150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:06]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég gat ekki látið hjá líða að koma hingað upp og ræða samgönguáætlun enda ein stærsta áætlun sem fjallað er um á þingi reglulega. Sérstaklega gat ég ekki látið hjá líða að ræða hana af því að hún var ein af þeim áætlunum sem ég beið hvað mest eftir þegar ég var starfsmaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og svo seinna starfsmaður Akureyrarbæjar og af því að næst á eftir fjárlögum hefur samgönguáætlunin á svo marga vegu hvað mest áhrif á líf íbúa víðs vegar um landið. Hér tökum við ákvarðanir um jarðgöng og fækkun einbreiðra brúa, um alls kyns áhersluatriði, framtíðarsýn og markmið í samgöngumálum næstu 14 árin. Því skiptir gríðarlegu máli að þetta skjal sé vandað og vel unnið. Ég náði því miður ekki að taka þátt í fyrri umræðunni en fannst mikilvægt að koma upp núna. Mér þykir þó gaman að geta sagt að að mörgu leyti finnst mér fyrirliggjandi samgönguáætlun góð, það er margt gott í henni. Sömuleiðis finnst mér þau nefndarálit sem liggja fyrir nokkuð góð og er ég mjög sammála mörgu sem þar kemur fram, ekki síst í nefndaráliti hv. þm. Guðjóns Brjánssonar, Samfylkingarmanns. Þar eru einmitt nokkur atriði sem mig langaði að ræða aðeins hér í dag.

Það er eins og ég sagði mjög margt gott og ýmislegt áhugavert í þeirri samgönguáætlun sem við ræðum hér. Það sem mér fannst kannski sérstaklega ánægjulegt að sjá var að verið væri að taka í auknum mæli inn hjólastíga, enda greinileg aukning á áhuga almennings á að nýta hjólreiðar, bæði sem samgöngumáta og til dægrastyttingar og þjálfunar og við sjáum það sérstaklega eftir Covid-faraldurinn að hjól eru raunar nánast uppseld í heiminum. Það skýrist líklega ekki eingöngu af því að líkamsræktarstöðvarnar voru lokaðar heldur held ég það hafi líka haft ýmislegt að segja að í faraldrinum og eftir hann var fólk kannski örlítið óöruggt eða stressað við að nota almenningssamgöngur þar sem er þétt setið. Hjólreiðar eru náttúrlega ágæt lausn á því.

En það sem mér fannst jákvætt í þessari samgönguáætlun, og það kemur einnig fram í nefndarálitinu, er að byggja eigi upp hjólastíga á milli byggðakjarna um landið. Það er gríðarlega mikilvægt, held ég, og er ágætt dæmi um það t.d. í Eyjafirði hvernig stígagerð hefur gjörbreytt hlutum, eins og nýr stígur sem liggur frá Akureyri og inn að Hrafnagili sem er mjög mikið notaður og virkilega skemmtilegt að fylgjast með hvernig þetta er í rauninni oft besta fjárfestingin, ekki endilega í samgöngum heldur í íþróttum eða því sem er kallað lýðheilsufjárfesting, af því að einhvern veginn virkar það þannig að þegar stígar eru lagðir, sérstaklega á svona fallegum slóðum, þá fer fólk að nota þá og ég get fullyrt að það sé alltaf einhver að nota stíginn milli Akureyrar og Hrafnagils þó að úti sé vindur og rigning.

Herra forseti. Mig langaði að reifa nokkur atriði sérstaklega og mig langar að byrja á vetrarþjónustu. Ég kom stuttlega inn á hana í andsvörum við hv. þm. Jón Þór Ólafsson áðan varðandi mikilvægi viðhalds í samgöngum. Við erum því miður allt of gjörn á að láta viðhaldið sitja á hakanum og við sjáum því miður mörg dæmi um það, t.d. fyrir vestan þar sem eru vegir sem eru varla færir lengur eins og hluti af Bíldudalsvegi þar sem er hola við holu og nánast kominn bara holuvegur, þetta er orðið það slæmt þar, og eru náttúrlega mörg fleiri dæmi um það. Það veldur því að öryggi veganna er ekki ásættanlegt. En sem betur fer er verið að taka skref í átt að því að laga þá vegi núna og er löngu tímabært. En mig langaði sem fyrr segir að nefna það sem er ekki síður mikilvægt, vetrarþjónustuna. Hún er eitthvað sem gagnast ekki síst þeim sem búa á Íslandi, en líka ferðamönnum.

Herra forseti. Við erum að leggja fjármagn, sem er vel, í að byggja upp vegi eins og t.d. Dettifossveg. Sá vegur er mjög gott dæmi um þetta. Við sjáum loks fram á að vera komin með heilsársveg að Dettifossi sem er magnaður áfangastaður, bæði fyrir okkur sem búum á Íslandi og þá gesti sem heimsækja landið, einn af vatnsmestu fossunum sem við eigum og vatnsmesti foss í Evrópu a.m.k. En til hvers er verið að gera heilsársveg ef ekki á að halda honum opnum yfir vetrartímann? Það er nauðsynlegt eftir því sem við byggjum upp vegina okkar og auðvitað sem betur fer gerist það að við erum að byggja upp mjög myndarlegt vegakerfi. En til hvers er verið að gera það ef við ætlum svo ekki einu sinni að halda veginum opnum? Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt og er sammála þeim punkti sem hv. þm. Guðjón Brjánsson bendir á í sínu nefndaráliti, að því miður virðist vetrarþjónusta á vegum ekki vera eitt af forgangsverkefnum við íbúa dreifðari byggða.

Sömuleiðis má nefna, af því að nú vita það held ég flestir og kom skýrt fram í fréttum ítrekað í vetur, að vegir voru að lokast. Til að mynda lentum við maðurinn minn í langri bílaröð þegar Öxnadalsheiði var loksins opnuð rétt fyrir jól. Það var lengsta bílaröð sem ég hef séð. Við vorum alveg rúman klukkutíma, eða meira, einn og hálfan tíma, yfir heiðina sem tekur vanalega um 20 mínútur. Við vorum þá í margra tuga kílómetra röð á eftir moksturstækjum. Ég held að það sé mikilvægt að skoða að auka þennan fylgdarakstur og ég held að það séu mikil tækifæri í því. Auðvitað kostar það en ég held að það væri ódýrara samt þegar upp er staðið að vera með slíkan fylgdarakstur en að lenda í því að fólk festi sig uppi á heiðum og þurfa að senda björgunarsveitir eða Vegagerðina upp eftir að sækja fólk. Sömuleiðis held ég að það væri þá líka mikilvægt öryggi að geta treyst því að þegar lægir sé hægt að sæta lagi og komast yfir.

Herra forseti. Ég ætla að skilja hér við vegina og færa mig yfir í flugstefnuna. Ég fagna því að nú sé í fyrsta skipti lögð fram flugstefna fyrir Ísland. Þar er auðvitað jákvætt að sjá ákveðin skref í uppbyggingu, sérstaklega á flugvellinum á Egilsstöðum sem verður skilgreindur sérstaklega sem varaflugvöllur Keflavíkurflugvallar. Mikil tækifæri felast í því að efla varaflugvellina, sem eru Egilsstaðaflugvöllur og ekki síður Akureyrarflugvöllur, og þá líka í að byggja upp og nýta þann tíma sem við höfum nú í lægðinni í ferðaþjónustunni til að endurskipuleggja hana, má segja, og opna á fleiri gáttir inn í landið. Við sáum það og eigum margar skýrslur um að það var ekki sjálfbært að hrúga öllum ferðamönnunum í gegnum eina gátt inn í landið. Við sáum líka það sem er svo áhugavert og merkilegt, herra forseti, í þeim tækifærum sem hafa þó skapast á Akureyri, til að mynda þar sem hefur verið leiguflug bæði frá Englandi og Hollandi, að þarna koma ferðamenn sem hefðu annars ekki komið til landsins. Við erum sem sagt að stækka kökuna í stað þess að taka frá öðrum. Það er algjört lykilatriði og ég held að það séu mikil tækifæri fyrir okkur í að halda þeirri vinnu áfram og ég held að það sé mjög mikilvægt að nálgast verkefnið með opnum hug og taka þátt í þeirri vinnu.

Það gleymist stundum í umræðunni að flug á Íslandi er í rauninni almenningssamgöngur. Þetta eru almenningssamgöngur fyrir íbúa Íslands til að komast á milli landshluta og flugið er gríðarlega mikilvægt sem slíkt. Ég ræddi það hér fyrr í vikunni þar sem við komum inn á rafvæðingu flugsins. Við fórum að ræða gamla póstflugið þegar ég ræddi við hv. þm. Smára McCarthy um tækifærin sem felast í því að með rafflugvélunum verði mögulega orðið ódýrara að fljúga milli staða og því mögulega tækifæri til að opna aftur gamla lendingarstaði og fjölga leiðum. (Gripið fram í.) Já, akkúrat. Það sem mér finnst þó líka spennandi í því er að við förum að hugsa leiðakerfið aftur upp á nýtt af því að eins og það er í dag er allt flug í gegnum Reykjavík sem er gott og blessað og við þurfum öll að komast til Reykjavíkur og við viljum fá íbúa höfuðborgarsvæðisins út á landsbyggðina líka en það sem mér þætti svo gott, og var fyrir ekki svo mörgum árum, er t.d. flug á milli Akureyrar og Ísafjarðar og Akureyrar og Egilsstaða o.s.frv. Við þurfum að mínu mati að skoða möguleikann á að taka upp aftur það flug, mögulega bara í smærri vélum eins og var á þeim tíma. Ég ætti kannski að upplýsa um persónulega hagsmuni mína í því máli þar sem ég er búsett á Akureyri en á ættir að rekja og rætur á Ísafirði og það er stundum svolítið langt að fara. Enn þá er um sjö tíma akstur frá Akureyri til Ísafjarðar en þetta væri ekki nema rétt um hálftímalangt flug, ef svo langt.

Ég held að við þurfum líka að fara að hugsa almenningssamgöngur upp á nýtt. Við erum með flugvélar og rútur en svo erum við líka með ferjur. Nú er í gangi mjög áhugavert verkefni, Akureyrarbær ákvað að setja fjármuni í það að hafa frítt í Hríseyjarferjuna núna í júní. Vonandi verður framhald þar á af því það er alger sprenging í heimsóknum Íslendinga og annarra til eyjarinnar og hún hefur aldrei séð eins mikinn fjölda gesta og núna eftir að ferjan var gerð gjaldfrjáls sem bendir til þess að það litla gjald sem er í ferjuna standi greinilega í einhverjum. Meira að segja þurfti að bæta við ferð um síðustu helgi af því að fólk var svo spennt að koma í Hrísey. Við erum með fleiri ferjur og fleiri eyjar, við erum með Grímsey t.d. sem er einmitt dæmi um stað á Íslandi sem er mjög merkilegur, t.d. í Íslandssögunni, en er því miður ekki eins aðgengilegur og hann gæti verið. Ég held að það séu tækifæri til að skoða það upp á nýtt sömuleiðis, herra forseti.

Fyrst ég er farin að tala um ferjurnar þá ætla ég að færa mig yfir í hafnarmannvirkin og hafnamálin. Hafnirnar eru, eins og flestir vita, lífæðar samfélaga sem liggja að sjónum. Þar er gríðarmikil atvinnustarfsemi, þær eru lykilatriði í því að við getum sótt í gull sjávar, sótt fiskinn og komið með hann að landi. Þær þjónusta sömuleiðis að sjálfsögðu fiskeldið þar sem það er. Það hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með því á síðustu árum að þær hafa einnig gegnt lykilhlutverki við móttöku skemmtiferðaskipa á landinu, a.m.k. stærri hafnir víðs vegar um landið þó að við séum einnig farin að sjá skemmtiferðaskipin heimsækja smærri staði eins og einmitt Hrísey.

Mig langaði að minna á það, herra forseti, að fyrir þinginu liggur mál sem ég er fyrsti flutningsmaður að, um að gerð verði stefna um móttöku skemmtiferðaskipa. Ég held að núna þegar við erum með smá lægð í komum skemmtiferðaskipa vegna Covid sé einmitt tækifæri til að vinna slíka stefnu og átta okkur á hvernig við viljum byggja upp þann hluta ferðaþjónustunnar.

En af því að ég var að ræða ferðaþjónustuna þá langaði mig að taka aðeins upp svolítið nýstárlega ferðaþjónustu hér á Íslandi sem er ferðamannaleiðir. Þar er ég sérstaklega að vísa í þá 800 km löngu ferðamannaleið sem norðurstrandarleiðin er. Hún liggur allt frá Hvammstanga í vestri til Bakkafjarðar í austri, nær í gegnum 17 sveitarfélög, hvorki meira né minna, og 21 bæ eða þorp, og þetta er samstarfsverkefni á Norðurlandi þar sem öll þessi sveitarfélög hafa tekið sig saman og eru að byggja upp ferðamannaleið og merkja áhugaverða staði og gera allt svolítið aðgengilegra fyrir fólk. Ég keyrði vesturhluta leiðarinnar í fyrra í svartaþoku, líklega einni svörtustu þoku sem ég hef séð, a.m.k. lengi. En það var samt alveg ofboðslega áhugavert að fara hana og virkilega skemmtilegt að nýta svona leiðir til að ná ferðamönnum á slóðir sem maður færi ekki um alla jafna.

Herra forseti. Tími minn styttist og mig langaði að lokum að koma inn á orkuskipti í samgöngum. Það er að sjálfsögðu fjallað nokkuð um það í þingsályktuninni og sömuleiðis í nefndaráliti meiri hluta og ekki síst í nefndaráliti hv. þm. Guðjóns Brjánssonar þar sem er minnst á nokkuð sem ég sakna svolítið í nefndaráliti meiri hlutans, þ.e. rafvæðingu flugs og tækifærin í því. Við höfum rætt það svolítið, þingflokkur Samfylkingarinnar, og er ég fyrsti flutningsmaður tillögu þar um, að mótuð verði stefna um rafvæðingu flugs af því að ég held að þessi tækni sé miklu nær okkur en við gerum okkur grein fyrir. Við erum að tala um fimm til átta ár þar til Norðmenn og Svíar ætla að vera komnir með rafvætt innanlandsflug og við megum ekki sitja eftir í því. Sömuleiðis bárust spennandi fréttir af því að ég held í fyrradag að verið er að undirbúa í Keflavík að Ísland verði hleðslustaður fyrir rafflugvélar sem fljúga á milli Norður-Ameríku og Evrópu. Þarna eru að mínu mati gríðarleg tækifæri. Við megum ekki vera of vantrúuð á framtíðina og láta þau okkur úr greipum ganga.

Í því samhengi, til að enda á jákvæðum nótum, þá hljótum við að fagna því að búið sé að setja fjármagn í að undirbúa rafvæðingu hafna. Ég held reyndar að það þurfi mun meira til að gera betur í því en þar eru gríðarleg tækifæri líka og við sjáum það einmitt með þróun íslenskrar tækni, t.d. í Íslenska sjávarklasanum, með fyrirtæki sem er að vinna að skipi sem verður keyrt á rafmagni. Þetta er framtíðin, herra forseti. Og við eigum að horfa til framtíðar en ekki sitja eftir af því að við höfum hvorki trú né þor.