150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:36]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég hef áhuga á að fara í örlitla sögulega upprifjun og minnast á árið 1997. Það ár sameinaðist Kjalarnes Reykjavík. Sumir höfðu orð á því að þar hefði Reykjavík gert samning aldarinnar. Af hverju voru Kjalnesingar að sameinast yfir höfuð? Það hefði legið beint við að þeir sameinuðust Mosfellsbæ. Þeim var sennilega rétt gulrót. Gulrótin var Sundabraut sem hefði tengt Kjalarnes við Reykjavík stystu leið. Þeir hefðu því haft greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem höfuðborgin býr yfir og ber að veita öllum landsmönnum. Sundabraut hefur ótal aðra kosti. Hún styttir leiðina frá bæjum eins og Akranesi og Borgarnesi til Reykjavíkur. Hún hefur með öryggi að gera og við þekkjum það nefnilega í þessu landi að ýmislegt getur gerst og ein flóttaleið er ekki einungis óskynsamleg heldur er hún glapræði. Einn kosturinn við Sundabraut er að með henni myndast tenging við Geldinganes en Geldinganes er rúmir 390 hektarar, tvisvar sinnum stærri en Keldnaland, sem mikið er í umræðunni núna í tengslum við félag sem illu heilli stendur til að stofna um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Virði Keldnalands í dag gæti verið nálægt 15 milljörðum. Virði þess er þó hægt að auka margfalt með öðrum hætti. Það er gert með því að draga úr framboði á lóðum, sem þarf að vísu ekki gera því að í dag er framboðið lítið. Í dag má áætla að lóðaverð, gatnagerðargjöld og önnur gjöld af 100 m² íbúð á höfuðborgarsvæðinu sé á bilinu 8–10 milljónir. Þetta þýðir að íbúðaverð er 20–25% hærra en það þyrfti að vera ef nægt framboð væri af lóðum. Hver borgar? Auðvitað fasteignaeigendur og leigjendur. Allir vita að leiguverð fylgir fasteignaverði. Það er alltaf almenningur sem borgar brúsann.

Auk þess að almenningur borgi orkuverð fyrir húsnæði mun almenningur þurfa að borga fyrir uppbyggingu borgarlínu og rekstur hennar í framtíðinni. Þá er það spurningin: Verður fyrirbærið notað? Ýmsar kannanir hafa verið gerðar á ferðavenjum og ein þeirra, þar sem ferðir strætó voru mældar, sýnir að árið 2002 voru 9% þeirra sem fóru með strætó á leið í skóla. Árið 2019 var þetta hlutfall 7%. Á þessu geta verið ýmsar skýringar. Ein þeirra gæti verið aukið fjarnám.

Mér er til efs að þeir sjúklingar sem þurfi að leita á Landspítalann muni fara í borgarlínu. Hver er rökstuðningurinn fyrir hugarórum borgarstjóra Reykjavíkur? Hann nefnir í skýrslu dæmi um borgir af svipaðri stærð og Reykjavík og tiltekur m.a. Óðinsvé, Árósa, Álaborg, Le Mans og Angers. Allar þessar borgir hafa kerfi léttlesta. Þessi kerfi eru á bilinu 12–14,5 km. Borgarlína Dags á að vera 57 km. Hvað hún kostar á endanum veit enginn, ekki einu sinni Dagur B. Eggertsson. Borgarlína í Helsinki er stundum nefnd, þó sjaldan, það kerfi nútímalegra sporvagna er talsvert notað. Þar sem hún er notuð mest miðsvæðis í borginni er ekki þrengt að umferð og hún á sinn sem tilverurétt þar sem bílaumferð fer um óhindruð og fólk hefur val. Miðsvæðis þar sem mest er af byggingum er mikið pláss, sennilega 30 m breitt, undir kerfið og nægt pláss fyrir bílaumferð. Þegar nær dregur miðsvæðinu inni í hverfum samnýtir kerfið umferðargötur, en hér á að byrja á öfugum enda.

Hæstv. forseti. Ég sé að ræðutími minn er búinn en ég er ekki búinn með ræðuna þannig ég óska eftir að vera settur á mælendaskrá.