149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

upplýsingalög.

780. mál
[14:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þetta er um margt sérstakt mál að því leyti að það byggir á hugmyndum sem eru mjög gamlar í umræðunni hérna án þess að þær hafi verið uppfærðar til samræmis við þær breytingar sem hafa orðið og það sem komið hefur í ljós í samfélaginu í millitíðinni. Ég vil bara nota tækifærið hér í mjög stuttri ræðu til að hvetja til þess að þetta mál verði skoðað áfram með það að markmiði að það nái að gegna því hlutverki sem því er ætlað. Til að svo megi verða finnst mér að taka þurfi tillit til mjög margra hluta sem hafa komið á daginn síðustu misserin og árin fremur en að klára mál einfaldlega á þeim forsendum að það sé orðið svo gamalt að tímabært sé að klára það, það er miklu skynsamlegra að nýta þær upplýsingar sem hafa komið fram í millitíðinni til að vinna málið betur og gera það betur úr garði.