154. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2024.

forvarnir og lýðheilsa þegar horft er til aukins aðgengis að áfengi.

[14:45]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir mjög góða og mikilvæga umræðu hér í dag. Það er augljóst að auðvitað langstærstur hluti þingmanna hefur tekið undir með mér. Ég held líka að aðrir þingmenn sem hafa hér reynt af veikum mætti að verja stöðuna og þetta aukna aðgengi að áfengi hafi vondan málstað að verja og það kom nú svolítið fram.

Það sem ég tek út úr umræðunni er auðvitað þetta: Við getum ekki ætlað hér í ræðu og riti dag eftir dag að þykjast standa með veiku fólki í þessu samfélagi. Hér er gríðarlegur vandi, áfengis- og vímuefnavandi. Ég hef nú átt hér orðastað oft við hæstv. ráðherra um stöðu þessa hópa. Ég er sjálf með þingsályktunartillögu fyrir þinginu ásamt öðrum um eftirlitsskyldu með áfangaheimilum. Staðan er auðvitað þessi: Við þurfum að gera miklu betur hvað varðar stuðning, eftirlit og að hér sé fagleg þjónusta fyrir fólk með áfengis- og vímuefnavanda. Það er auðvitað fullkomin sturlun að við stöndum hér og séum enn og aftur á þeim stað að ræða um áfengissölu í búðum. Ef einstaklingar þurfa hvítvín með humrinum eftir að búið er að loka þá verður bara svo að vera. Ef þú getur ekki sýnt þá fyrirhyggju í áfengiskaupum eins og í öllu öðru þá er það bara óheppilegt. Það má aldrei verða á kostnað lýðheilsu þjóðarinnar, eldra fólks, barna og bara okkar Íslendinga að einhver þurfi stórkostlega að nálgast brennivín utan opnunartíma.