132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[14:01]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður telur það vera til marks um forneskjuleg viðhorf mín að ég skuli ekki vera sannfærð um að meginreglan eigi að vera bundin í lög um sameiginlega forsjá. Hann má hafa þá skoðun, allt í lagi með það. Ég er ósammála honum og tel mig hafa rökstutt það.

Við andsvarinu vil ég einungis segja þetta: Meginreglan að lögum tryggir ekki hagsmuni barnsins eða barna. Með því að innleiða hana værum við í mínum huga að líkindum að kalla yfir okkur erfið mál, jafnvel mundi erfiðu málunum fjölga fyrir dómi. Þeim mun örugglega fjölga fyrir dómi ef við ekki innleiðum sáttameðferðina.

Ég ætla að benda hv. þingmanni á að það er einmitt fyrir dómi, Héraðsdómi Reykjaness, sem þessi 130 eða 140 mál hafa verið stödd. Þau hafa verið stödd fyrir dómi. Það var dómarinn sem fór í sáttaferlið. Það var dómarinn sem forðaði málunum frá dómi af því að það var sjónarmið hans að forsjármál þyldi ekki dóm. Dómarinn lagði því allt kapp á að dæma ekki í málinu heldur að leita sátta og náði þeim í 90% mála sem hann fékk til umfjöllunar.

Ég er að benda á að það sé svo mikilvægt að dómararnir taki þátt í að sætta stríðandi aðila í þessum málum en ekki bara slá hamrinum í borðið og dæma öðru hvoru foreldrinu forræðið. Eins og ég segi, mín skoðun er þessi. Ég hef sannfærst um það í vinnu við málið að forsjármál þola ekki dóm. Það á eingöngu að dæma í forsjármálum í undantekningartilvikum.

Svo langar mig bara að segja að það vita það allir að foreldrum gengur misjafnlega vel að stunda forsjá með börnum sínum hvort sem þeir eru í sambúð, einir eða skildir að skiptum við maka sína. Við höfum gengist undir það að fólk fari á (Forseti hringir.) hundanámskeið ef það fær sér hund en við erum ekki að styðja það nægilega vel í því ferli að ala upp börnin sín.