149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[17:01]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætissvör. Í 4. gr. segir, ef við förum aðeins nánar yfir þetta með þessar skýrslur: „sem fyrirtæki og einstaklingar í atvinnurekstri eiga að skila inn“. Einstaklingar í atvinnurekstri, mér finnst það vera svolítið óskýrt. Það þyrfti að vera einhvers konar skilgreining á því hvað verið er að tala um þarna, þ.e. stærð fyrirtækja o.s.frv.

Eins og ég les þetta, herra forseti, finnst mér eins og lítið fyrirtæki með þrjá til fjóra starfsmenn gæti verið krafið um skýrslu um aðgerðir í loftslagsmálum. Það kann að vera misskilningur hjá mér en þetta birtist mér alla vega þannig. Ég var að reyna að lesa mér til í greinargerðinni en ég sá það ekki. Það er nú reyndar talið upp að ráðherra geti sett nánari reglur um þetta í reglugerð.

Að lokum langar mig aðeins að koma með smáinnskot varðandi þessa grænu skatta, það var athyglisvert það sem kom fram hjá hv. þingmanni. Væri t.d. ekki kjörið að leggja það á flugfélögin að þau fari að framleiða hreyfla sem menga minna? Þarf almenningur alltaf að sjá um þessa hluti eins og í hærra farmiðaverði og þannig? Eigum við ekki að setja þessar kröfur á flugfélögin?