145. löggjafarþing — 120. fundur,  30. maí 2016.

viðskipti við Nígeríu.

716. mál
[15:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Valgerður Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra kærlega fyrir svör hennar og viðbrögð. Það er í samræmi við kraft hennar og áhuga á starfinu sem þetta mál er að þokast í þá átt að við munum væntanlega sjá sendinefnd fara til Nígeríu. Ég tel að það sé afskaplega mikilvægt að sendinefndin fari suður til Nígeríu og að þessum útflutningi sé sýndur sá áhugi sem það felur í sér og þá virðingu sem þeim sem standa í þessari atvinnustarfsemi er jafnframt sýnd.

Ég vil líka bæta því við að mikil lækkun hefur orðið á afurðum. Sú opnun, sem hefur þó orðið, hefur þýtt að útflytjendur eru að selja afurðirnar á allt að 40% lægra verði. Þar fyrir utan hafa innflutningstollar í Nígeríu hækkað úr 5% í 20%. Þannig að þetta er nú mun erfiðari staða en verið hefur og mikilvægt, eins og fram hefur komið hjá öllum sem hér hafa tekið til máls, að reyna að koma þessum markaði í gagnið aftur.

Ég vil velta því aðeins upp, og veit að hæstv. utanríkisráðherra hefur komið að þeirri athugun, hvort það sé einhver möguleiki að hækkun á þessum tollum verði lækkuð aftur og líka spurningin hvaða afurðum við sjáum þá að við gætum til dæmis tekið við frá Nígeríumönnum, öðrum en olíu.

Er eitthvað sem þeir hafa að bjóða sem gæti verið mikilvægt og áhugavert fyrir okkur að flytja inn á móti þurrkuðu fiskafurðum?