149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[16:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ljómandi fína ræðu og taka undir að það er mjög mikilvægt að við ræðum loftslagsmál oftar og dýpra í þessum sal en við gerum. Ég ætla að vona að við fáum tækifæri til þess því að það eru svo mörg tilefni til að ræða loftslagsmál oftar, ekki bara í kringum stefnuna sem við erum að setja núna heldur t.d. í kringum fjárlög og slíkt, hvernig eigi að ráðstafa fjármunum ef við horfum á loftslagsmálin eða aðgerðir sem er augljóst að við þurfum að grípa til.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það sem kom fram að mér heyrðist í ræðu hennar, að Ísland væri með mesta losun frá hagkerfi á einstakling. Það sem ég er að velta fyrir mér, af því að ég fann það ekki í gögnunum í fljótu bragði þótt mér gæti hafa yfirsést það, er hvort þá sé átt við heildina, þ.e. flug, skip, bíla og hagkerfið í heild.

Þá kemur önnur spurning sem snýr að því hvar við getum náð mestum árangri á sem skemmstum tíma. Það er kannski erfitt að svara því og ég ætlast ekki til þess að fá mjög nákvæmt svar við þeirri spurningu. En mér finnst við of oft fókusa á hluti sem eru, ég ætla ekki segja litlir en þeir eru minni en margir aðrir í stóra samhenginu. Við tölum oft um bifreiðar, einkabílinn, sem er skiljanlegt, hann mengar klárlega, en ef ég man rétt er hann lítill hluti af allri losun á Íslandi og sjálfsagt víða, en sérstaklega á Íslandi.

Ég spyr: Hvað getum við gert í hinum tilvikunum þar sem við þurfum að draga úr losuninni? Þurfum við að setja kvóta á flugferðir? Hvernig getum við unnið bug á því án þess að vera að tala alltaf um það sama, umferðina og bílinn? Það eru líka skip og vissulega almenningssamgöngur.