149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

rammaáætlun.

[10:52]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir athyglisvert svar og ég leyfi mér að segja heiðarlegt því að þetta eru auðvitað nýjar upplýsingar, þó ekki nýrri en svo að ég kom aðeins inn á þetta í ræðu sem ég hélt í eldhúsdagsumræðum í fyrra þar sem ég hafði áhyggjur af því að það væri meðvitað verið að mola í sundur, brjóta undan því verkfæri sem rammaáætlunin er.

Það að hæstv. ráðherra hafi sem viðmið í sínum störfum fyrst og fremst stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en ekki rammaáætlun í þessum efnum, sem er lögbundið ferli eins og við þekkjum, er býsna athyglisvert. Mig langar bara að biðja hæstv. ráðherra að koma hérna upp og leiðrétta mig ef ég er að misskilja það að rammaáætlun sé orðin víkjandi í þessari vinnu. Ætlunin var að leggja rammaáætlun fram á þessu þingi. (Forseti hringir.) Nú segir hæstv. ráðherra að ætlunin sé að leggja hana fram á næsta þingi en segir á sama tíma að leiðarljósið sé allt annað.