150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:27]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir síðara andsvarið. Já, það væri áhugavert að sjá þessa skýrslu.

Þingmaðurinn kom aðeins inn á skipulagsvald sveitarfélaga. Þá er ég aftur kominn með hugann út á land. Þegar verið er að gera og hanna fjallvegi sem oft og tíðum væri betra að færu í göng, þá er ekki tekið mark á mönnum sem kunnugir eru staðháttum og get ég nefnt nokkra fjallvegi hvað það varðar. Ég ætla ekki að gera það hér og nú, en ég veit um nokkra fjallvegi sem verða ófærir af því að vegurinn var ekki lagður þar sem þeir sem þekktu svæðið best mæltu með. Það var ekki hlustað á þá. Þeir voru taldir nöldrarar eða sérvitringar eða eitthvað slíkt. Þar af leiðandi verður allt viðhald miklu dýrara og meira vesen og meiri ófærð. Því þarf að vanda til verka og hlusta á öll sjónarmið í svona málum. En það þarf líka alveg að vera á hreinu að stjórnvöld gefi út þær línur og fái þá sem vinna að þessum málum til að gera það á sem bestan hátt. Það er allt of oft sem Vegagerðinni er kennt um þegar illa fer út af einhverri hönnun eða slíku. En það getur verið að það sé frekar okkur stjórnmálamönnunum að kenna og slælegum undirbúningi í þessari vinnu og gætum við bætt þar úr.