150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:24]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég er í ekki umhverfis- og samgöngunefnd en til að geta tekið þátt í þessari umræðu, ef hún fer að dragast eitthvað á langinn og eitthvert ósætti verður um hana, sem gæti orðið, langaði mig að vera viss um að ég skildi lögin og tilurð þeirra sæmilega. Ég ætla því að fara yfir hvað lög um samgönguáætlun segja, hvernig þau hafa breyst í gegnum tíðina og hvaða mat er hægt að leggja á þessar lagagreinar út frá greinargerðum.

Í stuttu máli voru þessi lög samþykkt árið 2008. Það var þá alveg nýtt frumvarp, viðbót við það sem hafði verið samþykkt árið 2002. Breytingarnar sem voru gerðar voru ekki veigamiklar og koma fram í greinargerðinni með frumvarpinu sem var samþykkt árið 2008. Þau lög erum við að vinna með núna. Frumvarpið er það stutt að ákveðið var að leggja það fram aftur í staðinn fyrir að leggja fram breytingartillögur og breyta lögunum eins og þau höfðu verið samþykkt árið 2002.

Það hringir strax viðvörunarbjöllum hjá mér. Mér hefur ekki gefist tími til að kafa ofan í þetta en ég get gert það hér ef umræðan dregst mikið á langinn. En um leið og nýtt frumvarp er lagt fram eru hvorki lagafrumvarpið né lögskýringargögnin frá árinu 2002 með lengur. Það er nákvæmlega það sem gerist. Það vantar öll lögskýringargögnin með greinargerðunum við frumvarpið frá árinu 2002. Nú er komið nýtt lögskýringargagn við frumvarpið frá árinu 2008. Greinargerðirnar útskýra þær lagagreinar og vægið sem greinargerðirnar í lögunum frá 2002 höfðu er horfið.

Það er ofboðslega mikil hreppapólitík, eða kjördæmapólitík, þegar kemur að samgöngumálum eins og allir sem fylgjast með málaflokknum vita mætavel. Þá má spyrja: Hvernig hefur þetta breyst? Hvernig hyggst hæstv. ráðherra samgöngumála, sem núna er úr Suðurkjördæmi ef ég man rétt, fara eftir lögunum? Það er góður megintilgangur í lögunum, eins og segir, með leyfi forseta:

„1. gr. Markmið. Markmið laga þessara er að samræma áætlanagerð við framkvæmdir og rekstur í samgöngumálum. Það skal gert með samgönguáætlun til [fimmtán] ára skv. 2. gr. og [fimm ára aðgerðaáætlun] skv. 3. gr. sem er hluti af og innan ramma samgönguáætlunar.“

Þannig að það á að samræma alla áætlanagerð um framkvæmdir og ramma þær inn. Sá rammi verður að fylgja alls konar forskrift og kemur það m.a. fram í 2. gr. laganna, í miðri greininni. Þetta er síðasti málsliður 2. mgr. 2. gr., með leyfi forseta:

„Við gerð samgönguáætlunar skal m.a. byggja á þeim meginmarkmiðum að samgöngur séu greiðar, hagkvæmar, öruggar og umhverfislega sjálfbærar auk þess sem þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun.“

Þessi markmið verður að ramma inn. Það verður að ramma inn alla áætlunina og þar af leiðandi forgangsröðun framkvæmda, hvenær þessar samgönguumbætur koma til framkvæmda. Hvernig kemst ráðherra mögulega fram hjá þessum ramma? Við sjáum það í öðrum málum sem eru þessu tengd, eru til meðferðar í þinginu og við höfum þekkt í gegnum tíðina, t.d. Vaðlaheiðargöng. Þá er farið að kalla þetta eitthvað annað en opinbera framkvæmd. Leiðin sem reynt var að fara með Vaðlaheiðargöng var að tala um einkaframkvæmd. Að lokum þurfti ríkið að moka peningum í þá hít sem Vaðlaheiðargöng voru. Þetta var orðið langt umfram það að vera einhver einkaframkvæmd. Skattgreiðendur borguðu í fyrsta lagi fyrir þau með skattfé, sem var aftur og aftur mokað í göngin. Síðan þurfa þeir líka að greiða fyrir að keyra í gegnum göngin. Þetta er dæmi um einkaframkvæmd, eða einka/opinbera samkrullsframkvæmd, sem landsmenn hafa verið mjög óánægðir með.

Annað dæmi um framkvæmd sem einkaaðilar komu að og landsmenn sjá í miklu jákvæðara ljósi eru Hvalfjarðargöngin. Það þurfti jú að greiða fyrir að aka í gegnum þau en það sparaði manni þennan rosalega langa legg sem Hvalfjörðurinn var. Að lokum rataði þetta til ríkisins.

Ráðherra getur farið út fyrir þann faglega ramma sem hefur verið festur í lög um samgönguáætlun eins og hann ætlar að gera með sex mismunandi samgöngumannvirki sem hafa verið tekin út úr samgönguáætlun og sett framar í forgangsröðina með því að kalla þau PPP, á ensku „Public Private Partnership“, samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila. Þrjú koma til framkvæmda einhvern tíma síðar en þau á að skoða strax og þrjú eru tilbúin og eiga að koma til framkvæmda. Síðan er mér sagt að vegna þess að þessi þrjú samgöngumannvirki eru tekin út úr samgönguáætlun og eigi að fjármagna þau á þennan hátt sé ekki hægt að setja þau aftur inn í forgangsröðunina. Það er búið að taka þau út. Þar af leiðandi standa heimamenn frammi fyrir því að annaðhvort er farið í einkaframkvæmd í samvinnu við hið opinbera eða að framkvæmdirnar eru bara dottnar út og detta ekki aftur inn fyrr en einhvern tímann síðar. Ef þessi samgönguáætlun er samþykkt detta þessi samgöngumannvirki út og heimamenn eru í raun læstir inni. Annaðhvort þurfa þeir að bíða miklu lengur eða að sætta sig við að borga einkaaðilum fyrir samgöngubætur. Þetta er dæmi um hvernig er hægt að misfara með góðan ramma utan um samgöngur.

Eitt þeirra atriða sem ég nefndi hér áðan er að eitt af meginmarkmiðum laganna er, með leyfi forseta, „að samgöngur séu greiðar, hagkvæmar, öruggar og umhverfislega sjálfbærar auk þess sem þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun.“

Öryggi. Með þeirri leið sem lögð er til í frumvarpinu er hægt að taka þessi sex atriði út þó að minna öryggi sé fólgið í því og það væri kannski meira öryggi fólgið í að fara í einhverjar aðrar framkvæmdir. En það er óþarfi því að einkaaðilar eru komnir inn í verkefnið. Því meira sem einkaaðilar koma að verkefni því minna þarf af fé sem annars færi í samgönguáætlun. Það er dæmi um hvernig ráðherra getur komist fram hjá þeim faglega ramma sem er til staðar.

Ef við höldum áfram þá segir í 2. gr. laga um samgönguáætlun með leyfi forseta:

„Ráðherra leggur á að minnsta kosti þriggja ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun“ — Svo að ég skjóti því inn þá er þetta einmitt það sem um er að ræða hér. — „þar sem mörkuð skal stefna og markmið fyrir allar greinar samgangna næstu fimmtán árin. Jafnframt skal m.a. meta og taka tillit til þarfa ferðaþjónustunnar fyrir bættar samgöngur.“

Í yfirferð minni mun ég nefna sérstaklega þegar einhverju er bætt inn í lögin frá árinu 2002. Lögin frá árinu 2008 eru nánast samhljóða þeim frá árinu 2002. Þau voru samt sem áður uppfærð, það var lagt fram nýtt frumvarp með nýrri greinargerð og rökstuðningi. Við erum ekki enn þá komin að neinu sem er efnislega öðruvísi.

Áfram, með leyfi forseta, 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins frá 2008:

„Samgönguáætlun tekur til fjáröflunar og útgjalda til allra greina samgangna, þ.e. flugmála, vegamála og siglingamála, þ.m.t. almenningssamgangna, hafnamála, sjóvarna, öryggismála og umhverfismála samgöngugreina. Þar skal skilgreina það grunnkerfi sem ætlað er að bera meginþunga samgangna og gera skal grein fyrir ástandi og horfum í samgöngum í landinu.“

Svo kemur þessi viðbót. Ég er búinn að lesa hana upp tvisvar og ég ætla að lesa hana upp aftur. Þessu var bætt við.

„Við gerð samgönguáætlunar skal m.a. byggja á þeim meginmarkmiðum að samgöngur séu greiðar, hagkvæmar, öruggar og umhverfislega sjálfbærar auk þess sem þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun.“

Við förum í greinargerðina með frumvarpinu sem var samþykkt 2008. Þar segir um 2. gr., um öryggismál, með leyfi forseta:

„Öryggismálum er þó gert hærra undir höfði með því að þau eru talin meðal greina samgangna sem samgönguáætlun skal taka til. Öryggismál hvers konar hafa fengið aukið vægi á undanförnum árum og þykir því rétt að þeirra sé getið og um þau fjallað sérstaklega.

Lagt er til það nýmæli að telja upp þau helstu meginmarkmið sem taka skal mið af við gerð samgönguáætlunar en hér er alls ekki um tæmandi talningu að ræða enda verður að gera ráð fyrir að meginmarkmið geti breyst í samræmi við breyttar áherslur og þróun í samgöngumálum.“

Á meðan því hefur ekki verið breytt eru meginmarkmiðin öryggi, hagkvæmni, að umferðin sé greið og sjónarmiðin sem ég nefndi áðan og ráðherra þarf ekki að taka tillit til þegar hann ákveður að taka sín verkefni út úr samgönguáætlun, og mætti kannski segja gæluverkefni. Eru ekki þrjú ef ekki fjögur þeirra í kjördæmi hans? Nákvæmlega þetta er vandinn. Ráðherra samgöngumála tekur verkefni út og fjölgar verkefnum í kjördæmi sínu á kostnað allra annarra í landinu náttúrlega, m.a. mögulega á kostnað öryggis sem var sérstaklega sett inn sem markmið í lögin 2008. Það er ekki gott. Þegar við förum að ræða það mál væri gott að fá hæstv. samgöngumálaráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, hingað í þingsal svo að hann geti svarað fyrir það hvort þessi samgönguverkefni — atriðin sex sem hann tekur út úr samgönguáætlun og ætlar að gera að samstarfsverkefni með einkaaðilum með vegagjöldum — uppfylli öryggissjónarmið betur en hin verkefnin í samgönguáætlun. Eru þau greiðari eða hagkvæmari? Eru þau virkilega hagkvæmari? Geta einkaaðilar virkilega fengið fjármagn á betri vöxtum en ríkið nú í dag? Nei, þeir geta það ekki. Það lítur út fyrir að hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sé að taka út gæluverkefni sín og að hann þurfi ekki að uppfylla málefnaleg sjónarmið. Hann nái þar af leiðandi hlutfallslega fleirum af þessum sex samgönguverkefnum í gegn en hann annars gæti í sínu eigin kjördæmi. Þetta er ekki gott.

Ef ég held áfram með 2. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta, þetta er 3. mgr.:

„Við gerð samgönguáætlunar skal jafnframt taka mið af eftirfarandi markmiðum:

a. að ná fram samræmdri forgangsröð og stefnumótun.“

Nákvæmlega, það á að ná fram samræmdri forgangsröð og stefnumótun. En ráðherra getur síðan tekið út fyrir sviga sum mál sem henta honum vel og eru gæluverkefni hans.

Áfram, með leyfi forseta:

„b. að ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og mannafla.“

Nei, það er ekki hagkvæmt. Það verður að sýna fram á að það sé hagkvæmara fyrir ríkissjóð og landsmenn sem þurfa að greiða þessa vegatolla. Um það snýst þetta. Það snýst ekki um að einkafyrirtæki geti grætt. Það snýst um hagkvæmni fyrir ríkissjóð og landsmenn sem nota vegina. Ráðherra þarf að sýna fram á það. Það væri bara fyllilega eðlilegt að ætli hann að taka verkefni sín út fyrir sviga sýni hann fram á að þau séu virkilega hagkvæmari í notkun fjármagns og mannafla. Miðað við þá stöðu sem ríkissjóður er í get ég ekki séð að hann geti tekið mjög lág lán fyrir vegaframkvæmdum, eða fyrir hverju sem er en fyrir vegaframkvæmdum m.a.

Áfram, með leyfi forseta:

„c. að ná fram samræmdu skipulagi samgöngugreina og samstarfi stofnana samgönguráðuneytisins og fyrirtækja á þess vegum.“

Með leyfi forseta, 4. mgr. 2. gr.:

„Einnig skal taka mið af því að fjármunir ríkissjóðs nýtist sem best og skal forgangsröðun byggjast á mati á þörf fyrir samgönguframkvæmdir í landinu í heild og í einstökum landshlutum.“

Það þarf að taka mið af því að fjármunir ríkissjóðs nýtist sem best. Nú vitum við að fjármunir ríkisins nýttust ekki vel við gerð Vaðlaheiðarganga. Verkefnið var falið einkaaðilum. Ég sat í fjárlaganefnd sem varamaður fyrir hv. þm. Björn Leví Gunnarsson á þeim tíma. Þangað komu aðilar frá ríkinu — við þurfum að fara yfir þessi mál — og sögðu í raun að þetta væri ríkisframkvæmd. Þetta varð að lokum ríkisframkvæmd vegna þess að ríkissjóður eða skattgreiðendur mokuðu það miklum peningum í verkefnið. Það er þetta sem landsmenn eru brenndir af. Þeir vilja ekki að þetta sé gert aftur. Hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, þarf að svara fyrir það ef hann ætlar að fara í sex einkaverkefni. Hann þarf að sýna fram á það að þau séu innan faglegs ramma, sem mér sýnast þau ekki vera.

Áfram, með leyfi forseta, 5. mgr.:

„Áætlun um fjáröflun og útgjöld skal skipt á þrjú fjögurra ára tímabil og skulu útgjöld sundurliðuð þar eftir helstu útgjaldaflokkum. Jafnframt er útgjöldum vegna nýrra framkvæmda á grunnkerfinu skipt eftir einstökum stórum verkefnum á hvert hinna þriggja tímabila.“

Þetta er efnislega alveg eins og það var í lögunum 2002 sem fær mann til að hugsa: Hvers vegna tóku þeir allt frumvarpið upp árið 2008 og skiptu um greinargerðir? Það hringir bjöllum. Hér er aftur á móti atriði sem var breytt, í 6. mgr., með leyfi forseta:

„Áður en áætlun samkvæmt ákvæði þessu er unnin leggur samgönguráðherra fram stefnu sína í helstu málaflokkum, auk fjárhags- og tímaramma, til samgönguráðs, sbr. 4. gr. Tillögur byggðar á þeirri stefnu skulu unnar í stofnunum og fyrirtækjum samgöngumála fyrir ráðið. Samgönguráð undirbýr og semur tillögu að samgönguáætlun og leggur fyrir samgönguráðherra til endanlegrar afgreiðslu og ákvörðunar.“

Nei, þessu var ekki breytt. Þetta kom annars staðar frá og var fært til, svo að ég leiðrétti. Þetta var fært til, var á öðrum stað í frumvarpinu. Þetta breytist eitthvað lítillega, ef ég man rétt, en var eins að einhverju leyti. Ég ætla ekki af staðhæfa eitthvað sem ég er ekki alveg viss um.

Þá er það 3. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Aðgerðaáætlun samgönguáætlunar.

Gera skal aðgerðáætlun fyrir fyrsta fimm ára tímabil hverrar samgönguáætlunar, sbr. 2. gr. Í aðgerðaáætlun skal vera áætlun fyrir hvert ár tímabilsins fyrir hverja stofnun og fyrirtæki samgöngumála sem eiga undir ráðuneytið.“ — Þetta er eins í lögunum frá 2002.

Sundurliðun aðgerðaáætlunar skal hagað þannig að ábyrgð og fjárheimildir hverrar stofnunar og fyrirtækis komi skýrt fram. Gerð skal grein fyrir fjáröflun og útgjöld skulu sundurliðuð eftir einstökum framkvæmdum, rekstri, þjónustu og viðhaldi eftir því sem við á. Í aðgerðaáætlun skal m.a. vera sundurliðun í samræmi við framsetningu fjárlaga. Tekjur og gjöld aðgerðaáætlunar skulu rúmast innan ramma samgönguáætlunar.“

Gott mál. Í 3. mgr. 3. gr. er breyting frá því sem var í lögunum 2002:

„Áður en aðgerðaáætlun samkvæmt ákvæði þessu er unnin leggur ráðherra fram fjárhagsramma til samgönguráðs.“

4. gr. er um samgönguráð sem vinnur samgönguáætlun í samráði við ráðherra, með leyfi forseta:

„Ráðherra skipar samgönguráð sem gerir tillögu til ráðherra að samgönguáætlun og fimm ára aðgerðaáætlun samgönguáætlunar, stefnu og forgangsröðun, að fengnum áherslum ráðherra, sbr. 2. og 3. gr.“

Svo er í frumvarpinu mikil breyting frá því í lögunum frá 2002 á því hvernig samgönguráð er skipað og valdahlutföllunum við ráðherra. Með leyfi forseta:

„Í samgönguráði sitja tveir fulltrúar ráðherra og skal annar þeirra vera formaður, forstjóri Vegagerðarinnar, forstjóri Samgöngustofu og forstjóri Isavia ohf. Þá situr í samgönguráði fulltrúi þeirrar skrifstofu ráðuneytisins sem fer með samgöngumál. Skipunartími samgönguráðs takmarkast við embættistíma þess ráðherra sem skipar.“

En hvernig var þetta? Þetta var 2002 þannig að samgönguráðherra skipaði samgönguráð sem hafði yfirumsjón með gerð samgönguáætlunar og þar sátu flugmálastjóri, siglingamálastjóri og vegamálastjóri. Það er skiljanlegt að þeim hafi verið skipt út fyrir forstjóra Vegagerðarinnar, forstjóra Samgöngustofu og forstjóra Isavia. Það eru ný embætti að miklu leyti.

Í frumvarpinu frá 2008 segir um samgönguráð, með leyfi forseta:

„Auk þess situr þar fulltrúi samgönguráðherra sem jafnframt er formaður …“

Aðeins einn fulltrúi en ekki tveir. Það er bætt við fulltrúa og líka fulltrúa ráðuneytisins þannig að ráðherra hefur miklu þyngra vægi í nefndinni og valdahlutföllin hafa breyst töluvert.

Áfram, með leyfi forseta:

„Skipunartími fulltrúa samgönguráðherra er fjögur ár en skal þó takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipar.“

Svipað þar. Þið sjáið að valdahlutföllin hjá þeim sem vinna þetta breyttust árið 2008. Svo er 2. mgr. 4. gr. öðruvísi. Með leyfi forseta:

„Við gerð samgönguáætlunar skal gætt að samráði við hagsmunaaðila. Jafnframt skal almenningi gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og athugasemdum í opnu samráðsferli.“

En svona var þetta:

„Samgönguráð skal minnst einu sinni við gerð nýrrar samgönguáætlunar standa fyrir samgönguþingi sem ætlað er að veita ráðgjöf og leiðbeiningar við gerð samgönguáætlunar. Til samgönguþings skal öllum helstu hagsmunaaðilum samgöngumála boðið. Á samgönguþingi skal gera grein fyrir fyrirhuguðum forsendum og markmiðum áætlunarinnar. Samgönguráð skal hafa samráð við hagsmunaaðila eins og ástæða þykir til hverju sinni.“

Það væri örugglega gaman að hafa samgönguþing og gott líka. Í gömlu lögunum er skyldan til samráðs aftur á móti afmörkuð af svolítið þröngri tímasetningu. Núna er það þannig að við gerð samgönguáætlunar skal gæta samráðs við hagsmunaaðila. Það er víðtækara og býður upp á meira samtal. Ég kemst ekki lengra að sinni en held áfram með 5. gr. í næstu ræðu.