150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:03]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ég leyfi mér að draga þá ályktun, ef ég skil hann rétt, að Píratar hafi í raun og veru ekki mótaða stefnu í því stóra málefni sem Sundabraut er umfram það sem kannski er ákveðið á vettvangi borgarstjórnarflokksins eða aðila honum tengdum. En það er annað mál sem ég hef mikinn áhuga á og það er að Píratar bera ábyrgð á vettvangi borgarmála á mikilli áherslu á svokallaða borgarlínu. Það sést til að mynda á því að það á að setja tæplega 50 milljarða, samkvæmt því frumvarpi um þetta ohf. sem á að stofna, á meðan það á að setja rétt liðlega 50 milljarða í stofnbrautir.

Nú er t.d. fjöldi manns sem hefur atvinnu af því og gegnir mjög mikilvægu hlutverki í þjónustu við aldraða í heimahúsum. Það eru t.d. hjúkrunarfræðingar sem vitja aldraðra, sjúkraþjálfarar, það eru matarsendingar og fleira af þessu tagi, hvers kyns þjónusta. Hvaða hugmyndir hefur hv. þingmaður og kannski eftir atvikum hans flokkur um það hvert umfang þessarar þjónustu er og þeirra ferða sem hún kallar á hér á höfuðborgarsvæðinu? Er hugmyndin sú að þessi þjónusta fari eftir farvegi borgarlínu? Á allt þetta fólk að ferðast með borgarlínu sem gegnir þessari mikilvægu þjónustu við aldraða sem leitast við að búa á heimilum sínum eins lengi og þeim er fært?