153. löggjafarþing — 120. fundur,  7. júní 2023.

Almennar stjórnmálaumræður.

[20:59]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti og góðir áheyrendur. Á þessum degi fyrir 23 árum, á aldamótaárinu 2000, öskurgrenjaði ég uppi á Landspítala og rembdist til að koma í heiminn framburðinum mínum. Þrátt fyrir að geta ekki ímyndað mér það þá á þeirri stundu gerði ég það aftur og í dag er ég lánsöm þriggja barna móðir. En af hverju er ég að segja ykkur þetta, segja frá gullunum í lífinu mínu? Vegna þess að börnin mín eru líka gullin ykkar, okkar allra. Börnin í þessu landi, unga fólkið, það er framtíðin okkar. Þeirra er auðvitað framtíðin en við þurfum líka á þeim að halda fyrir okkar framtíð.

Við munum vonandi flest verða svo lánsöm að lifa lengur en forfeður okkar og við þurfum á unga fólkinu að halda til að skapa verðmæti til að halda hjólum atvinnulífsins gangandi, greiða skatta í ríkissjóð og greiða í lífeyrissjóðina okkar. Í gríni er auðvitað hægt að segja að sú sem hér talar sé sannur kapítalisti sem setji verðmiða á börn. En tökum þetta aðeins lengra. Árið 2000, þegar ég fæddi dóttur mína, var frjósemin, þ.e. börn sem hver kona fæðir, 2. Árið 1976, þegar sú sem hér stendur fæddist, var þessi tala um 2,5 börn á konu. En höfum í huga að fæðingartíðni þarf að vera 2,1 barn á konu til að viðhalda mannfjöldanum. En hver er staðan í dag? Í fyrra var fæðingartíðni komin niður í 1,6 barn á hverja konu. Þetta er sögulegt lágmark og aldrei hefur fæðingum fækkað svo mikið á milli ára. Trendið er skýrt niður á við: Konur eignast færri og færri börn og frjósemi hefur ekki farið yfir tvö börn á konu í um tíu ár. Þetta eru svakalegar breytingar og til þess fallnar að draga þrótt úr íslensku samfélagi. Ég ætla ekki að segja að þetta sé ríkisstjórninni að kenna eða þinginu, en kannski þurfum við þjóðarátak í barnsfæðingum. Einstaka þingmenn hafa reyndar tekið þetta til sín en við þurfum enn meira til.

En góðu fréttirnar eru þær að þrátt fyrir færri barneignir heldur okkur áfram að fjölga, sem betur fer því að annars gætum við ekki byggt upp þá velsæld sem við svo sannarlega búum við hér á landi. Frá aldamótum hefur okkur fjölgað um ríflega 100.000 manns, eða 39%, í samanburði við 2,1% fjölgun í Evrópu. Og í fyrra, þegar við vorum í þessu sögulegu lágmarki varðandi frjósemina, var mannfjölgun hér mest frá upphafi mælinga. Það eru nefnilega svo margir sem vilja búa á Íslandi. Það er ekki furða, hér er gott að búa og lífsgæði með því allra besta í heiminum, þó að í þessum sal hljómi gjarnan kór sem málar raunveruleikann allt öðrum litum, dökkum og svörtum litum, sem er í engum takti við raunveruleikann. Þessi fjölgun skýrist auðvitað af útlendingum sem hingað leita, fólki sem sækist eftir því að búa í okkar góða samfélagi.

Málefni útlendinga hafa verið fyrirferðarmikil umræðuefni hér í þingsal en því miður aðeins afmörkuð hlið þess. Loksins — loksins tókst okkur á þessu þingi að klára frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum. Þær breytingar voru skynsamlegar og góðar. Þær eru straumlínulaga og betrumbæta löggjöf okkar í kringum þá sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd. Aldrei hafa fleiri verið á flótta og faraldsfæti í heiminum en einmitt í dag. Flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna er mikilvægur, fallegur og góður samningur og Ísland stendur að sjálfsögðu við sínar skuldbindingar og gerir það vel.

Alla umræðu um umsækjendur um alþjóðlega vernd þarf að taka af mannúð en líka af raunsæi. Sú umræða sem við tókum hér á löngum næturfundum í vetur bar þess ekki endilega merki. En nú erum við komin lengra og afgreiðum, að því er virðist, í mikilli sátt frumvarp sem rýmkar möguleika fólks utan EES til að koma hér, setjast að, dvelja og starfa. Fólki finnst nefnilega gott að búa á Íslandi. Alls staðar sem borið er niður í alþjóðlegum samanburði vegnar okkur vel. Við erum í fjórða sæti þegar kemur að ráðstöfunartekjum, fyrsta sæti þegar kemur að tekjum, atvinnuöryggi og atvinnuleysi, í fyrsta sæti hvað varðar samfélag og tilfærslukerfi, fjórða sæti þegar kemur að umhverfismálum, sjöunda sæti þegar kemur að heilsu, öðru sæti þegar kemur að lífsánægju og svo mætti lengi telja. Okkur vegnar reyndar ekki alveg jafn vel þegar kemur að menntuninni og það er áhyggjuefni. Gríðarlega mikilvægt er að við bregðumst við og tryggjum að börnin okkar fái framúrskarandi menntun.

Í stóra samhengi hlutanna er Ísland í góðum málum en við glímum við áskoranir og það er verðbólgan. Hún er okkar stærsta verkefni núna. Þessi ríkisstjórn og við Sjálfstæðismenn tökum það verkefni alvarlega. Við þurfum að hagræða og við þurfum að draga úr umsvifum ríkisins, en við þurfum líka að standa vörð um þá sem höllustum fæti standa. Svarið er ekki upptaka evru eða hækkun skatta. En núna þegar við göngum út í sumarið, fögnum börnunum okkar sem útskrifuðust úr skólunum sínum skulum við muna eftir börnunum í Úkraínu, börnunum sem hafa stundað nám í neðanjarðarbyrgjum, börnunum sem dansa útskriftardansinn sinn á skólalóð með niðursprengdan skóla í bakgrunni. Þau eru framtíð frjálsrar og friðsamlegrar Úkraínu og með þeim eigum við ávallt að standa. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)