150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég lofaði hv. þingmanni að klára og ég var kominn þar að þar sem hafði verið níu ára framkvæmdastopp eftir mjög mörg mögur ár líka í framkvæmdum. Bifreiðaeigendur og þeir sem þurfa að fara leiðar sinnar á fjölskyldubílnum hafa verið stopp í bílaröðum flesta morgna og síðdegi ef þeir hafa ætlað að komast til vinnu eða bara komast leiðar sinnar. (Gripið fram í.) Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, hann sagði: Við þurfum áfram. En þetta fólk hefur ekkert komist áfram. Það hefur bara ekkert komist áfram, herra þingmaður. Það hefur ekki komist lönd né strönd. Þetta vita allir höfuðborgarbúar. Og hvað á að gera? (Gripið fram í.) Hvað á að gera?

Öll nágrannasveitarfélögin voru í herkví. Og þegar þessi brilljant hugmynd kemur upp og borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík býður nágrannasveitarfélögunum upp á það, og ríkinu sem stökk á vagninn, illu heilli, að fara loksins að gera einhver mislæg gatnamót og klára einhverjar stofnbrautir, hvert var lausnargjaldið? Borgarlína. Þau verða þá að borga í borgarlínu. En þau voru svo guðs lifandi fegin að sjá einhvern framgang í stofnbrautunum og mislægu gatnamótunum þar sem allir eru stopp í dag, að þau stukku á vagninn og ætla að borga lausnargjaldið. En hver borgar hæsta lausnargjaldið? Það er ríkissjóður.

Það er það sem ég er að deila á, að ríkissjóður sé að fara út í verkefni sem er svona illa ígrundað og kostnaðaráætlanir svona slappar. Þetta mun kosta töluvert meira og kostnaðurinn fer hækkandi, Þórarinn kemur að því, hann hækkaði um 10 milljarða bara nýlega. Hann segir það í sinni grein. Hvað eigum við eftir að sjá hann hækka mikið oftar? Til að losna úr herkvínni skrifuðu nágrannasveitarfélögin undir til að fá einhverju framgengt í sínu sveitarfélagi.