140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:21]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru mjög áhugaverðar vangaveltur hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur. Ég vona og trúi því að við munum fá svör við þó nokkrum þessara spurninga þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð kemur. Þegar við vorum að vinna þá tillögu lagði ég einmitt mjög mikla áherslu á það að við þyrftum að fá heildarmynd þannig að við værum ekki bara að skoða mjög afmarkað tímabil og bara starfsemi Íbúðalánasjóðs heldur yrðum við að skoða hvaða áhrif hann hefur á húsnæðislánamarkaðinn á Íslandi og hefur haft yfir lengri tíma, alveg frá því að hann var settur á stofn. Á grundvelli þeirra upplýsinga getum við vonandi tekið betri og meira stefnumarkandi ákvarðanir um framtíð sjóðsins og hlutverk hans, og ekki bara hans heldur líka annarra sem eru á þessum markaði, banka sem bjóða upp á lán til bæði einstaklinga og félaga til að byggja húsnæði. Það er ekkert sem segir að það sé ekki hugsanlegt að bankarnir hefðu áhuga á því að lána til leigufélaga eða húsnæðissamvinnufélaga til að byggja upp þess konar valkosti á Íslandi.

Eins og ég sagði í ræðu minni hef ég þó nokkrar áhyggjur af þessu og ég tel að það sé mjög brýnt að velferðarnefnd fylgist mjög vel með sjóðnum. Í dönsku húsnæðislánalöggjöfinni er ákvæði um að allir þeir sem lána til fasteignakaupa þurfi að gæta sín mjög vel hvað varðar fjármögnunina á lánunum. Lánin þurfa alltaf að vera forfjármögnuð og ef maður lánar til 30 ára þarf skuldabréfið að endurspegla það þannig að menn séu forfjármagnaðir þegar kemur að því að veita þessi lán. Það voru íslensku bankarnir ekki. Vandi Íbúðalánasjóðs er líka (Forseti hringir.) að þótt hann hafi uppgreiðsluákvæði gagnvart þeim sem taka lán hjá Íbúðalánasjóði (Forseti hringir.) hefur hann ekki að sama skapi möguleika til að borga upp sín lán sem gerir mikið ójafnvægi, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, í fjármögnun sjóðsins og er raunar eitt af því sem ég nefni að við verðum að fylgjast mjög vel með.