149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[15:00]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir andsvarið. Ég held að þingmaðurinn misskilji þetta að einhverju marki. Það er einmitt verið að leggja til að þetta verði í samræmi við það sem hv. þingmaður sagði um að refsa fólki fyrir brot sem það framdi ekki. Með þessari breytingartillögu er einmitt verið að leggja til að þetta verði brot, bara svo það sé skýrt ef það gat misskilist eitthvað.

Jafnframt er lagt til með þessari breytingartillögu að bæði viðmiðin verði notuð áfram eins og hingað til, þ.e. bæði blóð- og þvagsýni — hvað sem nú rennur í gegnum heilann á mönnum dagsdaglega.

Þetta er í rauninni mun nær núverandi fyrirkomulagi. Það sem er áréttað hérna er að hætt sé að fullyrða í lögum að hann sé undir áhrifum. Það er akkúrat atriðið sem var gagnrýnt.

Að þessu tvennu sögðu er verið að leggja hér til að framkvæmdin verði nær því sem nú er en lagt er til í frumvarpinu. Hins vegar er náttúrlega lykilatriði að það er alls ekki verið að leggja til að ökumönnum verði refsað fyrir brot sem þeir frömdu ekki vegna þess að það er einmitt verið að leggja til að það verði álitið brot komi fíkniefni fram í annaðhvort blóði eða þvagi.