150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:59]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Fjárfestingarþörfin í vegakerfi landsins er talin vera um 400 milljarðar sem segir okkur það að vegakerfið á landinu er langt á eftir ákalli nútímaþarfa í samgöngumálum. Það hefur verið áhyggjuefni til margra ára hvað okkur hefur gengið illa að höggva í þann stabba sem fjárfestingarþörfin er. Auðvitað er það skýrt í mínum huga að þær aðstæður sem við búum við hér á okkar fallega og strjálbýla landi eru þannig að kostnaðurinn við að koma þessum málum í lag er mikill miðað við íbúafjölda landsins.

Á síðustu árum hefur fjöldi ferðamanna vaxið gríðarlega sem þýðir meira álag á þjóðvegum landsins en árið 2018 komu 2,3 milljónir ferðamanna hingað til lands. Þungaflutningar hafa aukist mikið, fiskur er t.d. keyrður fram og til baka vegna breyttra aðstæðna í fiskvinnslu og ferskfiskútflutningi. Strandsiglingar á vegum ríkisins voru aflagðar fyrir nokkrum árum sem jók þungaflutninga mikið á vegum landsins og svo mætti áfram telja. Besta fjárfesting í innviðauppbyggingu eru góðar samgöngur. Mikið af ungu fólki sem er að stofna fjölskyldu eða einstaklingar, sem eru að leita sér að vinnu og vilja flytja út á land, horfa til þess hvernig samgöngur eru á staðnum þar sem vinna býðst. Uppbygging á landsbyggðinni gengur betur ef samgöngum er gert hærra undir höfði.

Ég vil byrja á að fagna því að svo virðist sem verkefnum sem voru mjög aftarlega í samgönguáætluninni hafi í meðförum hv. samgöngunefndar verið mjakað aðeins framar og því ber að fagna. Það er greinilegt að nefndin hefur staðið mjög vel saman að því að lagfæra það sem hægt var að lagfæra í samgönguáætlun sem lögð var fram hér rétt fyrir jólin, eins og hefur komið fram í ræðum um þetta mál hér að framan.

En mig langar að nefna hér aðeins úr mínu Norðvesturkjördæmi að Skógarstrandarvegur og Vatnsnesvegur, sem voru úti í fjarskanum eins og áætlunin var lögð fram, svo að eitthvað sé nefnt, eru komnir aðeins framar í tíma. Eins eru vegir um Kaldadal og Uxahryggi, Snæfellsnesvegur og Þverárfjallsvegur komnir framar svo að eitthvað sé nefnt.

Aðeins hefur verið bætt við hafnarframkvæmdir í meðförum nefndarinnar. Hafnir á flestum stöðum á landinu hafa beðið eftir úrbótum, þó mismikið eftir stöðum. Af því að ég nefndi uppbyggingu á landsbyggðinni hér áðan þá skiptir miklu máli að hafnaraðstæður séu í samræmi við þörfina á hverjum stað. Afkoma byggðarlaga víðast hvar byggist á því að hafnarmannvirki þjóni tilgangi sínum.

Í nefndaráliti 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar segir, með leyfi forseta:

„Annar minni hluti tekur undir þær áherslur og sjónarmið sem koma fram í áliti meiri hlutans um að verulega þurfi að herða á framkvæmdum á öllum sviðum samgangna og að leitast verði við að koma til móts við brýna viðhalds- og nýframkvæmdaþörf í samgöngukerfinu. Annar minni hluti leggur áherslu á að verkefnum í samgöngum verði forgangsraðað með tilliti til hagkvæmni þeirra, jafnræðis milli landshluta, byggðasjónarmiða og sjónarmiða um öryggi.“

Í sambandi við fjármögnun á vegaframkvæmdum tek ég undir þá leið að fara í það sem kallað hefur verið skuldsett fjármögnun, þ.e. að ríkið taki lán til að liðka og flýta fyrir framkvæmdum og hafa 150 milljarðar verið nefndir í því sambandi. Núna eru vextir í sögulegu lágmarki og því hagstætt að taka lán.

Hæstv. forseti. Ég sé að tíma mínum er að verða lokið og óska ég eftir að vera settur á mælendaskrá á ný.