149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[15:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gagnrýni mín er á það að hv. þingmaður stingi upp á því að hafa fyrirkomulagið eins og það er. Það er víst í breytingartillögunni að refsa fólki fyrir brot sem það hefur ekki framið.

Á Íslandi hafa fallið dómar þar sem einhver var gripinn með niðurbrotsefni af vímuefnum í þvagi, þannig mál fór til Hæstaréttar og viðkomandi var dæmdur fyrir vímuefnaakstursbrot, þrátt fyrir að það væri óumdeilt af ákæruvaldinu og öllum að viðkomandi hefði ekki verið undir áhrifum vímuefna við akstur ökutækisins.

Ef fólk vill refsa fyrir vímuefnaneysluna eina og sér skal fólk koma og segja það og rökstyðja þá fáránlegu skoðun. Það að refsa fólki fyrir vímuefnaakstur sem einfaldlega hefur ekki stýrt ökutæki undir áhrifum vímuefna er forkastanleg vitleysa. Það er í reynd mannréttindabrot. Það eru mannréttindi að fólk sé ekki dæmt fyrir brot sem það hefur ekki framið. Og ég er að tala um mál þar sem er óumdeilt að það brot sem í daglegu máli er kallað vímuefnaakstur hafi ekki verið framið heldur er það einmitt sett inn sem lagaleg skilgreining að brotið felist í því að vera með niðurbrotsefni í þvagi, nokkuð sem er vel vitað og viðurkennt alls staðar að dugir ekki til.

Hv. þingmaður er þannig víst að leggja það til að fólk verði dæmt fyrir brot sem það hefur ekki framið, með lagatæknilegum útúrsnúningi, þeim sama og hefur verið í lögum hingað til og hefur réttilega verið harðlega gagnrýndur vegna þess að hann felur í sér mannréttindabrot og felur í sér að gera fólk sekt um glæpi sem það hefur ekki framið. Það er rangt, það er siðlaust, ég mótmæli harðlega og skora á hv. þingmann að draga þessa fáránlegu tillögu til baka.