitísk tengsl við einhvern af fjórflokknum og þá kannski minnst Vinstri hreyfinguna – grænt framboð.

Miklar lánveitingar stjórnenda sparisjóðsins og afskriftir af lánum vina og vandamanna stjórnenda sparisjóðsins vekja að sjálfsögðu upp spurningar um umboðssvik af mjög alvarlegu tagi og vonandi verður það mál rannsakað ofan í kjölinn af þar til bærum aðilum. Rannsóknarnefnd á vegum Alþingis er líka að skoða sparisjóðamálið og vonandi kemur sannleikurinn í ljós þar. En þetta sitjum við uppi með, birtingarmynd kunningja- og klíkusamfélagsins þar sem samspil stjórnmálamanna, fjármálafyrirtækis og annarra í atvinnulífinu á staðnum í skjóli ónýtrar löggjafar um fjármálafyrirtæki, sem einnig var sett af samflokksmönnum þessa sama fólks, hefur leitt til alls þessa. Og hér sitjum við enn í dag og körpum um keisarans skegg dag eftir dag án þess að til sé almennileg löggjöf um fjármálalíf á Íslandi. Sama kunningja- og klíkusamfélagið er enn við lýði (Forseti hringir.) og það mun rísa upp á ný og seilast til valda á ný og það mun ná völdum á ný ef það Alþingi sem hér situr hefur ekki dug í sér til að taka á þessum málum. Og hingað til á þremur árum hefur Alþingi (Forseti hringir.) ekki getað það og því þarf að fara að skipta hér um fólk.