149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[15:04]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég mun hér eftir sem hingað til forðast að segja allt sem um huga minn fer varðandi ýmsar aðrar breytingartillögur. (Gripið fram í.)Ég held að málið liggi þannig að við hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson náum eflaust ekki saman um það. Það er bara þannig.

Ég hef ekki orðið var við umræðu um að fyrirkomulag það sem viðhaft hefur verið hér um alllanga hríð varðandi þessi mál hafi verið skilgreint sem mannréttindabrot. Það er ný umræða í mín eyru. (HHG: Ég sé það.) Já, þú ert að fullyrða það.

Hæstiréttur, í því máli sem hv. þingmaður vísaði til, ég þekki ekki efnisatriði málsins, dæmir auðvitað eftir landslögum og landslögin eru eins og þau eru. Það er verið að leggja til að þeim verði breytt á ákveðinn máta og ég er að leggja til að menn stígi varlega til jarðar hvað þetta tiltekna atriði varðar. Það er eins og þetta horfir við mér.

Hv. þingmanni er frjálst að hafa þá skoðun að breytingartillaga mín sé fáránleg, vitlaus og þar fram eftir götunum. Ég sef svo sem alveg rólegur yfir þeirri afstöðu þingmannsins en ég held að það séu svo sem litlar líkur á að við náum saman um afstöðu til málsins. Ég bara ítreka að hér er ég að leggja til að framkvæmdin verði með svipuðum hætti og verið hefur, að því lagfærðu að ekki er lengur fullyrt að ökumaður sé undir áhrifum. En það er haldið í það að það sé bannað að aka ökutæki greinist (Forseti hringir.) fíkniefni annaðhvort í þvagi eða blóði.