149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[15:06]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég hafði ekki tækifæri til að koma hér í 2. umr. þegar umferðarlögin voru rædd, en ég ætla örlítið að ræða þau umferðarlög sem eru hér til umræðu, þ.e. frumvarp til umferðarlaga. Ég ætla þó ekki að eyða miklum tíma í það, bara að renna yfir þetta.

Ég vil þakka fyrir góða vinnu í nefndinni fyrir það fyrsta. Fyrst þegar ég sá þær breytingartillögur sem frumvarpið hafði að geyma fann ég ýmislegt sem ég var ekki ánægður með. En í meðförum nefndarinnar var margt fært til betri vegar, það er óhætt að segja það, þó ekki allt. Ég ætla kannski að renna örlítið yfir það í þessari ræðu minni.

Áður en ég byrja þá þykir mér afskaplega sárt, herra forseti, að sjá þessum lögum breytt yfirleitt vegna þess að manni er farið að þykja frekar vænt um gömlu umferðarlögin eftir að hafa unnið við það allar götur síðan þau voru sett, þ.e. lög nr. 50/1987, og það er með eftirsjá sem þau fá núna nýtt númer og sumar greinar breytast, þannig að maður þarf líklega að leggja þetta allt á minnið aftur. Burt séð frá því var auðvitað löngu nauðsynlegt að koma með breytingar í umferðarlögin, mjög margar og margháttaðar, og í meðförum nefndarinnar breyttist margt sem ég var óánægður með.

Ég ætla að nefna hjálmanotkunina. Ég er ánægður með breytinguna sem kemur þar inn á síðustu stundu, þ.e. að áfram verði miðað við 15 ára aldur, að ekki sé verið að leggja þar út í einhver djúpsvæði sem við vitum ekki hvar enda varðandi það að taka út þennan aldurshóp, 15–18 ára; að setja þennan hóp ekki í áhættu varðandi tryggingabætur ef hann lendir í slysi og er talinn hafa brotið ákvæði umferðarlaga. Það þarf auðvitað að rannsaka það betur áður en menn fara út í slíkt. Ef þetta dregur úr hjólreiðum þá er það líka afskaplega slæmt. Ég er ánægður með þessa breytingu, að bakkað hafi verið niður í 15 ár, og er sáttur við það. Ég skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara og í máli mínu hér á eftir ætla ég að nefna nokkur atriði sem ég er ekki enn sáttur við, þó að langmest af þessum breytingum sé mjög til góða.

Fyrst ætla ég að nefna þessa breytingartillögu sem kom í dag, þ.e. frá hv. þm. Bergþóri Ólasyni. Hún fjallar um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem hefur verið hálfgert olnbogabarn í löggæslunni vegna þess að þarna er verið að refsa mönnum. Mönnum hefur verið refsað fyrir að ávana- eða fíkniefni, aðallega kannabis, mælist í þvagi kannski mörgum vikum eftir að viðkomandi hefur reykt kannabis. Mér hefur alla tíð þótt það annarlegt að vera að refsa fólki sem er sannarlega ekki óhæft til að aka bifreið bara vegna þess að niðurbrotsefni mælast í þvagi, kannski mörgum vikum eftir að viðkomandi neytti kannabis. Mér finnst það ekki vera sanngjarnt og ekki rétt og kemur hæfi manns sem ökumanns ekki við. Það hefur verið mín skoðun í gegnum tíðina.

Tillaga hv. þm. Bergþórs Ólafssonar gengur út á það, hún var nú bara að koma í dag, að lögreglu sé heimilt að stöðva akstur þeirra sem mælast með niðurbrotsefni í þvagi, eins og t.d. kannabis, sem mun þó vera algengast, held ég, en það er engu að síður refsilaust, þetta fjallar bara um að stöðva aksturinn. Ef lögreglan stöðvar ökumann og hann skilar þvagi og einhvers konar niðurbrotsefni mælast í því sýni, sem er bara til bráðabirgða, þá er aksturinn stöðvaður vegna þess að menn vita ekki endanlega niðurstöðu. Þá tekur einhverjar vikur að fá endanlega niðurstöðu í slíkri sýnatöku. Þannig að auðvitað taka menn ekki áhættu á því að láta ökumenn aka áfram ef þetta gerist. Tillagan gengur út á það, ef ég skil hana rétt, að skjóta styrkari stoðum undir heimild lögreglunnar til að stöðva aksturinn. Síðar koma niðurstöður úr þessum mælingum þegar búið er að taka sýni.

Ég ætla að nefna 52. gr. sem fjallar um aðkomu læknis eða hjúkrunarfræðings, sem var í frumvarpinu og var breytt eftir að Læknafélagið hafði mótmælt. Nú skal klínískt mat á ökumanni vera framkvæmt af til þess bærum heilbrigðisstarfsmanni. Ég er, held ég, sáttur við þetta, enda kannski óeðlilegt að fela aðila sem hefur ekki klíníska menntun að leggja slíkt mat á ökumann.

Varðandi 64. gr.: Þar var einnig gerð athugasemd af hálfu Læknafélagsins. Það ákvæði var fellt úr frumvarpinu. Þar er ég að tala um tilkynningarskyldu lækna ef þeir verða varir við að einhver sem hefur ökupróf sé ekki hæfur í sínu starfi. Læknafélaginu fannst ófært að um leið og sjúklingur labbaði út af stofunni hjá honum þyrfti læknirinn að hringja til yfirvalda og tilkynna að þar fari óhæfur ökumaður. Það myndi auðvitað valda miklum trúnaðarbresti milli lækna og sjúklinga þeirra og hugsanlega verða til þess að sjúklingar myndu bara alls ekkert mæta til læknis ef þeir teldu sig vera þarna á mörkunum og læknir tæki upp símann um leið og þeir yfirgæfu læknastofuna. Þetta hefur verið fellt út þannig að ég er ánægður með það.

Í þriðja lagi er það akstur undir áhrifum lyfja sem er nýtt ákvæði í 50. gr. Það er til bóta að orða það betur, en ég nefni það bara hér að auðvitað er þetta eitthvað sem gæti tekið áraraðir að þróast í starfi ákæruvalds og lögreglu hvernig gengur að sanna slíkt. Þarna er um marga lyfjaflokka að ræða, alls kyns lyf sem hafa ýmiss konar verkun, sem er ekkert óumdeild, þannig að ég tel að þarna sé kannski verið að ríða út á vað sem við vitum ekki hversu djúpt er. En það er auðvitað til bóta að fyrstu skrefin í þessu séu stigin.

Varðandi 62. gr., sem fjallar um akstur dráttarvéla m.a., vil ég nefna að þar er ákveðið vandamál sem er enn óleyst og er ekki verið að leysa í þessu frumvarpi, þ.e. þegar dráttarvélar eru notaðar á sama hátt og vörubifreiðar, eru með aftanívagna sem taka mikið magn af efni og eru alls ekki settir undir sama hatt og vörubifreiðar, bæði varðandi skoðun og fleira. Það eina sem nefndin gerir er raunverulega að beina því til ráðherra að skoða þetta eins og segir í nefndarálitinu:

„Með hliðsjón af umferðaröryggi beinir nefndin því til ráðherra að endurskoða kröfur til ökuréttinda ökumanna dráttarvéla sem eru í atvinnustarfsemi öðrum en landbúnaðarstörfum í almennri umferð.“

Þarna er ekki verið að taka á þessu vandamáli sem hefur aukist. Ég hefði frekar viljað að nefndin hefði reynt að leysa þetta vandamál sem er aðkallandi víða um land, þ.e. þeir eru í samkeppni við vörubifreiðar sem þurfa að sinna allt öðrum kröfum en þessar dráttarvélar. Þarna er óleyst vandamál.

Varðandi vegaeftirlit lögreglu er ég ánægð með að nefndin skyldi hafa fallið frá því að fella á brott heimild til að fela öðrum en lögreglu þetta vegaeftirlit. Þessi heimild var felld á brott í meðförum nefndarinnar og ég er mjög ánægður með það og vil geta þess.

Varðandi hlutlægu ábyrgðina í 94. gr. Ég er auðvitað hæstánægður með að það skyldi hafa verið fellt út líka og talaði mikið fyrir því í nefndinni. Við þurfum að stíga varlega til jarðar ef við ætlum að fella sök á eigendur bifreiða þegar þeir eru sannarlega ekki að brjóta af sér, þ.e. þegar þeir lána bílinn — það getur verið ökumaður bílaleigubíls, starfsmaður í fyrirtæki eða bara einhver annar fjölskyldumeðlimur sem ekur of hratt fram hjá hraðamyndavél og rukkunin er send til eiganda. Hann er látinn bera ábyrgðina, alfarið. Það er mjög handhægt ef þetta gæti verið svona, þá gengur innheimta auðvitað prýðisvel. Menn vita nákvæmlega hvert þeir eiga að leita, en eigandinn borgar brúsann þótt hann beri enga sök og hafi enga sök borið oft og tíðum.

Við þurfum að finna aðra lausn á þessu vandamáli, t.d. varðandi veggjöld. Þá kemur þetta strax upp: Hvern á að rukka um veggjöld ef ekki er hægt að taka bifreiðina og rukka eigandann, vegna þess að við vitum aldrei hver er að aka í hvert og eitt skipti? Þetta er óleyst vandamál, en ég er ánægður að þetta skyldi hafa verið fellt á brott úr upphaflega frumvarpinu.

Annað sem ég ætla að nefna, tíminn flýgur, er 5. mgr. 52. gr. Þar er ákvæði sem er afskaplega einkennilegt, með leyfi forseta:

„Ökumanni er óheimilt að neyta áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna í sex klukkustundir eftir að akstri lýkur ef ætla má að lögreglurannsókn fari fram vegna akstursins.“

Ég skil alls ekki svona lagatextagerð. Þetta er refsilaust, en ökumanni sem lendir í einhverju er óheimilt að neyta áfengis eða annarra vímuefna eftir að akstri lýkur ef ætla má að það fari fram rannsókn. Þetta er afskaplega einkennilegt. Þetta er refsilaust. Hvað ætla menn þá að gera ef menn brjóta þetta? Hvað ætla menn þá að gera? Ætla menn að skamma þá eða? Þetta er algjörlega þarflaust ákvæði, herra forseti. Ætla þeir að flengja þá eða hvað á að gera? Er þetta bara almenn leiðbeining? Vertu góður. Ég átta mig ekki á þessu ákvæði, alls ekki. Ég hefði viljað sjá það fara út úr frumvarpinu enda hefur það enga þýðingu.

Síðan er það 101. gr. sem ég hefði viljað sjá breytast. Þar er sett inn ítrekunarákvæði varðandi þá sem brjóta gegn reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Þar er þessi hópur ökumanna sem er að aka fólksflutningabifreiðum eða stórum ökutækjum tekinn út úr. Ef hann brýtur gegn þessum ákvæðum um aksturs- og hvíldartíma þá eru viðurlögin allt önnur en í mörgum öðrum flokkum vegna þess að hann má sæta sviptingu ef hann brýtur þessi ákvæði oftar en tvisvar sinnum.

Ég benti á það í nefndinni að mér fyndist þetta óeðlilegt. Það væru mörg önnur brot, umferðarlagabrot, sem mætti refsa fyrir með slíkum hætti; mér fyndist óeðlilegt að taka bara þetta út. Þetta eru atvinnuréttindi. Ég hefði viljað sjá þetta fara út, eða a.m.k. þá endurskoða ítrekunaráhrif í fjölda annarra tilvika en eingöngu þessu.