149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

upplýsingalög.

780. mál
[17:46]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Mig langar á móti að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að leggja þetta mál fram. Þetta er gríðarleg bylting í því að efla réttindi almennings til að fá upplýsingar og þetta myndi ekki gerast nema af því að þetta er meðal þess sem hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir brennur fyrir. Þetta er eitt af því ánægjulega sem maður sá þegar þessi ríkisstjórn var mynduð að myndi gerast, þ.e. þetta er eitthvað sem maður sér að maður getur treyst hæstv. forsætisráðherra fyrir, þ.e. að efla gegnsæi. Þetta hefur verið sett á oddinn en jafnframt önnur mál sem voru samþykkt á sínum tíma með þingsályktun í þinginu og allir flokkar á því máli, svokölluðu IMMI-máli eða máli um að Ísland skapi sér sérstöðu varðandi upplýsinga- og tjáningarfrelsi sem Birgitta Jónsdóttir var framsögumaður að. Ég þakka henni líka fyrir. Þetta er eitt dæmi um þegar það tekur tíma, hlutirnir gerjast og það verður að vera rétt fólk á réttum stað til að hlutirnir raunverulega skili sér og ég þakka það kærlega. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)