149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[11:22]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Að mörgu leyti get ég tekið undir það sem kom fram í orðum hans sem og hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur sem ræddi áður um að virðisaukaskattskerfið væri kannski ekki í fyrsta lagi gott jöfnunarkerfi o.s.frv. Ég lýsti því svo sem í ræðu minni um þetta mál þegar ég fór yfir það af hverju ég væri ekki á málinu þó svo að ég styddi það sem því er ætlað að ná fram.

Og þar kemur að andsvari mínu, vegna þess að hv. þm. Bergþór Ólason spyr: Af hverju ekki einhverjir aðrir hópar? Hann tiltekur t.d. eldri og unga og mismunandi búsetu á landinu en getur hv. þingmaður ekki samt verið mér sammála um að við erum að jafna ákveðna stöðu þessara tilteknu hópa með ýmsum tilhliðrunum í skattkerfinu okkar? Það eru til alls konar styrkjakerfi, tilhliðrunarkerfi og hið opinbera eyðir einfaldlega töluverðum tíma, orku og fjármunum í að jafna ef það eru ólíkar aðstæður sem hópar búa við vegna aldurs eða búsetu. Þetta er eitt sem mig langar aðeins að heyra hv. þingmann kommentera á.

Síðan er hitt að það sem þessi hópur, þ.e. skilgreiningin karlar/konur, skera sig úr um er í fyrsta lagi að þar er um að ræða nokkurn veginn helming þjóðarinnar og í annan stað ekki eitthvað sem maður ákveður. Maður ákveður ekki í hvoru kyninu maður endar og þar með gengur inn í þetta óréttlæti. En við veljum okkur t.d. búsetu. Aldur breytist með árunum þannig að það er aðeins ólíku saman að jafna í því.

Ég held að við séum hérna fyrst og fremst að horfa á það að við erum að laga það óréttlæti að það eina sem skiptir máli er hvers kyns maður er þegar maður notar ákveðna vöru og hún er skattlögð á ólíkan hátt. Gæti hv. þingmaður aðeins komið inn á þetta?