149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[21:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það má segja að það er alveg sama hvaða mál við fjöllum um, ef við erum með 15, 17, 20 loforð eða hvað þau eru mörg um einhverjar aðgerðir, ef þær eru ekki tímasettar og enn síður fjármagnaðar þá eru það bara orð á blaði, þá er það ekkert annað í sjálfu sér. Þess vegna er mikilvægt að skýra það mál.

Varðandi það sem við ræðum hér, um atvinnustefnu og gjaldtöku í þjóðgarðinum á Þingvöllum, þá væri fróðlegt að vita hver afstaða sveitarstjórnarmanna hefur verið til þessa máls. Það er spurning. Ég vona í það minnsta að það sé ekki verið að fara gegn vilja þeirra aðila. Það er mjög mikilvægt að gott samstarf sé við sveitarfélögin.

Hitt er annað að í sjálfu sér er málið að sjálfsögðu ekki mjög flókið. Þetta er um atvinnustefnu og þetta er um gjöld sem á að greiða. En það verður fyrst flókið þegar þarf að fara að ákveða hvaða atvinnustarfsemi á að leyfa innan þjóðgarðsins og hvaða ekki. Í hversu miklu magni á hún að vera, þ.e. hversu mikill fjöldi leyfa á að vera til reiðu? Hvernig á gjaldtakan að vera? Hversu há? Borga allir jafnt og er tryggt að leyfisgjöldin séu eingöngu fyrir þeim kostnaði sem hlýst af umsýslu þeirra o.s.frv.?

Þetta á að taka ár. Fínt, maður treystir því þá að verði málið að lögum verði vandað mjög til verka. Ég treysti að sjálfsögðu nefndinni fullkomlega til þess. En það er mikilvægt að þetta sé mjög ljóst og uppi á yfirborðinu. Helst hefði ég viljað sjá almennar reglur fyrir þjóðgarðana á Íslandi.