144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

um fundarstjórn.

[11:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli forseta á því sem gerðist í hv. fjárlaganefnd í morgun þegar frumvarp um opinber fjármál, sem unnið hefur verið vandlega að í langan tíma af fjórum fjármálaráðherrum, var rifið út með hraði og í ósætti eins og hv. varaformaður og formaður fjárlaganefndar fóru yfir hér áðan og glöddust yfir. Ég ætlaði satt að segja ekki að nefna það og nefndi það ekki undir liðnum um störf þingsins vegna þess að ég var að vona að formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, mundi taka í taumana og „settla“ málið og við gætum fundið út úr því hvernig við gætum farið með þetta mikilvæga mál í sátt og samlyndi inn í næsta haust. Það eru ákveðnir lausir endar sem þarf að hnýta og við getum auðveldlega unnið að því í sumar og gengið síðan frá málinu fullbúnu í september, en sá sáttaflötur var ekki fyrir hendi. (Forseti hringir.) Ég biðla til hæstv. ráðherra að hann gangi í málið og finni hvernig hægt sé að finna þessu betri farveg en það er komið í núna.