149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[11:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þegar málið sem við ræðum nú var í 2. umr. átti ég þess ekki kost að gera grein fyrir fyrirvara mínum en ég er á nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar með fyrirvara. Fyrirvarinn er vegna þess að þarna er verið að gera undanþágu frá virðisaukaskattskerfinu. Við erum með almennt þrep, sem er 24%, og síðan erum við með 11% og svo engan virðisaukaskatt og gerum undanþágur. Þarna er verið að auka flækjustigið með því að setja tíðavörur og getnaðarvarnir í 11% virðisaukaskatt. Auðvitað er ég ekki á móti því að þessar vörur séu ódýrar, langt frá því. Ég mun greiða atkvæði með þessu máli en ég vil að við, þingmenn og hv. þingheimur, íhugum það mikilvæga tekjuöflunarkerfi sem virðisaukaskattskerfið er og þarna stendur til að setja tíðavörur og getnaðarvarnir í 11%. Af hverju ekki öll lyf? Af hverju ekki öll hjálpartæki? Af hverju ekki þetta og af hverju ekki hitt sem er lífsnauðsynlegt að nýta? Eftir því sem undanþágunum fjölgar því veikara verður kerfið þannig að það eru mín varnaðarorð.

Virðisaukaskattskerfið er ekki gott tekjujöfnunarkerfi. Það hefur margoft verið sýnt fram á það og nú síðast með stórri skýrslu frá árinu 2015. Það er ekki gott tekjujöfnunarkerfi. Þeir sem kaupa mikið og hafa efni á því fá mun meiri skattafslátt en þeir sem hafa efni á að kaupa minna fá minna. Þetta er ekki gott kerfi til að jafna stöðu fólks. Við eigum hins vegar að nota tekjuskattskerfið til þess, fjölga frekar þrepunum þar og horfa til Norðurlandanna þar sem sú leið er einmitt farin og reynt að halda virðisaukaskattskerfinu eins almennu og mögulegt er. Þetta er minn fyrirvari, forseti, og ég hef lokið máli mínu.