140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:17]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það undir hvaða ráðuneyti Íbúðalánasjóður á að heyra man ég ekki eftir neinum sérstökum ályktunum frá framsóknarmönnum um að gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi í þá veru að færa Íbúðalánasjóð frá velferðarráðuneytinu. Ég veit að fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, hv. þm. Árni Páll Árnason, hafði töluverðan áhuga á því að fá Íbúðalánasjóð undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið en ég bendi hins vegar á að ég held að í ráðleggingum OECD sé mælt með því að almennt eignarhald á hlutafélögum sé á hendi eins ráðherra, þá fjármálaráðherra, en Íbúðalánasjóður er sérstakt fyrirkomulag og við erum þá að tala um að minnsta kosti þrjá mögulega ráðherra sem gætu farið með þetta málefni.

Ég held að menn hafi verið nokkuð sammála um að það sé rétt að húsnæðismálin séu hjá velferðarráðherra og í ljósi áherslna frá Eftirlitsstofnun EFTA um það hvert hlutverk sjóðsins á að vera, sem er það velferðarhlutverk að tryggja ákveðið öryggi varðandi húsnæðismál fólks eins og við höfum nálgast þetta, held ég að sjóðnum líði alveg ágætlega þannig séð hjá velferðarráðherra. Það liggur samt ekki fyrir formleg afstaða hjá framsóknarmönnum um að gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi.

Varðandi markaðsbrestinn vil ég koma aftur að því sem ég var að tala um, mikilvægi þess að sett sé almenn löggjöf fyrir alla lánveitendur. Ég hef töluverðar áhyggjur af því eins og er hversu bratt bankarnir eru að fara aftur inn á (Forseti hringir.) húsnæðislánamarkaðinn og ég efast ekki um að velferðarnefnd muni þurfa að fjalla um áhrif þess (Forseti hringir.) á fjárhag sjóðsins því að þau geta verið mjög alvarleg.