131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Ferðamál.

678. mál
[15:57]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um ferðamál. Nú liggur fyrir nefndarálit frá samgöngunefnd um þetta mál. Í sjálfu sér er athyglisvert að nefndin skuli svo einhuga í afstöðu sinni sem raun ber vitni. Auðvitað er, eins og fram hefur komið í máli þeirra þingmanna sem hér hafa talað, um mikilvægt mál að ræða. Hér er um atvinnugrein að ræða sem er okkar önnur stærsta atvinnugrein og auðvitað skiptir verulegu máli að vel takist til með ákvarðanir um framkvæmd ferðamála á Íslandi.

Til þess að stytta mál mitt ætla ég bara að lýsa yfir stuðningi mínum eða samsinna því sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði í sínu langa máli áðan. Það er auðvitað alvarlegt að þessi þingsályktunartillaga skuli hér fara í gegn án þess að nokkuð sé vitað hvenær möguleg framkvæmdaáætlun, tímaáætlun eða kostnaðaráætlun við framkvæmd hennar, kemur til með að liggja fyrir. Þó nefndin segi í sínu áliti að hún telji rökrétt að þessari tillögu verði fylgt eftir með framkvæmdaáætlun, þar sem m.a. komi fram tímaáætlun og kostnaður við einstaka liði, þá hlýtur Alþingi Íslendinga að verða að fá að hafa einhverja tryggingu fyrir því frá hæstv. samgönguráðherra að svona framkvæmdaáætlun komi til með að líta dagsins ljós og það fyrr en seinna því ekki þarf að segja reyndum þingmönnum sem í þessum sal sitja að hugmynd af þessu tagi og ályktun af þessu tagi er fullkomlega marklaus nema til komi framkvæmdaáætlun með tímasettum markmiðum og kostnaðaráætlun sem tryggi það að hægt sé að hrinda í framkvæmd þeim metnaðarfullu markmiðum sem áætlunin eða þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir.

Ég lýsi yfir sérstakri ánægju minni með það að í fyrsta tölulið ályktunarinnar skuli náttúra Íslands fá þann sess sem hún fær. Auðvitað er vitað að meiri hluti ferðamanna sem sækir okkur heim á hverju ári kemur hingað vegna náttúru Íslands, hinnar sérstæðu náttúru sem er einstök á heimsmælikvarða og verulegu máli skiptir að hún hljóti þann sess og sé viðurkennd eins og gert er í þessari þingsályktunartillögu með því að náttúra Íslands er tiltekin fyrst atriða í fyrsta tölulið. Ég fagna því sérstaklega.

Það sem mér finnst hins vegar gagnrýnisvert við tillöguna sjálfa og reyndar nefndarálit samgöngunefndar er að menn skuli koma sér hjá því jafnrækilega og raun ber vitni að nefna einn grundvallarþátt í þróun ferðamála og í atvinnuveginum sjálfum, þ.e. sjálfbæra þróun. Ég held ég fari rétt með, virðulegi forseti, þegar ég segi að í tillögunni til þingsályktunar og í nefndarálitinu komi hugtakið sjálfbær þróun ekki fyrir einu sinni. Það finnst mér sýnu alvarlegra þegar fylgiskjalið sem þingmenn hafa fengið á sín borð með þessari þingsályktunartillögu er skoðað — það fylgiskjal er að finna í þessari skýrslu um meginmarkmið í ferðamálum 2006–2015 — því víða í því fylgiskjali er talað um sjálfbæra þróun og mikilvægi sjálfbærrar þróunar í þessari stefnumótun. Það er beinlínis gengið svo langt að tala um að það sé að verða bylting í sjálfbærri þróun sem þurfi að taka til skoðunar og taka afstöðu til þegar þróun þessarar atvinnugreinar er skoðuð.

Ef ég fæ að vitna aðeins til þessa fylgiskjals, virðulegi forseti, þá er hér verið að fjalla um aðalfund Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar árið 2001. Í tengslum við þann fund var haldin ráðstefna þar sem tekið var á þremur meginmálefnum ferðamála, þ.e. breytingum á alþjóðlegum ferðamálamarkaði, áhrifum ferðaþjónustu á vernd náttúrulegrar og menningarlegrar arfleifðar og loks áhrifum upplýsingabyltingarinnar. Á þessari ráðstefnu komust menn að þeirri niðurstöðu að þróun nokkurra tiltekinna þátta væri áberandi á heimsvísu og þar er í þriðja sæti byltingin í sjálfbærri þróun.

Niðurstöður þessarar ráðstefnu voru þær að sá drifkraftur aukinnar eftirspurnar sem er til staðar í ferðaþjónustunni og í ferðamannastraumnum öllum sé vaxandi ráðstöfunartekjur heimila, lengri starfsævi, lægra verð og meiri framleiðni, auk áhrifa tæknilegra, stjórnmálalegra og félagslegra þátta. Ekki síst er það talið áhugavert að fyrirséð er að vöxtur í ferðum til annarra landa verði hvað mestur frá nýjum löndum, svo sem Kína og Indlandi. Það þarf ekki að segja mönnum hvað það þýðir þegar svo fjölmennar þjóðir eru farnar að ferðast í auknum mæli.

Niðurstaða þessarar ráðstefnu er gerð að umfjöllunarefni í því fylgiskjali sem við hér höfum. Mig langar til að vitna orðrétt í fylgiskjalið, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir:

„Á ráðstefnunni var komist að þeirri niðurstöðu að eitt mikilvægasta viðfangsefni sem greinin stæði frammi fyrir væri að tryggja sjálfbæra þróun ferðaþjónustu. Markmiðið væri að finna jafnvægi milli efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra stefnumiða þannig að allir hagsmunaaðilar nytu þeirra hagsbóta sem ferðaþjónustan hefði í för með sér.“

Hæstv. forseti. Ég vil nú segja að Alþjóðaviðskiptastofnunin leggur að mínu mati eðlilegri skilning eða réttari skilning í hugtakið sjálfbær þróun en íslensk stjórnvöld gera. Í mínum huga hafa íslensk stjórnvöld þrjóskast við um árabil að viðurkenna hvað við erum að tala þegar sjálfbær þróun er annars vegar. Niðurstaða þessarar ráðstefnu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar leiðir í ljós að menn átta sig á því að í henni er fólgið jafnvægi á milli efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra stefnumiða á sama tíma og íslensk stjórnvöld gefa út skilgreiningu á sjálfbærri þróun í sínum bæklingi eða bók Velferð til framtíðar sem gefin var út af umhverfisráðuneytinu árið 2002 í tilefni af ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg, en í þeirri bók gefur að líta eftirfarandi skilgreiningu ríkisstjórnar Íslands á sjálfbærri þróun, með leyfi forseta:

„Sjálfbær þróun hefur þrjár meginstoðir: efnahagsvöxt, félagslega velferð og jöfnuð og vernd umhverfisins. Skoða verður þessa þrjá þætti í samhengi og leitast við að hámarka efnahagslega og félagslega velferð án þess að skaða umhverfið.“

Hæstv. forseti. Á þessum tveimur skilgreiningum sést að íslensk stjórnvöld eru á villigötum í skilgreiningum sínum á sjálfbærri þróun og þau verða að fara að átta sig á því að sjálfbær þróun fjallar um jafnvægi á milli þessara þriggja þátta. Hún fjallar ekki um efnahagslegan vöxt. Hún fjallar bara um það að það eigi að ríkja jafnvægi á milli efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra stefnumiða. Það er það meginsjónarmið í hugmyndafræðinni um sjálfbæra þróun sem íslensk stjórnvöld virðast vera að fara á mis við þótt allir vegvísarnir sem þau þykjast vera að reyna keyra eftir beini þeim í þá átt sem ég hér hef sýnt fram á að Alþjóðaviðskiptastofnunin fer við að skilgreina þessa hluti. Það gera auðvitað allar stofnanir Sameinuðu þjóðanna líka á svipuðum nótum og hér kemur fram í greinargerðinni eða fylgiskjalinu með skýrslunni.

Ég ætla að fá að vitna aftur, hæstv. forseti, í greinargerðina eða fylgiskjalið sem fylgir meginmarkmiðum í ferðamálum 2006–2015 og er útgefið af samgönguráðuneytinu. Enn er fjallað um þessa ráðstefnu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðstefna WTO“ — eða Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar — „kallaði eftir heildstæðari og jafnari ... aðkomu að þróun ferðaþjónustunnar og alþjóðlegs átaks í átt til sjálfbærrar þróunar.“

Því er alveg ljóst, virðulegi forseti, að þeir sem móta stefnu í löndunum í kringum okkur og í veröldinni sem heild eru með ákall um alþjóðlegt átak í átt til sjálfbærrar þróunar. Íslensk stjórnvöld verða auðvitað að taka þessu ákalli. Í þessu ákalli felst að efnahagsleg stefnumið stjórnvalda eigi að bera í sér m.a. að skapa störf fyrir landsmenn, sem er samhljóma við þær hugmyndir sem koma fram í þingsályktunartillögunni, og skipta þar með arðinum sem ferðaþjónustan gefi af sér. Stefnumiðin þurfa líka að ná yfir félagsleg málefni. Þau þurfa að snúa að þátttöku samfélagsins í ferðaþjónustu og vernd menningararfleifðarinnar og umhverfislegu málefnin verða að snúa t.d. að gróðuráhrifum og verndun fjölbreytni lífríkisins.

Þessi ráðstefna lýsti einnig eftir ráðgjöf til stjórnenda í heimabyggðum við að auka hlut þeirra í þeim hag sem skapast af ferðaþjónustu. Það er í raun líka sambærilegt við sjónarmið okkar hér og þau koma fram í tillögunni og í nefndarálitinu þannig að hér erum við svo sem á pari við ráðstefnu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. En það er líka lagt mikið upp úr því að samtvinna þurfi lifandi menningararfleifð og óáþreifanleg menningaráhrif í ferðaþjónustutilboð. Þá var lýst áhyggjum vegna erfiðleika við að fá hagsmunaaðila til að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi um leið og þeir komi sér saman um að gera náttúruverndaráform að viðskiptatækifærum.

Þetta er auðvitað mjög mikilvægt, herra forseti, þ.e. að lýst skuli yfir á þessari öflugu ráðstefnu áhyggjum vegna þeirra erfiðleika sem við er að etja þar sem hagsmunaaðilar virðast þverskallast við að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Það er akkúrat það sem ég gagnrýni íslensk stjórnvöld fyrir. Með því að nefna ekki sjálfbæra þróun í sinni þingsályktunartillögu eru þau á ákveðinn máta að þverskallast við, loka augum sínum fyrir því að það sé hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar sem þetta allt saman snúist um. Ég hvet því íslensk stjórnvöld og samgöngunefnd sjálfa til að opna augu sín fyrir því hvaða grundvallarlögmál séu hér að baki og átta sig þá um leið á því að þar með, ef við viðurkennum þau, þá erum við í fullkomnum samhljómi við það sem er að gerast á áhrifamestu stöðum í þessu tilliti á jarðarkringlunni.

Minn stjórnmálaflokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, hefur sett fram margvísleg sjónarmið mjög ítarlega um það hvernig við sjáum ferðaþjónustuna þurfa að þróast. Það er einmitt í þeim anda sem ég hef lýst þar sem við göngum út frá hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Þessi sjónarmið okkar koma t.d. fram í tillögu til þingsályktunar um sjálfbæra atvinnustefnu sem menn geta kynnt sér á þingskjali 33 frá 128. löggjafarþingi, en þar gerum við ráð fyrir því að útbúin verði rammaáætlun um sjálfbæra atvinnuþróun á Íslandi með hliðsjón af Dagskrá 21 og Staðardagskrá 21 og vinna að framgangi hennar, m.a. með því að styrkja byggðir landsins með fjölgun starfa og fjölbreyttari atvinnutækifærum á sviði umhverfis- og náttúruverndar. Í þessari þingsályktunartillögu erum við með sérstakan kafla um ferðaþjónustuna þar sem fram koma sjónarmið okkar í þessum efnum, en þar göngum við út frá því að ferðaþjónusta og náttúruvernd fari saman. Við teljum að svo geti vel verið enda er náttúran sú auðlind sem ferðaþjónustan byggist á.

Það er mikilvægt, virðulegi forseti, að efla þessa ungu atvinnugrein, ferðaþjónustuna. Við teljum að það verði fyrst og fremst gert með því að efla náttúruverndina. Náttúruvernd er undirstaða þessarar blómlegu ferðaþjónustu. Það hlýtur að vera einfalt að fá þingheim til að viðurkenna þetta samasemmerki, sérstaklega þegar töluliður 1 í þingsályktunartillögunni frá samgönguráðherra er skoðaður. Því er alveg sérstakt fagnaðarefni, eins og ég sagði áður, að náttúra Íslands skuli vera númer eitt á blaði. En þá verðum við líka að viðurkenna að náttúruvernd er það sem gerir okkur kleift að hafa náttúru Íslands í þeim virðingarsessi sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir.

Ég tel líka að gera þurfi sérstakt átak í atvinnuuppbyggingunni í tengslum við þjóðgarða og friðýst svæði, t.d. með því að fjölga landvörðum og leiðsögumönnum, eins og hefur komið fram í þessum umræðum. Það þarf að styrkja stöðu þeirra og nauðsynlegt er að efla menntun í ferðaþjónustu eins og hv. þm. Björgvin Sigurðsson talaði um í ræðustól á undan mér.

Fyrst og síðast þarf þó að sjá til þess að ferðaþjónusta á Íslandi sé skipulögð og rekin í anda sjálfbærrar þróunar og í sátt við landið. Í mínum huga er aðeins á þann hátt mögulegt að gera ferðaþjónustuna að þeirri blómlegu atvinnugrein til framtíðar sem hugmyndin er að gera hér og gæta þess um leið að náttúra og umhverfi bíði ekki skaða af. Hluti af sjálfbærri ferðaþjónustu er í mínum huga að styrkja menningarsamfélög til að vekja athygli ferðamanna á menningu og sögu viðkomandi þjóðar. Ég tel að Íslendingar eigi þar vannýtta auðlind sem er sjálfsagt að nota til að efla ferðaþjónustuna og í raun kemur þetta sjónarmið líka fram í áliti nefndarinnar sem gerir ráð fyrir því að styrking byggðar, þ.e. sterkar byggðir þurfi að vera með í fyrsta tölulið ályktunarinnar til þess að leggja áherslu á það hversu mikilvægt er að byggðirnar ólgi af lífi, því ekki er nú athyglisvert fyrir ferðamennina að koma að heimsækja þessa náttúruperlu á norðurhjara ef byggðirnar eru ekki til staðar, ef einungis væri um að ræða náttúruperlurnar.

Hæstv. forseti. Ég fagna því að samgönguráðherra hefur látið gera nokkuð margar viðamiklar skýrslur á undanförnum árum um ferðaþjónustuna. Það kemur fram í greinargerð með tillögunni að þær séu hafðar til hliðsjónar við samningu tillögunnar sjálfrar. Það er gott og vel. En þess ber líka að geta að fleiri viðamiklar skýrslur hafa verið gerðar og sem skiptir máli að líta til þegar stefna í ferðamálum er mótuð. Mig langar sérstaklega til að nefna eina skýrslu sem fjallar um gildi hálendisins fyrir ferðaþjónustu og útivist til ársins 2020. Það er skýrsla sem útgefin var í maí 2003 og unnin fyrir Orkustofnun vegna rammaáætlunar vegna nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Sú skýrsla leggur nokkra áherslu á svæðið norðan Hofsjökuls og Vatnajökuls, Síðuvatnasvæðið og Torfajökulssvæðið, en í henni koma fram ákveðin grundvallarprinsipp sem ég held að sé mjög mikilvægt að höfð séu í huga þegar þessi mál eru skoðuð í heild sinni, sérstaklega vilji menn átta sig á því að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar þarf að vera til staðar þegar þessar ákvarðanir eru teknar og stefnan er mótuð.

Ef marka má það sem kemur fram í þeirri skýrslu um gildi hálendisins fyrir ferðaþjónustu og útivist þá sýna kannanir að lítt snortin náttúra Íslands, ekki síst öræfin og óbyggðirnar, sé helsti hvatinn að heimsóknum erlendra gesta til Íslands og ferðalögum Íslendinga um landið einnig. Ferðaþjónusta til framtíðar á Íslandi á því mjög mikið undir því að sú auðlind nýtist greininni sem best án þess að burðarþoli lands verði stefnt í voða eða að arðbærum möguleikum í ferðaþjónustu verði fórnað fyrir minni hagsmuni þegar til lengri tíma er litið. Þessi skýrsla hefur að geyma mjög athyglisverða umfjöllun um það svæði sem um ræðir og ég held að hún geti verið hluti af auðgunarefni, ef svo má segja, fyrir þá sem koma til með að vinna eftir þeirri þingsályktunartillögu sem við hér erum að samþykkja.

Virðulegi forseti. Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir verulegu máli að við viðurkennum hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar í þessu ferli öllu saman. Það er verulegur skortur á því. Mér finnst bara verulega til vansa að þingsályktunartillagan skuli ekki nefna sjálfbæra þróun. Ég brýni því hæstv. umhverfisráðherra og þá sem að þessum málefnum koma að vera ekki svona feimnir við að nota þau hugtök sem skipta kannski mestu máli þegar skilningur bæði innlendra og erlendra aðila er vakin á þessum málum. Þá skiptir verulegu máli að við köllum hlutina sínum réttu nöfnum. Það er fyrst og síðast sjálfbær þróun sem þessi atvinnugrein kemur til með að þurfa að reiða sig á. En þá þurfum við líka að skilja hugtakið og við þurfum að vera ófeimin við að nota það jafnt í ræðu sem riti.