149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[16:13]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Brynjar Níelsson talar hér að venju mikið um sjálfan sig og sínar persónulegu skoðanir og reynslu og hann hefur farið mikinn í að útlista fyrir þingheimi hvar óþol hans liggur. Það er eflaust áhugavert fyrir einhverja en minna áhugavert fyrir aðra. Hv. þingmaður segist hafa mikið óþol gagnvart boðum og bönnum þrátt fyrir að hann vinni við lagasetningu á Alþingi, við það að setja lög og reglur, en kannski telur hann sitt hlutverk frekar að draga úr lögum og reglum.

Hv. þingmaður ræddi mikið í sinni ræðu um að menn beri ábyrgð á sjálfum sér þegar hann talaði um mælikvarða á áfengi og fíkniefni þegar ökutækjum er ekið. Mig langar til að vita hvaða lausnir hv. þingmaður leggur til, hvað hann hafi í sjónmáli til að draga úr akstri undir áhrifum áfengis eða vímuefna ef ekki með boðum og bönnum, eins og hv. þingmaður talar hér gegn.