150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum þessi dægrin um samgönguáætlanir, hina skemmri til 5 ára og hina lengri til 15 ára. Þetta er umfangsmikil áætlun. Hún spannar samgöngur á landi, samgöngur á sjó og samgöngur í lofti. Ég ætla í þessari stuttu ræðu að fjalla örlítið um aðstæður í því kjördæmi sem ég tala fyrir hér á Alþingi. Það er Norðvesturkjördæmi sem er mjög víðfeðmt kjördæmi en að sama skapi ekki jafn þéttbýlt eða margbýlt. Þessi samgönguáætlun, eða þingsályktunartillaga um samgönguáætlun, er að mörgu leyti góð. Hún er metnaðarfull og menn gera sér ljóst að styrkja þarf innviðina eftir nokkra vanrækslu undanfarin ár og jafnvel áratugi. Menn vilja bregðast skjótt við og það er hægt í mörgum tilvikum en þetta eru kostnaðarsamir þættir sem þarf að huga vel að. Menn eru ekki endilega sammála um leiðirnar að settu marki, að bæta innviðina, byggja þá upp. Gjaldtaka hefur verið rædd og áformuð í tilteknum tilvikum. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar erum við að fjalla um þrjú þingmál þessa dagana þar sem tæpt er á fjármögnun innviða og þar skiptumst við nokkuð í tvö horn. Ljóst er að orkuskipti eru fram undan í samgöngum og jafn ljóst að við þurfum að endurskoða alla gjaldtöku í samgöngum með því að setja niður gjöld með dreifðum hætti. Á blettum hér og hvar um landið er verið að fikta í nokkuð gömlu kerfi sem við vitum ekki hvernig mun enda nema að það mun a.m.k. tímabundið þýða auknar álögur á þá sem nota þessi mannvirki.

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að fá að brydda á aðstæðum á Vestfjörðum. Eins og kunnugt er er það vilji stjórnvalda, a.m.k. yfirlýstur, að efla byggðir um land allt og til þess höfum við gert okkur byggðaáætlun. Það eru þrjú ár síðan við samþykktum síðustu byggðaáætlun og nú er komið að því að endurskoða hana að nýju. Endurskoðun er nýhafin og hefur verið kynnt og vonandi verður okkur ágengt þar. Byggðaþróun hefur víðast hvar á landsbyggðinni verið með neikvæðan blæ. Fólki hefur fækkað. Stjórnvöld hafa í einhverjum tilvikum reynt að beita sér með sértækum aðgerðum á síðustu áratugum með því að stuðla að uppbyggingu á ýmsum sviðum atvinnulífs. Síðasta viðspyrnan sem eitthvað munaði um var þegar skuttogaraöldin reis. Þá varð merkjanlegt viðnám á mörgum svæðum í atvinnulegu, byggðarlegu og búsetulegu tilliti en síðan seig aftur á ógæfuhliðina.

Ef við fjöllum aðeins um Vestfirði þá hefur sá landshluti um 30 ára skeið glímt við samdrátt í efnahagslífi og samhliða glímt við stöðuga fækkun íbúa. Þetta er heillandi landshluti en krefjandi. Íbúarnir hafa orðið fyrir áföllum vegna náttúruhamfara og það hefur sett strik í þennan heildarreikning. Fækkun íbúa eftir sveitarfélögum hefur verið á bilinu 25–45% og aldurssamsetningin hefur breyst verulega og þeir eru fleiri að jafnaði á þessum svæðum sem eru komnir svolítið við aldur, á miðjan aldur og þar yfir. En á Vestfjörðum hefur þó borið við á síðustu fimm árum að hægt hefur á þessari neikvæðu byggðaþróun og orðið viðsnúningur, má segja, á sunnanverðum Vestfjörðum, t.d. í Reykhólahreppi, og verulegur bati á norðanverðum Vestfjörðum. Þau rök sem menn færa fyrir þessu er fiskeldi og vissulega ferðaþjónusta, en sjávarútvegur og iðnaður koma þar á eftir. Á Ströndum sjáum við því miður áframhaldandi neikvæða þróun. Þar er samdráttur í sauðfjárbúskap sem hefur veruleg áhrif til hins verra og þess utan hafa Strandamenn orðið fyrir áföllum í sjávarútvegi. Þessu er hægt að snúa við og því munu Strandamenn snúa við, hef ég sannfæringu fyrir. Með nýsköpun í landbúnaði koma tækifæri en það þarf að fylgja þeim fast eftir. Við þurfum þá að meina það sem við höfum hér á orði, þ.e. við þurfum að huga að nýsköpun í landbúnaði eins og á svo mörgum öðrum sviðum.

Uppbygging fiskeldis og ferðaþjónustu eru megináhrifaþættirnir í jákvæðri þróun sem við sjáum á Vestfjörðum. Þar er landað miklum verðmætum. Framleiðsluverðmæti fyrir landið í heild er áætlað um 25 milljarðar um þessar mundir og meginþungi þeirrar framleiðslu hefur verið bundinn við Bíldudal og ekki annað að sjá en að hugur manna standi til þess að auka enn við þá starfsemi, skjóta fleiri stoðum undir þennan iðnað sem tengist svo sterklega sjónum, með því að fullvinna meira afurðirnar og það er þegar hafið. En Vestfirðingar sjá fram á að kannski verði ekki auðvelt að bæta í og auka framleiðslu, auka starfsemi á ýmsum sviðum, vegna þess að samgöngur eru flöskuháls. Samgöngurnar geta ekki mætt þeim kröfum sem atvinnulífið og samfélagið gera í dag og samgönguáætlun verður að taka mið af þeirri stöðu og það verður að setja aukið fé samgöngur á þessum svæðum. Þetta hefur verið þekkt og auðvitað verður að geta þess að stjórnvöld hafa verið að bæta í þann þátt. Það er verið að vinna að miklum verkefnum í Dýrafjarðargöngum eða Hrafnseyrargöngum, eftir því hvað menn vilja kalla þau, og á Barðaströnd liggur fé sem bíður eftir því að komast að verki í veginum sem oft er kenndur við Teigsskóg. Vonandi verður hægt að vinna því framgang svo að deilum um það verkefni linni þannig að við getum séð þarna greiðar leiðir að sumri sem vetri í þágu íbúanna, í þágu atvinnulífsins og í þágu ferðamanna sem sjá þarna undurfallegt landslag frá nýjum sjónarhóli. Ég treysti Vegagerðinni afar vel til þess að ganga þannig frá málum að sómi verði að um þennan fallega landshluta sem á sér engan líkan í landinu, vil ég leyfa mér að fullyrða.

Eins og ég nefndi í upphafi, herra forseti, er Norðvesturkjördæmi víðfeðmt og það er ólíkt að innri gerð. Það skiptist upp í iðnaðarsvæði, verslunar- og þjónustusvæði, sjávarútvegssvæði og svo landbúnaðarsvæði. Það er þess vegna erfitt að vera með einhverjar heildarlausnir fyrir svona svæði að öðru leyti en því að greiðar samgöngur styrkja byggðarlögin. Þar er af nógu að taka. Í Norðvesturkjördæmi er t.d. hæsta hlutfall malarvega í stofnvegakerfinu og tengivegakerfinu okkar á landsvísu. Þetta eru svæði sem eru fjölsótt af ferðamönnum allan ársins hring núorðið, þótt hlé sé akkúrat þessar stundirnar, vinsælt og fallegt svæði fyrir ferðamenn að sækja heim. Við höfum nefnt vegi sem oft hafa ratað í fjölmiðla, t.d. vegurinn um Vatnsnes sem er eitt af þeim svæðum sem er perlusvæði. Það er rétt að árétta það enn einu sinni að þar er brýnt að bæta úr. Þetta er blómlegt landbúnaðarsvæði. Það er búið á mörgum bæjum og börn eru á ferli í skólabílum og líður ekki vel að aka um holótta vegi á veturna, en þetta svæði er eitt lengsta skólaaksturssvæði á landinu.

Herra forseti. Það er auðvitað fleira en bara vegir, það eru hafnir. Stór hluti af þessum svæðum hefur búið að því að sækja verðmæti úr sjónum og við sem sjávarsóknarþjóð eigum að hafa þá innviði í góðu lagi. Það er engin hafnarstefna til fyrir Ísland. Hana þurfum við að eiga. Aðstæður eru að breytast. Skemmtiferðaskipum fjölgar og gera þarf breytingar á höfnunum í samræmi við það. Stóriðja í fiskeldi á sunnanverðum Vestfjörðum kallar líka á bættar hafnir. Á það skortir nokkuð í þessari samgönguáætlun að þeirri þörf verði mætt og talað um að árlega vanti u.þ.b. 2,2 milljarða inn í samgönguáætlun þannig að hægt verði að vinda bráðan bug að þessu. Að því ótöldu að það þarf að rafvæða hafnirnar og gera þær umhverfisvænar fyrir hin stóru skip sem brenna jafnvel hundruðum þúsunda tonna í íslenskum höfnum á ári hverju.

Síðan eru það flugvellirnir. Við í Norðvesturkjördæmi eigum engan burðugan, má segja, flugvöll. Flugvöllurinn á Ísafirði er ekki frambúðarflugvöllur og er í erlendum tímaritum talinn vera áhættuflugvöllur og ævintýraflugvöllur, flugvöllur fyrir ævintýramenn. Við þurfum að finna nýjum flugvelli stað og það verður ævintýri fyrir Vestfirðinga að upplifa það að þeir geti kannski eignast einn flugvöll sem nægt gæti Vestfirðingum öllum. Alexandersflugvöllur á Sauðárkróki er afbragðsflugvallarstæði sem þarf að virkja til kennslu og æfinga og ég nefni líka flugvöllinn á Þingeyri sem er einnig mikilvægur samgönguhlekkur fyrir Vestfirðinga.

Virðulegur forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum og lýk því máli mínu.